Push the button to buy or listen to Hörður music
Æland
Hvað er Æ
Fyrirvaralaust er fótunum kippt undan honum og hann svífur í lausu lofti í allar áttir en enga þó og um leið er honum kippt áratugi aftur í tímann þar sem hann hittir sjálfan sig fyrir, ungan og fullan örvæntingar, sársauka og niðurlægingar.
Honum er brugðið, hversvegna þarf hann að horfa upp á þetta? Var ekki nóg að ganga í gegnum þetta víti einu sinni á ævinni? Hann virðir unga manninn fyrir sér, les hans leyndustu, myrkustu þanka og ákveður að grípa í taumana, beina huga hans frá brún hyldýpisins og að brúnni yfir það. Hvetja hann til takast á við lífið í stað þess að flýja það, því flóttinn er engin lausn. Fá hann til að skilja að ekki er allt sem sýnist. Gefa honum góð ráð, gefa honum von. Gefa honum vængi.
Hann hvíslar í eyru unga mannsins og hjarta. Og hann hlustar.
Í byrjun velkist hann í vafa um hvor er að hvísla að hvorum og rekur í vörðurnar þar til hann áttar sig á því að það kemur út á eitt – hann er jú að tala við sjálfan sig. Hann brosir og heldur áfram að hvísla.
Ungi maðurinn setur í brýrnar eitt augnablik, það er eins og rofi til í svartnættinu, hann hristir höfuðið, nuddar gagnaugun og stendur á fætur. Þetta er tóm della, segir hann stundarhátt, þetta getur ekki verið svona vonlaust.
Það var sem einhver innri rödd tæki undir með honum um leið og hann sleppti orðinu. Fjarlægð, hvíslaði hún, til að sjá hlutina eins og þeir raunverulega eru þarftu fjarlægð.
Auðvitað, hugsaði hann. Hann þurfti fjarlægð, þurfti að lyfta sér yfir sviðið og skoða mannlífið utan frá ekki síður en úr miðju hringiðunnar þar sem hann hafði ætíð haldið sig.
Til að skilja tilveruna þurfti hann að hlusta með hjartanu ekki síður en eyrunum, því eyrun heyrðu bara það sem fólkið sagði.
Og til að skilja sjálfan sig varð hann að sættast við sjálfan sig. Það var jú engin framtíð í því að velta sér uppúr fortíðinni og lífið var of dýrmætt til að lifa því ekki.
Hann vissi ekki hvaðan honum kom þessi vissa, þessi nýja sýn á lífið, en hann var ákveðinn í að fylgja henni. Með spéspegil í annarri hendi og ástina í hinni ákvað hann að leggja upp í leiðangur í leit að svörum, fara langt inn í sjálfan sig og út á meðal fólksins, spyrja spurninga, hlusta, horfa og drekka í sig mannlífið hvar sem hann kæmi. Safna í reynslusarpinn en gæta þess vandlega að dæma engan sem á vegi hans yrði, heldur finna öllum stað í tilverunni og hjarta sínu. Því honum þótti vænt um manneskjurnar, þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að þetta væru allt saman eintómir asnar og hann kannski mesti asninn af þeim öllum.
Nú hló hann að hótfyndni sinni, og hláturinn gladdi hann. Það var allt of langt síðan hann hafði hlegið. Það var lífsnauðsynlegt að geta hlegið, hugsaði hann, að sjálfum sér ekki síður en öðrum. Og ég legg upp í þessa för með leiklistina að vopni, ég mun koma þeim til að hlæja, hlæja að mér, og hlæja með mér að sjálfum sér.
Grímur hláturs og gráturs eru tákn leiklistarinnar og hann vissi hve hárfín hún er, línan milli hvatanna sem þær standa fyrir. Og hann vissi líka hversu ríkuleg uppskeran gat verið þegar rétt var í línuna sáð. Hvað var betur til þess fallið að lokka fólkið fram úr fylgsnum sínum á ný, fá það til að opna aftur dyrnar sem það hafði lokað á hann gegnum tíðina, en sú list leikarans að lyfta hugsunum mannanna úr ryki aldanna, ljá orðunum vængi, tilfinningunum líf, og torræðum táknum merkingu sem allir fengu skilið? Þarna lá von hans og eina leiðin út úr því öngstræti sem líf hans hafði ratað í, það vissi hann, en jafnframt óttaðist hann að verkefnið yrði sér ofvaxið, líkt og hann þyrfti að ydda blýant með augunum. Var þetta ekki stórhættulegt eftir allt saman?
Lífið er svo hættulegt að maður getur dáið af því, svaraði hans innri rödd glaðlega og óvænt og kom honum aftur til að hlæja og hann lagði upp í sína löngu ferð á vængjum nýrrar vonar. Og hann var ekki fyrr lagður af stað en hann fann eyjuna Æ.
Þar, á miðju torginu í miðjum bænum á miðri eyjunni ákvað hann að reisa sitt svið. Þetta er rétti staðurinn, hugsaði hann, hér verður mitt leikhús, hér á eyjunni Æ. Eyjunni sem enginn veit hvar er en allir rata til, rétt eins og ég.
Hann vissi ekki hvernig hann hafði komist á þessa eyju sem flaut einhverstaðar austan við allt og vestan við ekki neitt og jafnvel spölkorn norðar en suðrið. En hann vissi að hann var á réttum stað.
Ejan Æ sést ekki berum augum, hversu mjög sem menn stara, til hennar ganga engar ferjur, þangað liggja engar brýr og ekki er vitað til þess að þar hafi lent flugvél. Hún finnst ekki á kortum, en gamlar munnmælasögur herma að hún liggi á flekaskilum hægra og vinstra heilahvels.
Þar tiplar fólk á glóðum vanmáttugra og ófullnægðra tilfinninga og fæstum þykir vistin góð. Manneskjur eiga það til að fjúka þangað ef þær gæta sín ekki en flestar eru svo lánsamar að fjúka þaðan fljótlega aftur, þótt vissulega séu til ótrúlega mörg dæmi um fólk sem hefur sest þar að og neitar að fara.
Það fólk á varla eftir að koma í leikhúsið mitt, hugsar hann, ég verð að treysta á túristana. Og hann veit að þótt rótgrónir Ælendingar kunni að líta hann hornauga, þá muni þeir jafnframt verða honum óþrjótandi uppspretta nýrra gleðileikja. Hann þurfti bara að renna einu sinni yfir stjórnarskrána þeirra til að sannfærast um það. Ég verð aldrei Ælendingur, hugsar hann um leið og hann rekur smiðshöggið á sviðið sitt, ég mun aldrei festa hér rætur og ég mun aldrei lifa samkvæmt þeirra reglum. En mikið assgoti eru þær fyndnar. Svo bregður hann upp spéspeglinum og les þær einu sinni enn:
Stjórnarskrá Ælendinga
- Allir eru asnar nema Ælendingar
- Allt er öðrum að kenna.
- Enginn er klókari, betri eða vitrari en Ælendingur.
- Ælendingur má gera og segja það sem honum sýnist þegar honum sýnist eins og honum sýnist.
- Hver sá er gerir eitthvað annað en það sem Ælendingar vilja, eða gerir hlutina öðruvísi en Ælendingar kjósa, hefur gert sig seka(n) um refsiverða háttsemi og gildir þá einu hvort viðkomandi hafði hugmynd um vilja Ælendinga eður ei.
- Þeim sem gengur vel og líður vel hlýtur að hafa stolið einhverju frá Ælendingi og skal refsað í samræmi við það.
- Hver sá sem er stærri og meiri en Ælendingur á einhvern hátt skal umsvifa- og undantekningalaust smækkaður með öllum ráðum.
- Öllum sem á einhvern hátt eru frábrugðnir Ælendingum í útliti og/eða hugsunarhætti skal vísað úr landi án tafar.
- Ælendingur ákveður hvað er satt .
- Þegar Ælendingur segir að hann sé ósýnilegur þá er hann það.
- Ælendingur ræður alltaf, sama hvað hver segir og hversu margir kunna að segja það, enda kemur það málinu ekkert við.
- Ælendingur er eyja og hefur þar af leiðandi ekki áhuga á öðrum en sjálfum sér.
- Ælendingar fara alltaf stystu leiðina.
- Ælendingur getur aldrei haft það svo gott að hann megi ekki kvarta.
- Þeir sem ekki eru sáttir við stjórnarskrá Ælands eru ekki Ælendingar og ber því að fara eftir þessari löggjöf og virða hana í einu og öllu. Ælendingum er hins vegar frjálst að túlka hana eftir eigin höfði.
- Nei, það eru engar mótsagnir í 15. grein. Asni.