Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Vajont stíflan.

hordursjalfur's picture

 

Vajont stíflan.

Árið 1999 bjó ég í Feneyjum og ferðaðist víða um Ítalíu. Margt þar í landi vakti athygli mina og áhuga meðal annars harmleikurinn sem átti sér stað við stífluna Vajont árið 1963. Ég lagðist yfir bækur og blöð og kynnti mér málið og útkoman var þessi grein. Mér finnst margt sem er að gerast á Íslandi í dag minna mig á þá spillingu sem þessi saga segir frá.

    Á norð austur Ítalíu, nánar tiltekið, í Feneyjahéraði er Piavédalurinn. Dalurinn er nefndur eftir ánni Píavé sem rennur eftir honum frá Ölpunum og niður til Adrianhafsins, tæplega 200 km leið. Á miðri þessari leið er, meðal annarra, að finna þorpin Longarone , Pirago, Rivalta, Fae og Codissago og sameiginlegur íbúafjöldi þessara þorpa var rúmlega tvö þúsund manns. Öll þessi þorp og íbúar þeirra hurfu á fjórum mínútum í einu hrikalegasta umhverfisslysi Ítalíu. Sum þessara þorpa hafa byggst upp aftur og mannlífið þar hefur færst aftur í eðlilegt horf. En það gleymir enginn þeim hörmungum sem áttu sér stað 9. október 1963 klukkan 22.39. Þetta er saga um hvernig valdamenn koma sínu fram í trássi við álit og vilja almennings. Saga spillingar, valdníðslu, lyga, svika, blekkinga, græðgi, tillitsleysi, kæruleysis, hroka, þjóðarrembings, eineltis, ofsókna og að lokum mikillar sorgar. Spurning er í dag hvort við menn höfum lært nokkuð af þessum skelfilegu atburðum eða hvort við ypptum bara öxlum og kjósum að gleyma.

    Það sem gerðist var að landskrið varð í hlíðum gljúfursins ofan við stífluna sjálfa og 260 milljón kúbiklítra aurskriða féll með ofsahraða í vatn stíflunnar og skóp háa öldu sem síðan skall upp mótstæða hlíð og niður í vatnið aftur og sendi 25 milljón kubiklítra í 50 metra hárri bylgju vatns og jarðvegs yfir stíflugarðinn. Bylgja sveif yfir nokkur þorp og skall á hlíðinni á móti þar sem þorpið Longarone stóð og sópaði því burtu og æddi síðan öskrandi af stað í átt til sjávar. Ferlíkið tók með sér allt sem á vegi þess varð þar á meðal 4 önnur þorp og alla íbúa þeirra samtals tvöþúsund manns. Allt þetta gerðist á 4 mínútum

Við verðum að hverfa til ársins 1929 til að fá upphafið. Á þeim tíma var Guiseppe Volpi einhver áhrifamesti athafnamaður Ítalíu. Hann átti meðal annars og rak fyrirtækið De Sade. Það fyrirtæki hafði látið reisa sjö orkuver meðfram ánni Piave en framleiðslugeta þeirra var verulega takmörkuð þar sem vatnsmagn hennar var háð árstíðum. Það er að segja haust og vorrigningum,  þess á milli var áin nánast kraftlaus. Orkuverin þurftu að geta framleitt rafmagn stöðugt allt árið út í gegn og til að svo yrði þurfti að grípa til ráðstafanna. En hverra?

Sú hugmynd fæddist og varð ofaná að reisa skyldi stóra stíflu í Vajontdalnum þar sem vatni yrði safnað saman frá ýmsum stöðum. Einskonar vatnsbúr svo orkuverin nýttust vel allan ársins hring. Verkfræðingur ásamt aðstoðarmanni var sendur í dalinn árið 1929 til að kanna allar aðstæður. Niðurstöður hans voru jákvæðar í alla staði. Vajontdalurinn var kjörinn fyrir stíflu og uppfyllti öll hugsanleg skilyrði. Betra gat það ekki verið að hans mati. En grunur leikur á að verkfræðingur þessi og aðstoðarmaður hafi ekki unnið verk sitt nægilega vel og eytt mestum tíma sínum í að ljósmynda fólk. En það má líka benda á þá staðreynd að árið var 1929 og að menn höfðu ekki yfir þeirri tækni að ráða sem seinna varð og alls ekki þeirri reynslu sem nútímamenn hafa í stíflugerð.

En árið 1929 var staðurinn fyrir væntanlega stíflu  semsagt fundinn og hugmyndin komin á skrið.  Það er að segja nú tók við annasamur tími fjármögnunar og hönnunar hjá De Sade fyrirtækinu. Slíkt tekur sinn tíma og tilheyrandi fundarhöld. En þrátt fyrir jákvæða skýrslu fyrrnefnds verkfræðings var ekki hlaupið að því að reisa stífluna. Þarna voru ýmsir erfiðleikar sem þurfti að yfirstíga. Til að byrja með þá bjó fólk í dalnum sem byggði afkomu sína á hluta þessa landsvæðis. Þetta fólk mótmælti kröftuglega öllum áætlunum um stíflugerð og neitaði að flytja þaðan. Það vildi fá að lifa í friði í dalnum sínum. En þetta var ómenntað afdalafólk sem kunni lítt að takast á við klæki veraldarvanra kaupsýslumanna og var því auvelt að fást við.

Volpi og félagar voru ekki lengi að finna krók á móti bragði og áhyggjur þeirra hurfu snögglega. Þeir nýttu sér einfaldlega ítalska glettni og kerskni. Þorpin sem mestu mótmælin bárust frá í upphafi stóðu efst á fjallshrygg við Vajontdalinn og hétu Erto og Kasso. Nöfn þessi hljóma ekkert ósennileg í eyrum þeirra sem ekki kunna ítölsku. En við skulum líta aðeins nánar á þetta. Ítölsk fyndni er ansi klúr og daglegt mál ítala höfðar oftar en ekki til alls sem að kynlífi lítur. Og er þá ekkert sparimál notað. Kasso þýðir getnaðarlimur og Erto þýðir harður eða stífur. Bæði þorpin nefnd í sömu andrá þýða semsagt standpína. Og árið 1929 þótti óviðeigandi að birta slíkt á prenti. Hvað þá að taka mark á fólki sem skýrði þorp sín slíkum nöfnum. Það hafði víst aldrei verið kært með íbúum þessara þorpa og nú kom það þeim í koll. Mótmælin fóru því ekki hátt í byrjun og Volpi og hans fólk vann ötullega og ótrufluð að framgangi stíflugerðar í Vajontdalnum. 

Íbúar Erto og Kasso bentu meðal annars á þá staðreynd að öll örnefni í dalnum ættu að vera nægileg ástæða til að hverfa frá allri stíflugerð þar. Örnefnin gáfu sterklega til kynna mjög ótraustan jarðveg. Má þar nefna fjallið beint á móti þorpunum Erto og Kasso, hinum meginn í dalnum, sem varð önnur hlið stíflunnar og það fjall sem gaf sig að lokum var kallað Toc sem þýðir á mállýsku héraðsbúa; rotið, innihaldslaust eða mótstöðulaust. Heiti dalsins, Vajont, þýðir; fer niður, skríður til. Hafa ber í huga að nafngiftir í umhverfi spretta oftast af atburðum og reynslu manna, slæmri eða góðri í gegnum tíðina.

En í hönd fóru einnig tímar óróa og fasistar tóku völd á Ítalíu. Volpi var snöggur til árið 1922 að skrá sig í Fasistaflokkinn og var fljótlega eftir það gerður að einum af fjármálaráðherra Mussolinis. Hann nýtti sér aðstöðu sína og breytti þar ýmsu sér í hag þannig að ítalska ríkið veitti rausnalega styrki til allrar stíflugerðar. Og þar með komst málið á meiri skrið og létti fjárhagsvanda hans. Volpi var kænn maður og háll sem áll. Þegar hann síðar sá fyrir sér endalok styrjaldarinnar og þar með Mussolinis flutti hann til Sviss og lagði talsverða vinnu í að sannfæra Ítali og aðra um að hann hefði alltaf verið föðurlandsvinur. Þetta bragð hans tókst og hann starfaði áfram af fullum krafti að framkvæmdum sínum á Ítalíu að lokinni seinni heimsstyrjöld.

Stíflan átti ekki að verða nein smásmíði, 200 metra há, stöðuvatnið rúmlega sjö kílómetra langt og það geymdi að lokum 150 milljónir tonna vatns sem var safnað var saman úr sjö nærliggjandi stöðuvötnum eftir leiðslum sem voru samtals 35 km langar. Lægsti punktur stíflunnar yrði 460 metra hæð frá sjávarmáli, en þess má geta að þorpið Longarone er í nákvæmlega sömu hæð beint á móti stíflunni í Píavédalnum. Hæsti punktur stíflunnar yrði því 660 metrar frá sjávarmáli. Stíflan sjálf átti að vera 200 metra samkvæmt fyrstu teikningum og var þannig lögð fyrir Mussolini sem hafnaði þeim. Volpi lét slíkt ekki slá sig út af laginu og fékk samþykki annarra viðeigandi aðila fyrir stíflunni. Það var hjá öryggisnefnd nokkurri. Hvernig hann fór að því verður hver og einn að geta sér til um. En staðreyndir málsins eru þær að nefnd þessi var undir venjulegum kringumstæðum skipuð 40 mönnum og til þess að fá mál samþykkt í henni urðu að minnsta kosti 21 meðlimur hennar að gefa samþykki sitt. En á þessum tíma var stríð og nefndin aðeins skipuð 13 mönnum. Í gegnum þessa veikbyggðu 13 manna nefnd fór mál Volpis og var á furðulegan hátt samþykkt. Leyfið fyrir stíflunni var semsagt ólöglegt. Þessum pappírum var óspart veifað og beitt nokkrum árum seinna, eða árið 1948, þegar De Sade fyrirtækið sem Volpi var forstjóri fyrir lét flytja allt fólk burt úr Vajontdalnum sem var á því svæði sem hann þurfti að nota.

En það var samt ekki fyrr en 1956 að 400 verkamenn mæta á svæðið og hófu störf við sjálfa stíflugerðina, tuttugu og sjö árum eftir að fyrsta undirbúningsvinnan hafði verið framkvæmd. ( Á ráðstefnu sem haldin var í Prag árið 1956, veltu sérfræðingar fyrir sér spurningunni hvort reisa ætti stíflugarða til raforkuframleiðslu á svæðum þar sem hætta væri á jarðskriði. Niðurstaða þeirra var að auðvitað væri það í lag. Þannig var viðhorf manna þá, en þannig er það ekki í dag.)

Fyrsta apríl 1957 sendir De Sade fyrirtækið beiðni til Ítalskra yfirvalda um leyfi til að hækka stífluna um 61,60 metra. Hæsti punktur hennar yrði því 721,60 frá sjávarmáli. 260,60 metrar eru þrjár og hálf sinnum hæð Hallgrímskirkjuturnsins. Þetta þýddi líka að vatnsmagn stíflunnar hækkaði frá 58 milljón kúbikmetrum upp í 150 milljón kúbikmetra. Það sem þeir tóku ekki fram í bréfinu var að þeir voru þá þegar búnir að hækka stífluna um þessa 60 metra án þess að ráðfæra sig við yfirvöld.  Sendinefnd kom frá Róm til að skoða framkvæmdirnar við stífluna og gera skýrslu fyrir stjórnvöld. Nefndin var látin ganga efst á stíflugarðinum sem var ekki frágengin. Þar gnauðaði vindurinn og engin handrið voru til verndar. Má rétt ýminda sér hvernig nefndarmeðlimum leið. Það fór semsagt ákaflega lítið fyrir faglegu mati þessarar nefndar og allir meðlimir hennar urðu svo miður sín af lofthræðslu að þeir voru sendir í snatri til fjallaþorpsins Cortina, sem er þarna skammt frá, til að ná sér. Það tók alla nefndina meira en viku að jafna sig eftir áfallið.

Svo þegar nefnd þessi átti að skila af sér skýrslunni um stífluna til ríkisstjórnarinnar leitaði hún til Volpi og manna hans um upplýsingar. Þeir afhentu fúslega falsaða skýrslu um ástandið og við getum rétt ýmindað okkur hvernig sú skýrsla hljómaði. Enn einn sigurinn fyrir Volpi. Og ekki veitti honum af því ýmsar gagnrýnisraddir voru orðnar ansi háværar. En það var langur vegur til Rómar og hver kærði sig um að axla ábyrgð á stíflunni? Að maður tali ekki um að gagnrýna valdamikla menn eins og Volpi? Þeir sem reyndu að skapa umræðu um ástandið, eða gagnrýndu stíflugerðina, voru blekktir með innantómum og einskisnýtum loforðum eða lentu í þessháttar vandræðum sem fæstir kæra sig um. Til dæmis var verkfræðingur nokkur sem vann í bæ nálægt Vajont sem gagnrýndi stíflugerðina harkalega í opnu bréfi og benti á hversu fáránleg hún væri og stórhættuleg. Sólarhring seinna var hann án allra skýringa fluttur í starfi óraleiðir í burtu. Og eftir það heyrðist ekki múkk frá honum.

Og annað dæmi. Skammt frá Vajont stíflunni var Ponte Sei stíflan sem hafði starfað í nokkur ár. Gagnrýnendur Vajontstíflunnar bentu á að þar væri að finna alveg sambærilegar aðstæður og þar væri hætta á landskriði.  Ponte Sei stíflan var aðeins 6 milljón kúbiklítra og því verulega minni. Og svo vildi til að um svipað leiti og þesssi gagnrýni var sett fram átti sér stað landskrið í  Ponte Sei. Nákvæmleg það sem menn óttuðust að gerast myndi í Vajont. De Sade menn sögðu að þetta allt væri ósköp eðlilegt og kæmi þeim ekkert á óvart þeir væru við öllu búnir. Landskrið væri hægt að fyrirbyggja með þeirri þekkingu sem þeir réðu yfir. Það þyrfti aðeins að fylgjast vel með landinu í kringum stíflurnar þá væri hægt að sjá landskrið fyrir og gera viðeigandi ráðstafanir. Þeir sögðust því hafa sett öryggisverði til starfa við Ponte Sei stífluna sem fylgdust nákvæmlega með öllu. Þetta væri allt í öruggum höndum þeirra og myndi ekki endurtaka sig. Þeir slepptu hinsvegar að nefna þá staðreynd að "öryggisverðirnir" var aðeins einn bæklaður öryrki sem var látinn vera á flakki við stífluna.  Og það var þeim alls ekki að skapi þegar landskriða féll aftur stuttu seinna í Ponte Sei stífluna og 20 metra há alda vatns og jarðvegs drap vörðinn. Þessvegna minntust þeir ekki á það og héldu því leyndu. Til að menn átti sig þá er 20 metra há alda á við fimm hæða hús.

Þó var einn blaðamaður að nafni Tina Merlin sem bjó í Longarone sem gagnrýndi vægðarlaust stíflugerðina og benti á þá hættu sem var samfara henni. Tina gjörþekkti allar aðstæður umhverfisins í Vajont dalnum þar sem hún hafði starfað með andspyrnuhreyfingunni í seinni heimsstyrjöldinni og farið um öll nærliggjandi fjöll og dali í áraraðir. Hún hafði einnig fylgst grant með framvindu allra mála við stíflugerðina og var ekkert að skafa utan af hlutunum í gagnrýni sinni. En Tina skrifaði í lítið bæjarblað kommúnista í Longarone sem fáir lásu og því fór lítið fyrir skrifum hennar. Kristilegi Demókrataflokkurinn var við völd á Ítalíu eftir stríð og samkvæmt þeirra kokkabókum voru það aðeins kommúnistar og stjórnleysingjar sem mótmæltu og gagnrýndu allt og alla aðeins til að skapa glundroða og sundrung. Á slíkar öfundsraddir var einfaldlega ekki hægt að hlusta. Þannig var öll umræða og gagnrýni þögguð niður. Tina Merlin hafði vaðið fyrir neðan sig og flutti frá Longarone því hún gerði sér fulla grein fyrir hættunni. Eftir að slysið átti sér stað var Tina ein af þeim fyrstu sem mættu á svæðið. Hún skrifaði þá bók um málið og rakti allan feril þess. Þeirri bók var lítið haldið á lofti og fór framhjá flestum og það liðu áratugir þar til menn gerðu sér grein fyrir mikilvægi hennar.

Eftir að byrjað var að hleypa vatni í Vajont dalinn vildu íbúar Kesso og Erto sem höfðu notað hlíðar Doc fjallsins til að rækta epli og ýmsar afurðir sér til framdráttar, fá brú yfir stífluna. Því hafði verið lofað í upphafi en eftir að De Sade menn höfðu hækkað stífluna kom slíkt ekki til mála að þeirra hálfu. Fjallið þolir ekki slíka brú, tilkynntu þeir fólkinu. En hvernig getur fjallið þá þolað stífluna með öllu þessu vatni?, spurði fólkið. En því var ekki svarað. Óánægðir héraðsmenn réðu til sín austurískan verkfræðing að nafni Muller til að meta stífluna og allar aðstæður. Hann dró upp ansi ófagra mynd af ástandinu. Mynd sem var ekki ófrábrugðin því sem gagnrýnendur stíflunnar höfðu haldið á lofti í langan tíma. Landið í hlíðum Toc fjallsins var á leiðinni niður í vatnið að hans mati. Aðeins tímaspurning hvernær það myndi æða af stað. Slíkt þýddi að 200 milljón kúbiklítarar af jarðvegi myndu falla niður í stífluna bráðlega og menn gætu gert sér í hugarlund hvaða afleiðingar slíkt hefði í för með sér. En Muller var fljótlega gerður tortryggilegur og ómarktækur með rökum þjóðernisrembings.

Árið var 1959 og Vajont stíflan tilbúinn. Stærsta stífla heims. Hvað vildu menn gera? Taka mark á einum manni, þessu Muller, sem auk þess var austurríkismaður. Og hvenær höfðu ítalir tekið mark á þeim? Átti að hætta við allt? Áttu Ítalir ekkert stolt? Hvert yrði álit heimsins á Ítalíu ef hætt yrði við stífluna? Og ítalir höfðu, þegar hér var komið við sögu, tekið að sér að reisa enn stærri stíflu í Egyptalandi, Azan stífluna, og voru í óða önn að undirbúa það verkefni. Ítalir höfðu þekkingu sem á var treystandi. - Þjóðrembingurinn varð ofaná og Muller var sendur til baka til austurríkis. Þar var hann best geymdur að mati De Sade manna.

1960 var byrjað að safna vatni í Vajont gljúfrið. Það tók 10. mánuði að fylla stífluna og þá var hverjum manni ljóst að fjallið Toc tók verulegum og auðsjáanlegum breytingum á þeim mánuðum. Nokkrir vísindamenn sem störfuðu hjá DeSade fyrirtækinu bentu á hættuna á landskriði og voru tafarlaust reknir reknir fyrir óþarfa afskiptasemi. Margt fólk gerði sér ferð til Rómar til að kvarta yfir ástandinu Vajont stíflunnar en það hlustaði enginn á slíkar kvartanir og embættismenn vísu þeim frá. De Sade fyrirtækið benti á að héðan í frá yrði engu breytt.

13. nóvember 1960 skrifar Tina Merlin enn og aftur um hversu ástand Vajont stíflunnar væri orðið hættulegt. Og sem fyrr var hún óvægin og hvöss í máli. Gera menn sér ekki grein fyrir hættunni? spurði hún og setti fram svo sterk rök fyrir máli sínu að í þetta sinn komust De Sade menn ekki hjá því að taka mark á skrifum hennar. Þeir brugðust við á þann máta að kæra hana. Hún var dreginn fyrir rétt ákærð og dæmd sek fyrir að hafa valdið óþarfa ótta hjá fólki með skrifum sínum.

Árið 1960 kveða ný lög á um að orkuver megi ekki framar vera í einkaeign og ríkið kaupir Vajont stífluna. De Sademenn fela allar skýrslur um ástand stíflunnar til að hún falli ekki í verði. Þeir hækkuðu jafnvel yfirborð vatnsins upp í 715 metra til að sýna getu og þol stíflunnar jafnvel þó þeir vissu að það var stórhættulegt og yki verulega hættuna á jarðskriði. Þegar yfirborð vatnsins var orðið svona hátt fóru ýmislegt að gerast í stíflunni sem bentu til óeðlilegs ástands. Ýmis furðuhljóð voru farinn að heyrast úr fjallinu. En stíflan skyldi seld á toppverði og það tókst.

De Sademenn voru stöðugum orðið á fundum útaf ástandinu sem var orðið ískyggileg. Talsvert var orðið um jarðskrið. Til að koma í veg fyrir stórslys hófu De Sademenn tilraunir með að framkalla smá landskrið en án árangurs. Þeir héldu ástandinu öllu leyndu. Upphafs og ábyrgðarmenn þessa ævintýris voru flest allir dauðir og grafnir en áfram var starfað í anda þeirra. Nú virtist öllum vera í mun um að bjarga eigin skinni með því að þykjast ekki sjá hvert stefndi.

1963. Vatnið er hækkað og lækkað til skiptis í stíflunni. Örvæntingarfullar tilraunir gerðar til að skapa landskrið í smá skömmtum en án árangurs. Frá fjallinu berast annað slagið undarleg hljóð.  Öllum er orðið ljóst að eitthvað muni gerast. En hvað? Og hvenær? De Sade menn enn við sama heygarðshornið og stinga öllum skýrslum um ástandið undir stól. Einkennileg starfsaðferð ráðamanna í vanda. Í aprílmánuði gera þeir síðustu tilraunir með að hækka vatnsyfirborðið án árangurs. Tilraunir eru ekki til neins. Hurðir og gluggar eru farnar að skekkjast verulega í húsum í kringum stífluna og öll tré farin að halla óeðlilega mikið. Landið er allt á hreyfingu.

Í ágúst er vatnsyfirborðið 710. metrar og það verður jarðskjálfti sem mælist 7. stig á Richter. Mörg húsanna í Erto og Kasso voru komin til ára sinna og mörg þeirra hrynja til grunna og önnur stórskemmast. Bæjarstjórn Ertos skrifar fyrirtækinu DeSade bréf þann 3. september og kvarta yfir ástandinu. Þeim berst svarbréf þann 13 september frá fyrirtækinu þar sem fullyrt er að engin hætta sé á ferðum og fyrirtækið hafi fulla stjórn á ástandinu. Staðreyndin er hinsvegar sú að verkfræðingar fyrirtækisins héldu neyðarfund 17. september og ákveða þar að fleiri tilraunir verði ekki gerðar með að hækka og lækka vatnsyfirborðið, slíkt sé alltof hættulegt. Þeim er ljóst að neyðarástand ríkir, en þeir láta sem ekkert sé.

Hreyfing á yfirborði Tocfjallsins nemur nú orðið 22 sentimetrum á viku. Verkfræðingarnir eru ráðvilltir. Vatnsyfirborð stíflunnar er 712 metrar. Tólf metrum hærra enn lög leyfa. En áfram er sama stefnan um að halda öllu leyndu og láta sem ekkert sé. Íbúar þorpanna í kring gera sér grein fyrir að eitthvað er að og gantast með ástandið en þá grunar ekki hversu alvarlegt það er í raun og veru. Trú þeirra og traust á valdhöfum er algjört. Fólk treystir þeim upplýsingum sem koma frá DeSade fyritækinu og að þeir muni senda út aðvörun með góðum fyrirvara ef einhver hætta sé á ferð.

8.oktober.
Boð koma skyndilega frá De Sade fyrirtækinu til íbúa þorpanna Ertos og Kasso um að yfirgefa þorpin umsvifalaust. Fjallið er svo greinilega á hreyfingu að það er flestum sjáanlegt. Komið er upp flóðlýsingu í skyndi svo hægt sé að fylgjast vel með hreyfingum þess.

9. oktober.
Það er komið kvöld og tveir menn eru á vakt í skrifstofu Vajont stíflunnar. Nokkrum kílómetrum hinu meginn í Pívédalnum, beint á móti Vajont stíflunni er bærinn Longarone. Longarone hafði viðurnefnið “Litla Mílanó” vegna fjölskrúðugs mannlífs. Sumir eru í bíó, aðrir á börum að spjalla, margir við vinnu sína. Unglingahópar í ærslafullum samræðum. Mæður að undibúa föt barna sinna sem eiga að fara í skólann snemma og eru sofandi. Eldri nemendur að læra. Pabbar sem hafa þegar komið sér í rúmið enda klukkan orðin 22.39. og þeir eiga að mæta snemma í vinnu daginn eftir. Elskendur á stefnumóti. Ungt fólk að leggja drög að framtíð sinni.
Á þessu andartaki fellur 260 milljón kúbikmetra skriða jarðvegs og skógar í Vajont stífluna og 50 milljón tonna alda rýkur öskrandi upp í loftið og klofnar. Helmingur hennar þýtur hátt yfir þorpin Casso og Erto. Hinn armurinn rýkur fimmtíu metra hæð yfir stíflugarðinn og stefnir á Longarone. Frá því andartaki sem skriðan fellur í stífluna og þar til hún skall á Longarone leið ein mínúta og tuttugu sekúndur. Fyrst skall hljóðbylgjan á Longarone og umhverfi. Öskur náttúrunnar. Öskur sem yfirgnæfði öll önnur hljóð. Samfara því fylgdi ýlfrandi og eyðandi fárviðri sem tætti bókstaflega allt lauslegt sem fyrir varð í frumefni. Öll útiverandi dýr, farartæki, tré og gangandi manneskjur hurfu á andartaki eitthvað út í buskann. Sprungu í eindir.
Um leið og fyrsta hljóðið barst mönnum vissu þeir hvað var að gerast. Skelfingin greip um sig. Margir reyndu að flýja eða að fela sig. Mæður reyndu að bjarga börnum sínum.  Allt til einskis. Kraftur loftsins er svo mikill að hann er tvisvar sinnum öflugri en Hirósima vetnissprengjan. Í kjölfar vindsins fylgdi jarðvegseðjan.

Milljónir tonna jarðvegs og vatns þýtur nokkra kílómetra á ofshraða gegnum loftið yfir nokkur smá þorp sem eru nálægt stíflunni og skellur af fullum krafti á Longarone úr 300 metra hæð og tætir þar allt með sér sem eftir er á nokkrum sekúndum og æðir síðan öskrandi niður eftir farvegi Píavéárinnar og hrifsar með sér fjögur nærliggjandi þorp og alla íbúa þess. Nokkrum mínútum seinna ligga tvö þúsund limlest lík á víð og dreif í leðju ásamt spýtnabraki úr húsum þorpanna. Enginn slapp lifandi úr þorpunum Longarone, Pirago, Rivalta, Fae og Codissago. Öllu þessu fylgdi síðan þögn lömunar, dauða og eyðileggingar. Náttúran hafði andmælt átroðningi og skilningsleysi mannsins.

Við skulum velta nokkrum atriðum fyrir okkur. Hvað eru 25. milljón kúbiklítrar vatns, grjóts og moldar? Hvert er umfang slíks magns vatns og jarðvegs? Til að við höfum einhverja sjónræna viðmiðun ætla ég að nota Hallgrímskirkju. Hve margar Hallgrímskirkjur eru 25 milljón teningslitrar? Segjum að kirkjan sé um það bil 36.000 kúbiklitrar. Þrjár kirkjur eru 108 þúsund kúbiklitrar. Tuttugu og sjö kirkjur eru 972 þúsund kúbiklitrar, bætum einni við og þá sjáum við að það eru semsagt 28 Hallgrímskirkjur í einni milljón kúbiklítrum. Og 25 sinnum 28 gera 700 hundruð. Semsagt 700 Hallgrímskirkjur. Og úr hvaða hæð féll svo skeflan? 262 metra hæð. Turn Hallgrímskirkju er 76 metra hár. Skeflan var semsagt þrír og hálfur Hallgrímskirkjuturn á hæð.

Flestir sem skrifuðu um Vajontslysið í stærstu blöðum ítalíu, voru málpípur stjórnvalda, og hömruðu á því að þetta hafði verið náttúruhamfarir og undirstrikun á hversu maðurinn mátti sín lítið í baráttunni við náttúruna. Einn blaðamaður leyfði sér að halda því fram að nú væru náttúruöflin komin í stríð við mannkynið. Stíflan sjálf væri meistaraverk því hún stóð eftir óskemmd þrátt fyrir þetta stórslys. Augljóst er okkur seinni tíma mönnum að ætlunin var að málið skyldi þaggað niður, og litið til baka þá tókst það á margan hátt. Þeir sem ábyrgð báru á þessum hamförum voru ekki látnir sæta ábyrgð. Að vísu voru upphafsmennirnir voru komnir undir græna torfu, en það fyrrir ekki þá sök  sem að málinu komu og viðhéldu blekkingunni. Tíminn er okkar eini sanni dómari og hann dregur allt fram sem undir stóla var stungið, fyrr eða seinna.

Við skulum líta á hvað Morgunblaðið hafði að segja um þennan atburð.

Fyrirsögn í Morgunblaðinu 11. okt 1963

Belluno 10 okt. - ap -ntb
ÞAÐ ER EKKERT EFTIR, sagði kona, ÉG ÁTTI VINI.
Hryllilegt flóð eyðir mörgum þorpum á norður Ítalíu, talið er að 4000 hafi farist á svipstundu síðastliðna nótt. Skriða féll í þriðju mestu stíflu heims.
Þjóðarsorg var í dag, er fréttist um óskaplegar náttúruhamfarir í Piavedalnum á norður ítalíu. Þar hefur geypilegt flóð jafnað við jörðu mörg þorp og sennilega kostað um 4000 manns lífið. Ofarlega í dalnum er þriðja stærsta stífla í heimi, Vajontstíflan, sem fullgerð 1960. Stíflan er byggð undir brattri hlíð Toc fjallsins, sem er um 1800 metra hátt. Uppistöðuvatnið var 7 km langt og talið vera um 150 milljón tonna.

Um miðnætti í nótt féll óskapleg skriða úr fjallinu, niður í uppistöðuvatnið, með þeim afleiðingum, að nær allt vatnið byltist yfir stíflugarðinn, niður í Piavedalinn. Var holskeflan sem kom æðandi um 100 metra há. Fyrir voru þorpin Belluno, Logarone, Fae og Pirago. Þau eru nú horfin af yfirborði jarðar. Flestir íbúanna er látnir, svo og helmingur íbúa tveggja annarra þorpa, Sodissago og Castellavazzo. Lík þúsunda bárust með æðandi vatnsflaumnum, sum 40 km eða lengra, allt að útjöðrum Feneyja, sem liggja langa vegu í suð austur.

Það hefur vakið athygli að ítalska fréttastofan Ansa skýrir svo frá í dag, að fyrir nokkru hafi orðið vart við jarðlagshreyfingar í Toc-fjalli, og hafi hún numið 40 cm á dag. Því var það ráð tekið að hleypa úr uppistöðuvatninu, og átti því verki að vera lokiðum miðjan nóvember. Forlögin hröðuðu því verki. Hefur nú verið fyrirskipuð rannsókn.
Lýsingar sjónarvotta eru hryllilegar.
Guglieimo Mairani fréttamaður Associated Press segir: Í dag fór ég til Longarone - þorps sem hætti að vera til rétt fyrir miðnætti í nótt. Aðeins ráðhúsið, sem stendur á hæð , er eftir. ekkert annað er sjáanlegt af húsakynnum 4. 600 manns. Við augum blasir upprifinn, grjóti dreifður farvegur flóðbylgjunnar. Ég hef aldrei séð annað eins á ævi minni. Líkin sitja föst í aurnum. Björgunarmennirnir hafa  ekki enn haft tíma til að fjarlægja þau. Sum líkin eru grafin undir grjóti og for. Íbúarnir kannst ekki við bæinn sinn. Ég hitti mann sem sat á steini, ég spurði hann hvort hann ætti hér heima.
“ Fjöldskylda mín er horfinn” sagði hann” hún sópaðist burtu. Hann talaði eins og hann væri í leiðslu.
Kona ein sagði við mig ” Það var verra en nokkur jarðskjálfti, kannski verra en atómstríð. Það er ekkert eftir. Ég átti vini þeir áttu heima hérna..eða þarna…ég veit það ekki - þeir eru horfnir”.
Hún sagði mér frá því, að fjöldskyldan hennar hefði vaknað við gnýinn og þá skalf jörðin. “ Við héldum, að það væri stíflan, svo hlupum við. Við sáum glampa, svo kom vindurinn, og vatnið byrjaði að flæða að okkur. Glampinn kom sennilega, þegar vatnið flæddi yfir háspennulínurnar.”

Ég hitti mann sem var á ráfi. Hann leit á mig og sagði: “ Þér trúið því kannski ekki en þarna stóð 4 hæða hús í gærkvöldi,” og hann benti á auri drifna jörðina. “ Það bjuggu tólf fjöldskyldur í því. Ég hef ekki séð neitt nema eitthvað drasl úr prentsmiðjunni. Hún var í kjallaranum. Ég átti hana”.

Eftirlifandi íbúar þorpsins Longarone skýra svo frá, að um klukkan 23.15 í gærkvöldi hafi heyrst mikill gnýr. Fólk æddi út á þorpsgöturnar og sá strax hvað verða vildi. Tóku gamalmenni og börn og fullorðnir til fótanna, en þeir elstu, svo og sumar konurnar og börnin voru of sein á sér og hurfu í holskefluna. Svipaða sögu segja þeir, sem komu úr nærliggjandi þorpum.

Björgunarstarfsemin hefur haldið áfram í allan dag. Lögreglan, her, bandarískir hermenn og þeir sem vettlingi geta valdið í nágrenninu hafa komið á vettfang, til að reyna að bjarga þeim sem kunna að vera á lífi. Þyrlur bandaríska hersins hafa bjargað amk. á annað hundrað manns. Meðal þeirra var ein kona , sem hafði fengið fæðingarhríðir, þar sem hún beið milli vonar og ótta. Hún fæddi barnið í þyrlunni.
Alls nemur tala björgunarmanna þúsundum, og hafa þeir til umráða fjölda af sjúkrabílum og öðrum faratækjum. Þyrlurnar koma þó mest að gagni, þar eð dalurinn er þakinn aur.
Ekki er öll hætta liðin hjá enn. Eitt af því sem hvarf af yfirborði jarðar í Piavedalnum, var verksmiðja, sem framleiddi blásýru. Öll sýrann barst með flaumnum og er óttast að eitrað vatn hafi borist niður dalinn. Hafa sérstaka varúðarráðstafanir verið gerðar.
Samúðarkveðjur hafa borist frá mörgum löndum, og efnt hefur verið til söfnunnar víða í Evrópu.

Morgunblaðið 11.okt. 1963 ( Ntp - Ap )  Belluno
UM TVÖ ÞÚSUND LÍK FUNDIN Í PIAVE DALNUM

Blöð kommúnista segja að hættunni hafi verið boðið heim er stíflan var byggð. í dag unnu um tíu þúsund menn björgunarstörf í Piavedalnum á Ítalíu. Enn hafa engar fréttir borist um hve margir hafa komist lífs af í náttúruhamförunum miklu í gær, en fundist hafa um 2000 lík. Hjálpartilboð hafa borist til Ítalíu hvaðanæva úr heiminum og þegar hafa verið send þangað lyf og peningar.

Blöð kommúnist á ítalíu halda því fram í dag að bygging Vajont stíflunnar hafi verið glæfrafyrirtæki, því að vitað hafi verið um hættuna, sem stafaði af skrifuföllum úr hlíðum Toc fjallsins.

Forstjóri fyrirtækisins sem rekur stífluna fyrir hönd ríkisins, Vito Antonio de Cago, sagði í dag, að vitað hefðii verið að hætta væri á smáskriðum úr Toc fjalli en enginn hefði getað séð fyrir hinar hræðilegu náttúruhamfarir sem urðu í gær.

Þúsundir manna vinna nú björgunarstörf á flóðasvæðinu í Piavedalnum, en eðja og grjót gera erfitt um vik. Engar fregnir hafa borist um hve margir hafa komist lífs af úr hamförunum, en um tvö þúsund lík hafa verið flutt í sameiginlegan grafreit nálægt Belluno. Þykir áríðandi að grafa líkin þegar í stað til að koma í veg fyrir að farsóttir brjótist út, og í dag var sótthreinsandi efni sprautað úr flugvélum yfir flóðasvæðið.

Hermenn, sem vinna við björgun í þorpinu Belluno komu í morgun auga á konu,sem stóð við rústir heimilis síns. Reyndu þeir að fá hana á brott frá rústunum, en hún neitaði að hreyfa sig. Hélt konan á brúðu í fanginu og grét. Hún var ein eftirlifandi af átta manna fjölskyldu.
Tilboð um aðstoð vegna náttúruhamfaranna hafa borist víðsvegar að og í dag sendu Bretar fatnað og lyf til Píavedalsins. Íbúar borgarinnar Skoplje í júgóslavíu sendu háa fjárupphæð, en eins og kunnugt er lögðu jarðskjálftar stóran hluta borgarinnar í rúst í sumar. Fulltrúar á kirkjuþinginu í Róm hafa tilkynnt að þeir munu gangast fyrir fjársöfnun. De Gaulle frakklandsforseti hefur sent peninga og margir fleiri hafa látið sitt af hendi rakna.
Það var einkafyrirtæki sem byggði Vajont stífluna, en í stjórnartíð Fanfanis var hún þjóðnýtt. 1961, skömmu eftir að stíflan var byggð, birti kommúnitablaðið UNITA frétt þess efnis að hætta vofði yfir Piave dalnum vegna stíflunnar, því að skriður gætu hvenær sem er fallið úr Toc fjalli í uppistöðuvatnið og valdið hinum mestu hörmungum. Blaðið var lögsótt vegna þessara skrifa og sakað um að flytja falsaðar æsifregnir, en sýknað af ákærunni.

Forseti fyrirtækisins, sem rekur stífluna fyrir hönd stjórnarinnar, Vito Antonio de Cagno, sagði í dag, að engum hefði getað komið til hugar að stórskriða á borð þá sem olli hamförunum í gær, gæti fallið úr fjallinu. En vitað hafði verið að hætta væri á smáskriðum. Eins og skýrt hefur verið frá varð fyrir nokkru vart vart jarðlagshreyfingar í Toc fjalli og námu þær 40 sentimetrum á sólarhring, var þá hafist handa að hleypa úr uppistöðuvatninu og átti verkinu að vera lokið í nóvember.

Bæjarstjóri eins þorpanna sem flóðið lagði í eyði, taldi yfirvofandi hættu steðja að dalnum vegna jarðlagshreyfinganna og vildi flytja íbúa þorpsins á brott, en ekkert varð úr framkvæmdunum.

Dagana áður en flóðið skall yfir dalinn, hafði fólk veitt því athygli, að geitur dalbúa leituðu til fjalla.

MBL.13.okt.1963
Ítalska stjórnin gagnrýnd fyrir aðgerðarleysi. Ítrekuðum aðvörunum um skriðuhættu í Piavedalnum var ekki sinnt.

Belluno, ítalíu 12.okt.
Unnið er að því að grafa lík úr rústum hús og undan leireðjunni í Piavedalnum á norður ítalíu. Er talið að alls hafi þrjú þúsund manns farist í flóðunum, og að enn liggji rúmlega 1000 lík grafin í leðjunni. Hefur öll umferð um flóðasvæðin verið bönnuð, en fjölmennt herlið vinnur að því að dreifa sótthreinsandi efnum og kalki yfir svæðið til að koma í veg fyrir að farsóttir brjótist þar út.

Ítalska stjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að sinna ekki ítrekuðum aðvörunum um skriðuhættu við Vajont stífluna, og geta þessar árásir á stjórnina haft mikil áhrif á væntanleg stjórnarskipti í næsta mánuði.

Árásirnar á ríkisstjórnina hafa aðallega komið frá þingmönnum kommúnista, og halda þeir því fram að yfirvöld hafi fengið aðvörun um hvað í vændum var, en ekkert gert til að forða mönnum frá hættusvæðinu. Hefur stjórnin skipað rannsóknarnefnd til að kann alla málavöxtu, og á nefnd þessi að skila ítarlegu áliti fyrir 15. des. n.k.

Í borginni Belluno, sem er um 19 km fyrir sunnan flóðasvæðið, kom sveitarstjórnin saman til fundar í gær og samþykkti samhljóða að afhenda ríkisstjórninni öll gögn varðandi Vajont stífluna. Meðal þeirra gagna er skýrsla, sem sveitarstjórninni barst fyrir tveim árum um hættu á skriðuföllum.

Frá Lissabon er símað að skömmu eftir að Vajont stíflan var fullgerð, hafi ítölsk yfirvöld óskað eftir áliti portúgalskrar verkfræðinganefndar um hættu á skriðuföllum við stífluna. Nefnd þessi var send á staðinn til að kanna aðstæður, og skýrði frá því að jarðvegurinn í hlíðunum  fyrir ofan stífluna væri á hreyfingu.. Manuel Rocha, formaður verkfræðinganefndarinnar, sagði í Lissabon í dag, að nefndarmenn hafi undrast það, að engar varúðarráðstafanir hafi verið gerðar.

Vajont stíflan er þriðja stærsta stífla heims, 266 metra há. Ekki urðu alvarlegar skemmdir á stíflunni við skriðufallið, og heldur hún ennþá milljónum lesta af vatni. En óttast er að enn geti fleiri skriður fallið og valdið frekari skemmdum. Verið er að flytja burt íbúa nærliggjandi þorpa.

MBL. 15 okt. 1963
Ítölsk blöð óttast að sjálf stíflan bresti. - er vetraregnið hefst - Rangar fregnir um ný skriðuhlaup úr Toc fjalli í gær.

Belluno 14 okt. AP / NTB )
Mikil skelfing greip um sig í dag í Vajont héraði, er tilkynnt var að ný skriða væri að falla í fjallinu Toc við Vajont stífluna, en í Piave dalnum fyrir neðan stífluna fórust 2000 manns í flóðbylgju síðastliðinn miðvikudag, er skriða hljóp úr fjallinu í uppistöðuna. Ítalska fréttastofan Ansa tilkynnti í dag að orðið hefði vart við nýja skriðu í fjallinu, sem færi með 30 cm hraða á mínútu.Ítölsk yfirvöld tilkynntu þó brátt að rangt væri að meiriháttar skriða væri að hlaupa af stokkunum. Voru bandarískar og ítalska þyrlur sendar til að kanna málið, og kom þá í ljós að hreyfing í fjallshlíðinni var mjög lítil. Hinsvegar er enn hætta talin á því að nýjar skriður kunni að hlaupa úr fjallinu.

Enda þótt á daginn hafi komið, að fregn Ansa um hið nýja skriðufall var ekki á rökum reist, láta ítölsku blöðin nú í ljós áhyggjur, og telja að vegna hinnar miklu skriðu, sem féll í stífluuppistöðuna síðastliðinn miðvikudag, kunni að fara svo að sjálf stíflan bresti, er vetrarregntíminn hefst.

Níu af þeim bæjarstjórnarmeðlimum í Longarone sem lifðu af á miðvikudag, sátu á fundi og ræddu á hvern hátt kæra bæri þá aðila sem taldir eru bera ábyrgð á slysinu. Ræddu bæjarstjórnarfulltrúarnir einnig þann möguleika, að krefjast þess að þingnefnd verði sett á laggirnar í Róm til að rannsaka málið. Átta af 20 bæjarstjórnameðlimum Longarone, þar á meðal bæjarstjórinn, fórust í flóðinu, er það æddi yfir Piave dalinn.

Á bæjarstjórnafundinum í dag var ákveðið að þeir sem rólfærir væru í Longarone, skildu skiptast á að hjúkra hinum særðu í sjúkrahúsi í nágrenninu. Ítalskir hermenn vinna enn að því að grafa upp lík í dalnum, og leita að eigum fólks.

MBL. 16.okt.
Skekkja í útreikningi.

Róm 15.okt. ( AP )
Félagsmálaráðherra Ítalíu Fiorcentino Sullo sagði í ítalska þinginu í kvöld að reikningsskekkja hefði valdið nokkru um slysið mikla í Piave dalnum s.l. miðvikudag. Mistök hefðu orðið þegar Vajont stíflan var byggð. Vöktu upplýsingar þessar mikla athygli, því að rannsóknarnefndn sem stjórnin setti á fót til þess að kanna slysið, hefur aðeins starfað í fáa daga og mun ekki skila áliti fyrr en 15. desember.

Kommunistar létu mjög ófriðlega í salnum á meðan Sullo talaði. Ráðherran sagði að þar sem mannleg mistök hefðu átt þátt í slysinu, myndi stjórnin endurbyggja þorpin, sem lögðust í eyði, á sinn kostnað. Sullo sagði að áætlað tjón af völdum flóðanna næmi rúmum milljarði ( ísl. kr.)

Mbl. 20, okt. 1963
Allir látnir. Í morgunblaðinu 20 okt. er frétt um italska konu að nafni Anna Wood sem bjó í London og missti alla ættingja sína,  í Dal Dauðans eins og Piave dalurinn er kallaður í dag. Yngsti bróðir hennar er eini lifandi ættinginn því hann var staddur í heimsókn hjá henni. Allir ættingjar þeirra, meira en þrjátíu manns fórust í hörmungunum.

Skrifað Perugia og Reykjavík 2000 /2001

Hörður Torfason