Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Test

Ég var að grúska í tölvunni minni í leit að efni og fann þá þessa grein sem ég hef skrifað fyrir rétt eftir að ég hætti með útvarpsþáttinn Sáðmenn söngvanna í apríl 2006. 

 

Lokasprettur Sáðmanna Söngvanna.

Reykjavík, september 2006.

Ég var með vikulegan útvarpsþátt sem ég kallaði Sáðmenn söngvanna frá 5 október 1999 til 30 mai 2006 og gerði alls 342 þætti. Sem menntaður leikari þá er hluti þeirrar menntunar að vinna í útvarpi og við það hafði ég fengist áður. Nokkrum árum áður hafði ég t.d. gert nokkra þætti um tilurð og áhrif trúbadúra. 

Þættir þessir náðu stigvaxandi vinsældum og lagði ég mikla vinnu í þá og viðaði að mér efni víða. Það hefur alltaf fylgt starfi mínu að ferðast og mig ber víða. Eftir að ég hóf þessa þáttagerð þá var ég alltaf á ferðalögum mínum með augu og eyru opin fyrir efni í þættina þannig að öll þessi ár vann ég að þeim nánast daglega. Ég hafði þann háttinn á að þegar ég var á Íslandi þá hljóðritaði ég fjölmarga þætti sem dugðu vel yfir það tímabil sem ég var í burtu. Þetta var mikil vinna og mjög ánægjuleg og sérstaklega vegna þess að ég kynntist og vann með á RÚV flest öllum færustu tæknimönnum stofnunarinnar og af þeim lærði ég mikið og margt. Lærdóm sem ég er þakklátur fyrir og sem ég mun alltaf búa að.

Í fyrstu fóru þættirnir dálítið hikandi af stað þar sem ég fékk þetta verkefni með stuttum fyrirvara og ég var að leita fyrir mér með heildarsvip fyrir þá.  Nafnið kom úr söng sem ég hafði samið í óhefðbundið söng ljóða ævintýri sem ég kallaði Vitann. Sáðmenn söngvanna er fólkið sem fer um heiminn og dreifir um sig söngvum í vitund allra manna eins og sáðmenn dreifa fræjum á ökrum. 

Í þessum þáttum lagði ég áherslu á að leita uppi söngvaskáld og túlkendur sem notuðu hæfileika sína í söngvasmíð og flutningi til að hafa bætandi áhrif á samfélag sitt. Málið var mér skylt því það var nákvæmlega það sem ég hafði sjálfur stundað hér á landi í áratugi.

Árin liðu og fjölmargir hlustendur höfðu samband við mig í gegnum síma, á götum úti og með bréfum og emailum. Það var kominn smá bunki af bréfum og emailum og full af allskyns fyrirspurnum, óskum og uppástungum um efni í þættina. Einnig barst mér verulegt magn geisladiska frá hinum og þessum tónlistarmanninum víða um landið.  Þó var áberandi og reyndar hamlandi að fólk áttaði sig ekki á að senda áhugaverðar upplýsingar með diskum sínum. Í þeirri gerð þátta sem ég vann að var sagan tónlistarfólksins og orsaka tónlistarinnar ákaflega veigamikil. Ég hafði semsagt geisladiskana en ekki sögurnar á bakvið þá.

Það var mikil vinna að ná samabandi við tónlistafólkið íslenska og mér fannst það oft fyndið að loks þegar það tókst þá var það talsvert átak að fá þetta fólk til að segja frá.  Þekkt tónlistafólk var auðveldari efniviður því heimildir voru víða  en það óþekkta gerði sér ekki grein fyrir mikilvægi sagnanna og margt af því gerði mér erfitt fyrir með ýmiskonar tiktúrum þannig að ég sleppti því einfaldlega að gera þætti um það. Það kallaði á alltof mikla vinnu frá minni hendi, vinnu sem, samkvæmt minni reynslu, átti alfarið að vera í þeirra höndum sjálfra að útvega efnivið sem ég gæti unnið úr. Þeirra hagur var að útvega söguefnið. Við erum lítið land og launin við íslenska þáttagerð eru mjög lág svo það er engin furða að margur þáttagerðarmaðurinn fer auðveldustu leiðina og fær til sín gesti til að spjalla, eða lætur sér nægja að lesa upplýsingar af plötuumslögum og geisladiskabókum.  Mín stefna var önnur og meira krefjandi og kallaði á vinnuframlag sem snarminnkaði tímalaunin en það gerði ekkert til því ég naut þessarar vinnu og hef aldrei haft peninga sem aðalatriði í vinnu minni. Nú svo voru og eru til þeir sem beita öðruvísi aðferðum og telja það sjálfsagt að hafa áhrif á annað fólk með gjöfum í ýmsu formi. En slíkt virkar alltaf þveröfugt á mig því ég sé slíkt sem spillingu og aðferðir sem ég er einlægt á móti. Oft hafði ég heyrt innann bransanns að ýmsir þáttagerðamenn þægu mútur í ýmsu formi en ég leiddi slíkt hjá mér sem þvætting þeirra sem ekki þekktu inná bransann.

En, afur að bréfum, símtölum, emailum og götuspjalli við hlustendur þar sem ég var oft spurður hvaðan nafn þáttanna kæmi. Eftir nokkur ár þá hljóðritaði ég einfaldlega þennan söng minn árið 2003 og notaði hann seinna sem einkennissöng þáttanna, að mér skildist mörgum hlustendum til mikillar ánægju.Nokkuð sem einkenndi líka þessi bréf hlustenda var sú áskorun að ég myndi gera þætti um mitt starf og minn feril. Margir bentu á að það hefði aldrei verið gerðir þættir um mig en nokkuð margir slíkir þættir gerðir um menn sem komu löngu seinna fram á sjónarsviðið. Auðvitað var stór munur á okkur í starfi því ég hef starfað óháður síðan 1974 og gefið efni mitt út sjálfur. Það hafa fáir gert. Flestuir sem hafa náð einhverjum árangri sem söngvaskáld hafa verið samningsbundnir við útgefendur sem hafa á sínum snærum umboðsmenn sem sjá um að koma sýnu m listamönnum á framfæri.

Fyrstu árin leiddi ég þessar óskir hjá mér þar sem mér fannst óviðeigandi að ég gerði þætti um sjálfan mig. En í gegnum árin stækkaði bréfabunkinn og svo var það að í apríllok 2006 eftir að hafa lesið í gegnum þennan bréfabunka að ég fór með hann til yfirmanns míns á rás1 og sýndi henni og færði í tal við hana að þessi efniviður yrði settu í hendur einhvers dagskrárgerðamanns. Henni leist ágætlega á efnið en sagði þetta vera verkefni fyrir Rás2 og ég skyldi ræða málið þar inná deild. Ég var að vísu ekki sammála því að ferilþáttur um mig ætti heima á popprás, mun frekar á rás1, en það er ágætt að taka ráðum annarra sérstaklega um málefni sem snúa að manni sjálfum, svona til að krækja framhjá blinda blettinum í sjálfum sér, svo ég fór að ráðum hennar og fór yfir á þá deild til að ræða við fólkið þar.     

Vægast sagt var áhuginn þar á bæ enginn. Þeir sem ég ræddi við hummuð eitthvað og ypptu öxlum eða snéru sér undan.  Þetta fundust mér meira en óviðeigandi viðbrögð. Gat fólk ekki talað og sagt annaðhvort af eða á eða það sem æskilegast var í þessari stöðu; að þau myndu skoða málið?  Mér varð á að spyrja, svo flestir heyrðu, hvort það væri í raun og veru satt sem ég hafði heyrt að það þyrfti að múta fólki til að gera slíka þætti?  Var ekki kominn tími til að ræða af hreinskilni allar slíkar ásakanir? Þurftum við ekki að ræða sameiginlegar siðareglur í þáttagerð? Skyndilega var ég staddur í 100 gráðu frosti. Það heyrðist ekki einu sinni muldur. Ég fór. Þarna hafði ég greinilega snert auman blett. Þetta var á fimmtudegi. Þegar ég kom heim seinna um daginn hafði ég á orði að ég yrði sennilega rekinn fljótlega frá RÚV. Svo hugsaði ég ekki meira um það og hélt áfram að vinna að þeim þáttum sem ég ætlaði að taka upp áður en ég færi af landi. Þetta var þáttaröð um Ragnar Bjarnason, KK bæði gamla og nýja, um öll þáttastef RÚV , Helenu Eyjólfsdóttur og eitthvað fleira.

Hér langar mig til að skjóta inní að ég var á þessum tíma að kanna sögusagnir og fullyrðingar margra listamanna um klíkuskap og spillingu í tónlistar bransanum. Oft heyrði ég sagt að sumir listamenn væru nánast áskrifendur að listamannalaunum árum saman. Fyrir mörgum árum ræddi við marga um listir og pólitík og sumt fólk benti mér einfaldlega á að finna út hverjir væru í þeim nefndum sem myndu annast umsókn mína og síðan ætti ég að bjóða þeim í mat og ræða málin. Þegar ég spurði þá sem sögðu svona hvort þeim fyndist ekkert athugavert við svona háttalag var svarið einfalt, nei. Að þeirra mati voru leikreglurnar svona og þá var bara að lifa samkvæmt þeim. Ég spurði hvort þetta væri ekki spilling og mér var ráðlagt að vera ekki svona barnslegur. Ég benti á að samfélag væri byggt upp á lögum og reglum og þeim ætti að fylgja og sérstaklega fólk í opinberu starfi. Ég fékk að vita að ef ég ætlaði að komast áfram þá kæmi ég mér einfaldlega í mjúkinn hjá þeim sem réðu. Alltaf að standa með þeim sterka. Venjulega vorum umræðurnar ekki lengri vegna áhugaleysis viðkomandi og síðan tók ég vel eftir að sumt fólk forðaðist mig einfaldlega eftir svona samtöl. En ég tók það ekki næri mér. Ég geri mitt besta til að virða viðhorf annarra eins og ég vil að aðrir eiga að virða mín, en ég vil ræða máli.

Mig langaði að ræða við menn um hvað væri mútuþægni og hvernig menn sáu og upplifðu spillingu.  Þetta gerði ég með því að spyrja fólk á götunni og heimsækja ýmsa ráðmenn og ræða við þá um málið. Líkt og alltaf þá nota ég sjálfan mig og bendi ekki á aðra. Ég spurði um spillingu en fólk taldi spillingu ekkert vera útbreidda á Íslandi. Mörgu fólki tókst ekki að leyna fyrirlitningarsvip sínum þegar ég var að spyrja það um grunaða spillingu hér og þar.  Almennt var viðhorf manna að á Íslandi væri engin spilling eða amk ákaflega lítil og þá  nokkuð sem væri eðlilegt. Ég gekk svo langt að skrifa opið bréf til Þorgerðar Katrínar menntamálaráðherra og bað um viðtal sem ég fékk á endanum eftir nokkra mánaða bil. Sama niðurstaða eftir þann fund sem annarra.

Þriðjudagsmorgun seinnihluta april 2006 og ég á kafi í að skrifa þátt þegar síminn hringir og Bjarki Sveinbjörnsson kynnir sig og segir nokkurveginn þetta í símann “Ég var fenginn til þess að segja þér að eftir fundinn núna áðan hafa stelpurnar hafa ákveðið að nú væri nóg komið af Sáðmönnum söngvanna og síðasti þátturinn verður 30 mai.” Ég þakkað Bjarka fyrir skilaboðin og innst inni fann ég bæði fyrir depurð en um leið ákveðnum létti. Létti vegna þess að þetta var svo tímafrek og mikil vinna miðað við launin en depurð vegna þess að ég hafði vitað að þetta myndi gerast. Inní þessa depurð mína var ofin sú tilfinning að margir opinberir starsfmanna skildu ekki, eða vildu ekki skilja, hugtakið spilling, ekki frekar en margir aðrir sem ég ræddi við.  Fjöldskyldutengsl, vinagreiði og eigin hagnaðarvon ræður oft ferðinni en reglugerðum og lögum er beitt gegn þeim sem ekki unnu samkvæmt því viðhorfi og tóku þátt í þessum margslungna leik.  Ég ber engan kala til þessara einstaklinga því ég var alinn upp í þessari blindni, var framan af samdauna þessu ástandi, uns ég smásaman vaknaði til vitundar og hristi þetta af mér.  Það var ekki átaklaust og kostaði mig fórnir en mér fannst það þess virði.  Svo sannarlega veit ég um einstaklinga víða um samfélag okkar sem fara sér svo varlega að þau gera ekkert sem teflir stöðu þeirra og fjárhagslegri afkomu í hættu.

En ég var verktaki hjá RÚV og fékk mánaðar uppsagnarfrest og þannig lagað var ekkert við þessu að segja. En skrýtið í ljósi þess að ég vissi að ég yrði látinn fara eftir að hafa spurt greinilega óþægilegrar spurningar og að þetta var með vinsælli útvarpsþáttunum RÚV á þessum tíma og hlustun mjög mikil. En fyrir mig var kominn til að halda áfram út í óvissu þá sem flestir listamenn lifa við.  

En hvað með að gera útvarpsþætti um mig sem listamann? Hversvegna í ósköpunum hallaði svona á mig sem einstakling og sjálfstætt starfandi listamann? Hversvegna í ósköpunum þessi þöggun, þetta áhugaleysi? Ástæður og skýringar voru ekkert að flækjast fyrir mér því margt hef ég séð og upplifað á ferli mínu sem hófst þegar ég var ungur maður og spannaði meira en fjóra áratugi. Eitt veit maður, annað grunar mann, sumt getur maður sannað, annað ekki og svo framvegis. Þannig er mannlífið og óréttlátt og svikult ástand mun ekkert breytast  ef menn taka öllu þegjandi og gagnrýnislaust. Það þarf að ræða málin af yfirvegun.   

Var ekkert athugunarvert við samvinnu yfirmanns á rás2 við Skífuna? Hafði Skífan ekki fullmikil áhrif inná Rás2?

Það verður að skoða vel tilgang þessara ólíku fyrirtækja, annað í einkaeigu og hitt í almenningseign. Annað var landsins stærsta útgáfufryirtæki í tónlist með greiðan aðgang að eigin fjölmiðlum og með umboð margra listamenn sem fengu óvenjumikla spilun hjá báðum aðilum og áróður á verkum þeirra og frammistöðu.

Ég fór á stjá og ræddi ástandið við ýmsa menn bæði innan og utan RÚV.  Málið var að ég átti eftir að gera fjóra þætti áður en starfi mínu lauk. Spurning mín var hvort það væri siðferðilega rétt að ég myndi sjálfur fjalla um ferli minn og ef svo í hversu mörgum þáttum. Efnið var meira en nóg fyrir fjóra þætti. Niðurstaðan varð sú að ég myndi gera þrjá um starf mitt sem söngvaskáld. Menn bentu á að RÚV hefði átt að vera búið að gera slíka þætti um starf mitt og það fyrir löngu. Margir veltu því fyrir sér hversvegna það hefði ekki verið gert. Niðurstaðan varð sú að ég gerði þrjá þætti um feril minn og fékk góð viðbrögð.

Nú vitiði það.

---------------------

Kynningar texti af tónlist.is

Þennan texta sá ég á tónlistarveitunni Tonlist.is, núna nýlega – Ég veit ekki hver samdi hann. Ég leiðrétti mestu villurnar í honum og tók út endurekningar og bætti inn smá lokakafla úr einu viðtali til að uppfæra í samtímann. R-vík 14 okt.´14

Hörður Torfason er reykvíkingur sem að loknu gagnfræðaprófi úr viðskiptadeild vann sem einkabílstjóri, þjónn, húsamálari, húsaviðgerðarmaður, hafnarverkamaður, á síldarplani, í byggingavinnu, kaupamaður í sveit og sem verslunarmaður áður en hann hóf leiklistarnám.  Hann útskrifaðist sem leikari frá leiklistarskóla Þjóðleikhússins vorið 1970, þá 24 ára, og með bjarta og lofandi framtíð í starfinu auk tveggja atvinnusamninga í vasanum. Fyrri samningurinn hljóðaði uppá gerð tveggja breiðskífa með lögum eftir hann og seinni samningurinn hljóðaði uppá umsjón og flutning á allri tónlist í sumarleikhúsinu “Light Nights” fyrir erlenda ferðamenn í Reykjavík það sumar. Sumri lauk og fjölda velheppnaðra leiksýninga og Hörður lauk einnig við hljómplötuna, sem hafði verið unnin í áföngum  allt sumarið og fram á haust hér og þar um Reykjavík. Þessi plata var reyndar fyrsta íslenska platan hljóðrituð á Íslandi í steríó og fyrsta söngvaskáldsplata gerð á Íslandi, en hún innihélt 12 lög eftir Hörð við ljóð ýmissa skálda sem hann flutti sjálfur ásamt tríói. Að þessu loknu hélt Hörður til Kaupmannahafnar til að kynna sér pólitískt leikhús. Þann vetur lék hann og starfaði m.a. með hópi íslenskra listamann í pólitískum leikhóp sem kallaði sig “Andróklesaleikhúsið” ásamt því að kynna sér starf ýmissa pólitískra leikhópa og sambærilegra áhrifamiðla. Þennan vetur kynntist hann líka pólitískum réttindabaráttu samtökum samkynhneigðra á norðurlöndum og í Evrópu.

Umrædd plata sem auk þess var fyrsta plata Harðar kom út í mars 1971 á Íslandi og sló rækilega í gegn því þar kom fram söngvaskáld í fyrsta sinn á Íslandi og voru margir sem tóku Hörð sér til fyrirmyndar. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fékkst Hörður ekki til að koma til Íslands og fylgja vinsældum sínum eftir þegar platan kom út. Hann var reyndar önnum kafinn við að troða upp í Tívolí í Kaupmannahöfn. Hann fékk tilboð þar um að koma til bandaríkjanna og nota hæfileika sína þar í landi við að skemmta fólki. Hann varð þó að koma fyrst við á Íslandi sumarið 1971 og taka upp aðra breiðskífu eins og samningar kváðu á um, áður en hann fór til USA. Í bandaríkjunum dvaldi hann í þrjá mánuði og fékk freistandi tilboð sem hann hafnaði og sagðist heldur vilja vera verkamaður á Íslandi en skemmtikraftur í bandaríkjunum því slíkt væri mannskemmandi.

Í ársbyrjun 1972 tók Hörður að ferðast um Ísland sem leikhús atvinnumaður og setja upp leikrit og halda tónleika. Hann hefur sviðsett um 100 leikrit og gert sviðsmyndir við flest þeirra. Tónleikar hans eru óteljandi bæði hérlendis og erlendis. Árið 1973 gerðist Hörður algjörlega sjálfstæður og 1975 hóf hann að gefa út sínar eigin plötur og keypti stuttu síðar útgáfurétt að fyrstu tveim plötunum sínum. Hörður var mörgum árum seinna heiðraður fyrir þetta brautryðjandastarf á Íslandi af NPU eru samtök tónskálda og textahöfunda á Norðurlöndunum. (The Nordic Popular Author's Union / Nordisk Poplærautorunion ). Hörður hefur hlotið margskonar viðurkenningar fyrir starf sitt á Íslandi bæði af íslenskum og erlendum samtökum.

Hörður setti íslenskt þjóðfélag vægast sagt á annan endann í ágústbyrjun 1975 þegar hann lýsti því yfir fyrstur íslendinga að hann væri samkynhneigður. Yfirlýsing hans vakti þvílík viðbrögð að hann var í beinni lífshættu og varð að lokum að flýja land. Aðalmarkmið hans var að stofna baráttufélag fyrir réttindum samkynhneigðra. Hann lauk þessu frumkvöðulsstarfi sínu með því að standa fyrir stofnun Samtakanna´78. Þegar honum tókst það loks eftir þrotlausa baráttu í nokkur ár lét hann þau orð fylgja að hér eftir væri það annarra að draga vagninn hann kærði sig ekki um að  vera frontfígúra þó hann myndi hér eftir sem áður halda áfram að fjalla um samkynhneigð líkt og annað í mannseðlinu í verkum sínum. Hann var lagður í einelti í áratugi og tónlist hans hætti að heyrast í ríkisútvarpinu.  Alvarleg tilraun til að ráða hann af dögum var gerð í Jónshúsi í Kaupmannahöfn 1982. En það lýsir manninum vel að hann var ekkert á því að gefast upp og birtist aftur og aftur á Íslandi og hélt uppi umræðunni um mannréttindi í gegnum sögur sínar og söngva.  Árið 1991 flutti hann aftur til Íslands.

Haustið 1976 hóf hann að halda hausttónleika í september ár hvert og skóp þar með enn eitt gott fordæmið. Seinna bætti hann við Kertaljósatónleikum á vorin.  Stöðugt fjölgaði því fólki sem sótti tónleika hans, enda talin einstæð skemmtun og ógleymanleg upplifun þeim sem þá sækja. Hausttónleikar Harðar voru orðnir fastir liðir í menningarlífi Reykjavíkur og fleiri staða á Íslandi. Hörður tók nefnilega uppá því að fara einn hringinn í kringum landið með tónleika strax 1974 eftir að hringvegurinn var opnaður og heimsækja hvert þorp á Íslandi. Hann gerði þetta bæði haust og vor og var ekki að auglýsa þetta neitt sérstaklega. Margir hafa reynt að leika þennan leik eftir en fæstum tekist nema um stundarsakir.   

Það er aðall Harðar að fjalla um tilfinningar og fjölbreytilegt eðli manneskjunar án þess að vera að lyfta fingri og áfellast fólk. Hörður er brautryðjandi á mörgum sviðum á Íslandi og tengist það vafalaust leikhúsmenntun hans, lífsviðhorfi, listrænum metnaði og tilgangi. Margar plötur hans hafa verið “concept” plötur, þeas þær innihalda heildarþráð. Má þar nefna plötur eins og Dægradvöl, Tabu, Rauða þráðinn og Kveðju sem góð dæmi. Hörður er líka þekktur fyrir að þaulvinna tónleika sína og vinna með heildræna hugsun, semja þá eins og leikrit. Gagnrýnendum hafa bent á óvenjulega einlægni hans á sviði þar sem hann virðist hugsa upphátt á milli söngva og sterk leikhúsáhrif á tónleikum hans og að þeir sem sækja tónleika hans veltist annaðhvort um af hlátri, berjist við grátinn, eða sitji þungt hugsi og drekki í sig hvert einasta orð og hafi mikið að ræða um og vangaveltast eftir tónleikana. Textar hans eru margbreytilegir og íhugulir og oft er rætt um söngva hans og túlkun sem mjög ástríðufulla og fjölbreytta. Margiur söngvar hans eru orðnir “þjóðareign”.


Hörður hefur alla tíð farið eigin leiðir og ekki látið einhver markaðsviðhorf né slík lögmál stjórna gerðum sínum. Þetta hefur einkennt hann alla tíð. En hann hefur unnið á markvissan hátt að margvíslegum málefnum sem snerta okkur öll. Aðferðir hans hafa verið öðru vísi en við höfum átt að venjast, því ekki hefur hann farið um með hávaða og látum eða með gífuryrðum og ásökunum. Hann hefur ekki lagt áherslu á markvissar auglýsinar né haft umboðsmenn til að selja hann með ýmiskonar fullyrðingum og margslungnum áróðri. Hann hefur marg bent á hann vill láta verk sín tala og þegar hann haldi tónleika þá sendi hann út tilkynningu um þá svo það er í verkahring áhugasamra að fylgjast með honum og mæta hafi þeir löngun til. Til að létta áhugasömu fólki verkið þá beitir hann endurtekningunni, þeirri aðferð að vera á sama tíma og sama stað á hverju ári.  Herði hefur oft verið líkt við syngjandi heimspeking. Á þessum ferðalögum heimsótti Hörður oft óvænt skóla og sjúkrstofnanir og söng og sagði fólkinu sögur, þeim til mikillar gleði og ánægju. Hann hefur margbent á sjálfur að hann sé einfaldlega “Eins manns leikhús” sem starfi í anda þess samfélags sem hann vill lifa í.

“ Ég beiti aldrei tækni sölumannsins til að heilla fólk. Ég set ekki sykur í framleiðsluna. Sem listamaður hef ég margoft tekið að mér umfjöllun þess óþægilega í samfélagi okkar. Þeirra málefna sem við viljum helst ekki horfast í augu við og erum í sífellu að ýta til hliðar í von um að losna við þau. Ég hef aldrei sagst vita betur heldur boðist til að ræða málin til að leita lausna. Ég forðast að benda á annað fólk, ég nota sjálfan mig ef nota þarf einstakling, en ég er að fjalla um málefni, ekki einstalkinga. Málefni sem snerta okkur öll.  Til að leita lausna og finna lausnir verðum við að vinna saman. En það þarf oft einn til að byrja. Til að við getum skapað betra samfélag fyrir okkur öll verðum við að þora að takast á við drauma okkar, viðhalda þeim og rækta. Án drauma er lífið öllum pína. ”
 
Hörður hefur fjallað um margbreytileika mannlífsins og bent okkur á að við höfum ekki efni á að vera að áfallast aðra, við ættum að líta betur í eigin barm. Það er ekki þar með sagt að við eigum að samþykkja allt í fari náungans eða í eigin fari, nei, við eigum að vera gagnrýnin en fyrst og fremst ábyrg fyrir orðum okkar og gerðum og vera það sem við erum  og virða að jöfnu aðra fyrir það sem þeir eru. Viðurkenna fjölbreytileika mannlífsins og þar með einstaklinginn svo framarlega sem hann felur ekki í sér neikvætt og mannskemmandi afl svo sem ofbeldi, öfgar, lygar og hræsni og fleira í þeim dúr. Það er ekkert auðvelt að vera til, segir Hörður, og allir gera mistök einhverntíma en bendir á að það að gera mistök sé ekki glæpur af yfirlögðu ráði. Starf listamannsins, að hans mati, er að standa ætíð með þeim sem mest hallar á og veita öllu vald aðhald og gagnrýni, hafandi í huga að allt vald spillir til lengdar, og að stefna að markvissum lausnum í stað örvæntingar.” 

Í stað þess að vinna innan veggja hefðbundins leikhúss og túlka tilfallandi hlutverk dreif Hörður sig út úr stofnanaleikhúsinu 1973 og út á meðal fólksins. Þar með hóf hann það samtal við þjóðina sem hefur staðið alla tíð síðan og stendur enn. Hann hóf að skrifa alla söngtexta sína sjálfur og þar með að vekja til lífs rödd sem sárvantaði í íslenskt samfélag. Rödd sem hefur vakið þá sem vilja hlusta til meðvitundar um margvísleg málefni sem áður voru þögguð. Sérstaða hans sem listamanns liggur einnig í ástríðufullri túlkun söngvanna og túlkun ótrúlega margslunginna og flókinna karaktera. “ Það að fá lánað, nafn og karakter, og orð frá einhverjum höfundi á einfaldlega ekki við þann sem finnur sína eigin rödd og lífssýn. Það lánaðist mér. Allir þeir karakterarsöngvar sem ég hef samið og túlkað hafa nánast sprottið ljóslifandi fyrir framan mig eftir tilfallandi samtöl við slíkt fólk. Þessir ótrúlegu karakterar eru ekki minn skáldskapur heldur endurkast þess fjölbreytileika sem samfélagið er. Hlutverk mitt sem listamanns er að spegla þá samtíð og samfélag sem ég lifi í. Enda sýnir ferill minn nauðsyn þess að þora að starfa einn síns liðs og takast á við tilveruna sem er í raun ekkert annað en tilraun til að horfast í augu við eigið sjálf. Það er allt og sumt sem aðrir sjá sem “öðruvísi”. Afhjúpa stöðnun og kúgun með því að reyna sitt besta til að vera heiðarlegur. Ræða við fólk, spyrja spurning. Það er ekki átakalaust en það er hægt og bergmálar enn í þeirri dirfsku minni að stíga fram sem samkynhneigður maður og vera fyrstur til þess á Íslandi og árið var 1975! Grunnurinn í slíku starfi er aldrei að benda á aðra heldur vera ærlegur gagnvart sjálfum sér og þarafleiðandi umhverfi sínu. Lífið er fjölbreytt og allar tilraunir til að gera það einsleitt mun mistakast.    

Flest allir íslendingar af hans kynslóð og þeir sem eldri eru þekkja til hans og hafa mótað sér skoðun á honum og hans viðhorfum. Sumir eru sammála honum, aðrir algjörlega á móti honum og sumum er alveg sama. Við þessa hópa hefur Hörður verið að halda uppi samræðum við í gegnum verk sín og á ferðalögum sínum. Hörður heldur þessu samtali við þjóðina gangandi með nærveru sinni og starfi og hefur haft mikil áhrif á okkur öll.

Á löngum ferli hefur hann sent frá sér 24 plötur, leikið í og unnið að gerð kvikmynda. Leikið, leikstýrt og skrifað fyrir leikhús, bæði tónlist söngtexta og leikrit. Komið fram í mörgum skemmti- og viðtalsþáttum bæði í útvarpi og sjónvarpi. Leikið og dansað á fjölum leikhúsa og starfað við útvarp má þar benda á mjög vinsælan útvarpsþátt sem hann sá um  í mörg ár á Rás 1; Sáðmenn söngvanna. Auk þess að reka eigið hljómplötu útgáfufyrirtæki. Árið 2008 kom út bókin Tabú, sem rithöfundurinn Ævar Örn Jósepsson skráði um feril hans og ævi.

Hann gerir miskunarlaust grín af þeim sem vilja steypa alla í sama formið, eða setja sig á háan hest og fordæma meðbræður sína fyrir að vera ekki sömu skoðunar og þeir sjálfir. Og ekki hlífir hann þeim sem rembast við að berja aðra til hlýðni við kenningar einhverra trúarbragða. Gott dæmi um beitta ádeilusöngva Harðar er platan hans Loftsaga auk fjölda annara söngva sama efnis. Þekktastur í þessum geira er vafalaust söngur hans um Karl R. Embu gefðu þeim blóm).

Hörður bendir á að góð saga þurfi aldrei að tilgreina einhverja eina manneskju því við séum, þegar allt er skoðað og upp er staðið, eins í eðli okkar en bregðust aðeins misjafnlega við aðstæðum og atvikum vegna ólíks bakgrunns og uppeldis. Það er ekki til neitt sem heitir afsláttur á mannréttindum.

Árið 2008 vakti Hörður mikla athygli fyrir að standa fyrir áhrifamiklum mótmælum. Fyrst um sumarið vegna máls Paul Ramses, flóttamanns sem var vísað úr landi. En Poul var fluttur aftur til Íslands, fékk ríkisborgararétt, og býr á Íslandi ásamt fjöldskyldu sinni. Og í október hóf hann margra mánaða mótmæli á Austurvelli í kjölfar efnahagshrunsins.Íslendingar höfðu aldrei upplifað eða séð jafn yfirveguð og vel skipulögð mótmæli. Enda báru þau tilætlaðan árangur í báðum tilfellum. Hörður benti á að það væri líkt og að allt sem hann hefði tekið sér fyrir hendur sem listamaður hafi stefnt að því að gera hann hæfann til verksins. Þessi mótmæli vöktu víða mikla athygli og hefur Hörður oft þegið boð til að halda fyrirlestra um starf sitt víða um heim undanfarin ár þar sem hann hefur miðlað reynslu sinni og þekkingu í baráttunni fyrir betri heimi. 

Eftir hausttónleikana 2012 dró Hörður sig talsvert í hlé með leikhús sitt og hélt síðustu Hausttónleika sína eftir að hafa haldið þá samfellt í 37 ár. Ástæðurnar segir hann vera margvíslegar eins og alltaf. Netið hafi dregið allan kraft úr sölu geisladiska og þar með kippt fjárhagslegum tilverugrunni undan starfi hans sem sjálfstæðs listamanns. Fram til 2008 voru tónleikar hans vel sóttir en aðsókn hrapaði niður í tæpan fjórðung 2009 og næstu ár og það er ekki hægt fyrir sjálfstæðan listamann að taka slíku tapi ár eftir ár.  Margt fólk hafi snúið baki við honum sem listamanni vegna pólitískrar þátttöku hans á Austuvelli. Það finnst Herði fyndið og bendir á að það fólk hafi einfaldlega aldrei skilið verk hans því öll verk hans séu pólitísk og ferill hans hápólitískur. En menn verða að gera skýran mun á pólitískri þáttöku listamanns, einstaklings, og þátttöku stjórnmálaflokks og þeirra sem þar starfi. Engin manneskja kemst í gegnum tilveruna án þess að taka afstöðu um pólitísk málefni.  

“ Pólitík er einfaldlega kerfi eða aðferð sem við mennirnir sköpum til að stjórna samfélagi okkar, lífi okkar. Pólitík snýst um hugmyndir og útfærslu þeirra. Sá sem hafnar pólitík er að leiða sjálfan sig blindandi í gildru. Pólitíkin er fjöregg okkar allra jafn ólík og við erum í hegðun, viðhorfum og upplagi og hún krefst þess að við fjöllum um hana og tökum þátt í henni á einn eða annan hátt.  Pólitík fjallar um líf okkar og ef við snúum baki við henni og látum sem hún sé ekki til erum við að afsala okkur frelsi okkar og ábyrgð. Pólitíkin er skrímsli sem étur þig lifandi ef þú hefur ekki auga með henni og sýnir henni aðhald. Þetta skrímsli er afleiðing viðhorfa okkar og hugsana og það sefur aldrei og það tekur tíma og áreynslu að breyta stefnu þess.  Allt hefur upphaf og endi. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Ég hef aldrei reynt að skapa mér eitthvert pólitískt þægindastarf með framlagi mínu eða valdastöðu. Mér hefur á stundum tekist að koma bráðnauðsynlegu verkefni af stað og eftir það komið því hendur annarra áhugasamra eftir það er ég farinn í næsta verkefni. Einfalt mál. Nefni ég sem gott dæmi um slíkt, Samtökin ´78 og allt það hæfileikaríka og öfluga fólk sem hefur haldið starfsemi þeirra á lofti með ótrúlega jákvæðum árangri. Mitt hlutverk og lífssýn, sem listamaður og manneskja, hefur verið að þjóna heildinni og taka þátt í samfélagi okkar en ekki að upphefja sjálfan mig. Ég hef alla tíð litið á allan hnöttinn sem samfélag okkar. “