Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Vangaveltur um baráttu.

hordursjalfur's picture

Ég hef undanfarið og útundan mér fylgst með atburðarrás málsins um Snorra í Betelog get ekki að því gert að það sækir að mér ákveðinn samanburður á því þegar ég var að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra hér á landi. Þá var djúpstæð fyrirlitning á samkynhneigð, sem þá kallaðist kynvilla, vegna þess að það stóð í Biblíunni. Engin málefnaleg né upplýsandi umræða hafði verið um málið. Aðeins þegjandi og gagnrýnislaust samþykki þess sem í Biblíunni stóð.

Þegar ungur þjóðfrægur og eftirsóttur listamaður steig svo fram, fyrstur manna hérlendis, og lýsti yfir samkynhneigð sinni árið 1975 umturnaðist þjóðfélagið. Það lásu allir viðtalið, en fjölmiðlar gættu þess vel að ræða málið ekki, né kryfja það, frekar að viðhalda því sem í Biblíunni stóð.  Afleiðingin var lóðrétt hrap á allan hátt og ég varð að flýja land til að halda lífi og sönsum. Sem betur fór hafði ég unnið mér virðingu og traust hjá áhugaleikhúsum og tókst að vinna mitt baráttustarf með dyggilegri aðstoð þess fólk. Þeim sé þökk. Að sannfæra menn um nauðsyn þess að stofna Samtökin´78 tók baráttu og mikinn tíma en með stofnun þeirra tókst  að virkja og vekja menn til baráttu og smám saman áunnu þau samtök sér virðingu vegna hæfileika félagsmanna og dugnaðar. Með tíð og tíma, árið 2006, öðluðumst við samkynhneigða fólkið full réttindi á við aðrar manneskjur í þessu landi.

Mín reynsla er að í hvert skipti sem baráttumanneskja stígur fram á sjónarsviðið hér landi þá er refsing samfélagsins fordæming, harðræði og þöggun. Útilokun. Ég nefni sem dæmi þegar ég steig fram 1975 og svo afleiðingarnar eftir framtak mitt  á Austurvelli 2008/09. Fleiri dæmi eru til og nú síðast mál Snorra í Betel.

Mér skilst að baráttumaðurinn Snorri í Betel hafi ekki dregið boðskap sinn inn í skólastarfið og alls ekki prédikað slíkt yfir börnunum, heldur hafi þetta viðhorf hans komið fram annarsstaðar. Hvar veit ég ekki. En viðhorf hans hafa ekki farið leynt fram til þessa dags. Ég tel hann hafa fullan rétt á skoðunum sínum.  Skólayfirvöld bera í þessu tilfelli ábyrgðina og þeim ber skylda til að rannsaka málið og víkja Snorra úr starfi hafi hann gerst brotlegur við lög skólans. Hafi hann ekkert brotið af sér í starfi á hann að fá að halda því óáreittur. Þó svo ég sé mjög langt frá því að vera sammála Snorra þá á hann að njóta virðingar sem manneskja og réttlátrar málsmeðferðar. Ef ekki þá hefur engin málefnalegur árangur náðst, engar framfarir orðið.

Skoðanir Snorra eru forneskjulegar og hann er, að mér skilst, málsvari lítils söfnuðar sem fer gegn öllum áunnum upplýstum mannréttindum. Það eru til margir sértrúarsöfnuðir hér á landi með allskyns mannfjandsamlegan boðskap og það er kominn tími til að taka á þeim málum af festu. Ef ríkið er að styrkja slíka starfsemi þá á að stöðva þau framlög. 

 

febrúar 2012