Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Ljóð

hordursjalfur's picture

blómið

lífið er svo undarlega unaðslegt með þér
út og suður upp og niður í allar áttir fer
hver dagur felur í sér gleði og í huga sólin hlær
hamingjan er sem fallegt blóm sem í hjörtum okkar grær
 
ég tileinka þér helming þessa hjarta sem ég á
og heyri líka hjarta þitt í sama takti slá
kannski er ég draumhugi en draumar eru spor
í dansi þeirra er lifa í von um dirfsku ást og þor
 
hamingjunar blóm er hér
í hjartans geymslustað
elska fæðir elsku af sér
ástin sannar það
 
er angan þessa blóms mér berst þá hugsa ég til þín
það bætir raunir sérhvers dags og léttir verkin mín
ég lít oft upp í himininn og skrifa á dúnmjúk ský
skilaboðin ég elska þig og hef svo vinnu á ný
 
jú lífið er svo unaðslega undarlegt með þér
út og suður upp og niður í allar áttir fer
hver dagur felur í sér gleði og í huga sólin hlær
hamingjan er viðkvæmt blóm sem á milli okkar grær
 
hörður torfa  - af plötunni bergmál 71/02 ( til trausta og lilju )

söknuður

það er svo langt á milli okkar eitt heljarmikið haf
en hjarta mitt flaug til þín svona rétt á meðan ég svaf
þó það hafi dvalið hjá þér nakið hverja nótt
þá nægir slíkt mér ekki - í draumum líður tíminn of fljótt
 
tíminn mælir líka daginn sem líður alltof hægt
hann læðist áfram á hraða sem hefði gömlum snigli nægt
fjarlægðin er svo mikil að maður er alveg bit
að mæna yfir hafið í von um að sjá þig er ekkert vit
 
ég sakna þín svo mikið ég sakna þín hverja stund
ég svíf í hverju andartaki rakleiðis á þinn fund
 
ég safna hverjum eyri - ég eyði varla í mat
ég ætla að komast aftur til þín allt annað er plat
í þér hef ég fundið allt sem einhvers virði er
og unaðslegt væri að eyða öllu lífinu með þér
 
ég sakna þín svo mikið ég sakna þín hverja stund
ég svíf í hverju andartaki rakleiðis á þinn fund
 
tíminn æðir áfram alveg taumlaus eins og fyrr
hann teymir mig á eftir sér þó ég sitji kyrr
ég vildi óska að fjarlægðin færi þannig með mig
þá faðmaði ég ekki koddann minn á kvöldin heldur þig
 
hörður torfa – af plötunni Grímur 1999

laufey
 
ég er þunnur og mig langar svo rosa til að létta á mér nú
laufey þessvegna skrifa ég þér þetta bréf
þegar ég sagði að þú hefðir kynþokka á við kú
var ég kengfullur sorrí þú ert allt sem ég elska og hef
þú ert hraustari en fjandinn og betri en nokkur belja
en svona breddu eins og þig á maður aldrei að reyna að hrekkja eða kvelja
 
ég elska þig alveg svaka mikið laufey meira en lífið
og landið og sjóinn og mömmu og honduna mína
ég stóð við mitt loforð og losaði mig við þýfið
lét það fyrir slikk sem ég lagði svo inn á bankabókina þína
svo þetta er allt þér að kenna en þú þarft ekki að vera svona rosa reið
þó ég rændi helvítis bankafjandann um leið
 
ó laufey æ lovjú
lífið það var eitt sinn ég og þú
ó laufey æ lovjú
en líklega fæ ég að dúsa inni fleiri ár en þrjú
 
ég lýg ekki að þér laufey hér úti á sjó
ég lét tattúvera á mig blindfullur útí amsterdam orðin sem þér fundust svo kúl og næs
þessi sem standa í bókinni manstu þegar hann drakúla dó
deðð is an illúsjón anlof nevur dæs
ég ætlaði bara að sanna fyrir þér hvort okkar væri meira hraustmennið
og man ekki neitt en þegar ég vaknaði var djöfuls setningin þvert yfir andskotans ennið
 
þú ert þrýstnasta konan sem ég hef kynnst hér heima á fróni
og kartöflunefið þitt finnst mér næstum því ætt
svo ég fatta ekki alveg hvað þú ert alltaf að flækjast um með honum jóni
en þér finnst víst svona kríp vera getnaðarlegt og sætt
ok ef þú vilt endilega vera með þessu greyi og finnst það svona gaman                                           
getum við þá bara ekki héðan í frá verið öll þrjú saman?
 
ó laufey æ lovjú
þú lékst þér að því að vera mér ótrú
ó laufey æ lovjú
ég loka bara augunum meðan við erum í rúminu öll þrjú
 
auðvitað áttirðu aldrei að frétta þetta með okkur fríðu
ég fór bara með henni upp í rúmið því að það var svo djöfull breitt
það var myrkur undir teppinu og það var hún sem bauð mér blíðu
og bað mig að fara úr öllum fötunum og mér var svo andskoti heitt!
og þegar hún byrjaði ætlaði ég nú varla þessu nuddi hennar að nenna
og neitaði lengi vel svo þú sérð að þetta var allt henni fokking að kenna
 
og nú þegar ég skrifa þetta laufey byrja helvítis tárin að trilla
í taumum niður kinnarnar á blaðið þetta er eins þegar ég míg í sand
ég vildi miklu frekar vera heima með þér og jóni og tjatta og tjilla
en það tekur víst bara lögga á móti mér þegar dallurinn drullast í land
og þeir halda örugglega að ég sé perri og bölvaður bjáni
því í bankaráninu var ég í kjól af þér sem ég fékk að láni
 
ó laufey æ lovjú
ó laufey æ rílí rílí rílí dú
ó laufey æ lovjú
þið líkist alveg svakalega afi gamli og þú
 
hörður torfa - 2004

 

dásamlegur dagur

ég hugsa oft um höfnina
ef ég handleik gítarinn
skip að sigla út og önnur
eru að koma inn
orðlaus svífa áfram
inn í sönginn minn
létt þau smjúga um línurnar
og liðka til sönginn minn

þetta er dásamlegur dagur
með dulúð innan í
úr fjarska berast hamarshögg
á himni dansa sól og ský
er norðanáttin næðir
nartandi í margra nef
ég hjúfra um mig í hlýjunni
í heita drauma mig gref

nú klífur vetrarkönguló
sinn vetraslegna vef
pakkar inn frosnum flugum
í færeyskt ástarbréf
danskur ormur dreyminn
dansar taktföst skref
þjóðernissinnuð gulrót þusar:
ég þoli ekki kanínukvef!

það kallar til mín kolkrabbi
með krullujárn svo heitt
að lúða sem er í lagningu
og löngu orðin þreytt
á að brenna sig því bak hennar
er brunablettum skreytt
bálreið þýtur burt og kallar:
ég borga þér ekki neitt!

það situr á mörkum svefnrofans
syfjuð köflótt mús 
prjónandi hikstandi peysu
á pirraða hungurlús
hún flautar eins og fiðla
finnskan tangóblús
um hvað sé gott að gefa
gleði í önnur hús

ég vankaður hægur vakna
en veit ekkert í minn haus
óttast samt að einhversstaðar
sé enn ein skrúfan laus
gítarinn minn grætur
við gáskafullt draumaraus
ég vaknaði svona um veturinn
þegar í vestmannaeyjum gaus

hörður torfa – 1984 - óútgefið

draumurinn

skólavörðustígurinn hann stefnir út á haf
frá styttunni af honum leifi sem kaninn okkur gaf
snæfellsjökull blasir við sem truflandi ævintýr
tælandi að skreppa og finna hvað þar á bakvið býr

það er hægt að fljúga eins og flugvél út í heim
ferðast á einu andartaki út um allan geim
horfa bæði frá og niður og útá við og inn
án þess að vera að pæla í að hann endar draumurinn

mig dreymdi að ég væri í las vegas
í voða góðum dúett með honum megas
maggi eiríks rúnar júl og gunni þórðar voru bakraddirnar þrjár
fleiri þúsund manns í salnum - og uppselt næstu ár

það þola lífið fæstir nema að flýja um stund í skjól
fela sig frá krumlunum sem vilja halda eilíf jól
fátt er nýtt í heiminum nema eintakið sem hver er
óðar og þú hverfur tekur annar við af þér

hörður torfa 28.04 ´05 

landið þitt

regnbogi við foss einn flytur
frumort ljóð og landvætt vitur
vaktar þögul hvert mannsbarn fjall og fjörð
litadýrð er í landsins móti
líf er að finna í hrauni og grjóti
á meðan upp á heiðum vindar blása upp rofabörð

hér norðurljós á nóttum dansa
um nakinn himinn og fjöllin ansa
dalalæða strýkur landsins harða og særða svörð
hjörtur upp á heiði lýtur
höfði mosa og lyngið bítur
túndran andar lífi í vakra hljóða dýrahjörð

hér er eitthvað sem engin sér
en allir segjast skynja hvað það er
hér er eitthvað sem engin sér
þá vissu hver maður í brjósti ber

á lygnum stað í lautu dafnar
lítill ungi og kröftum safnar
tignarlegur haförn skimar jöklum prýdda jörð
drekamyndir drangar móta
drynur orka þungra fljóta
í fjarska lyftir tófa höfði og gaggar þakkargjörð

hér fetar slóðir feðra sinna
fólk sem hefur verk að vinna
landið talar gegnum akra sína skóga og skörð
við þúfu hverja þögnin dvelur
og þúsund alda fjársjóð felur
er það ekki skylda okkar að skapa um þetta vörð?

hörður torfa – apríl 2004

vasaljós

ljóð og lag: hörður torfa

þú hefðir átt að fatta það fljótt
finnst þér en það kom ekki á huga þinn róti
slenið það læðist inn í hugann svo hljótt
að þú heldur að þú sért að verða að grjóti
en söngur fer að mana þig að berjast á móti

komdu því að syngja og sjást
söngurinn ýtir myrkri og drunga úr geði
virkar sem ljósgeisli hjá þeim sem að þjást
og þurfa á söng að halda hlýju og gleði
enda er lífið bæði og lánið að veði

söngur lýsir eins og vasaljós
langt inn í myrkrið og virkar sem hrós
vonirnar vekur
veikindi tekur
kastar þeim lengra en til Kína
kannastu við söguna mína?

hvað varðar mig um þig veröld?

hvað varðar mig um þig veröld?
jú von mín er falin hjá þér
hér áður var ég einhver
annar en ég er
ég hef gengið um holt og hæðir
hlustað á öll þín ljóð
öllu er bylt og brugðið
hjá blekktri og gáttaðri þjóð

hvað varðar mig um þig veröld?
von mín er leitandi í nótt
ég finn hvorki samúð né sættir
ég sef hvorki vel né rótt
ég virðingu´ og reisn í mér rækta
ég reika um heimaslóð
uppgjöf er ekki mín ætlan
það ólgar meira´í mér en blóð

ég finn í mér ískalda og réttláta reiði
sú reiði spyr og heimtar svör;
er það þannig veröld sem við viljum
að vonska fláræði og græðgi ráði hér för?

hvað varðar mig um þig veröld?
eru virkjanir frelsisins gjöld?
mörg loforð reyndust lygar
landið bitbein um völd
tímarnir breyttir og tættir
táldregin fjöldinn er sár
framapotarar fitnað
og fjallkonan næstumþví nár

hvað varðar mig um þig veröld?
vor þitt er napurt og svalt
lífsins skuggar lengjast
lýðskrumið umfaðmar allt
hver maður á vegamótum
er mæddur af þreytu og sút
hann má aldrei láta minni
málfrelsis þurrkast út

hvað varðar mig um þig veröld?
ég veit að mitt frelsi er skert
með ofbeldi kurteisri kúgun
sem ég kalla einskis vert
þjófar sem bjóða með brosi
í bankanna nafni lán
fjölmiðlar neyðina fela
þeir fegra kúgarans rán

Hörður Torfa - oktober 2008