Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Tímarnir breytast

hordursjalfur's picture

Tímarnir breytast og hegðun fólks með. Notkunin á heimasíðunni minni hefur gjörbreyst á rúmu ári og á ég bæði við sjálfan mig og aðra. Aðsókn að síðunni hefur ekki minnkað en meðlimum snarfækkað. Áður fyrr var síðan opin hverjum sem vildi og fólk nýtti sér það vel og margir hverjir alltof vel þannig að ég varð að hefta aðgang að síðunni. Ég var orðinn leiður og þreyttur á ómálefnalegum athugasemdum og skærum dónaskap. Ég er ennþá með netfangalistann minn og sendi út tilkynningar um tónleika mína og útgáfu nýrrar plötu eða vek athygli á einhverju nýju varðandi heimasíðuna. Ég hef gætt þess vel að nota ekki netfangalistann til annars.

En athyglisvert er að þegar ég sendi út skilaboð síðastliðið vor og  haust um tónleika mína var stór hluti notenda búinn að loka á mig og ég fékk gríðarlega hrúgu skilaboða til baka um að menn vildi ekki boðin. Þetta kom greinilega í ljós líka í aðsókn á tónleikum mínum í Borgarleikhúsinu í fyrra. Þeir kolféllu í aðsókn. Fólk snéri við mér baki. Greinilega var það vegna framkomu minnar á Austurvelli og því sem ég stóð fyrir þar. En það átti ekki að koma fólki á óvart, að mér finnst, ég hef í tæp 40 ár staðið í mannréttindabaráttu hér á landi og mun halda því áfram. Og framtak mitt á Austurvelli var ekkert ert annað. 

Ég hef alla daga undirstrikað sjálfstæði mitt sem listamaður og hef aldrei selt þjónustu mína neinum nema almenningi. Ég álít að starf mitt sem listamaður sé að gagnrýna yfirvöld og beita mér þegar fók er beitt órétti. Og ég mun halda því áfram. Til þess mun ég aldrei ganga í stjórnmála eða trúarflokk og hef ekki gert. Ég hef mig yfir og útfyrir slíkt. Sjálfstæðið er mér dýrmætara en svo, það er kjölfesta starfs míns.

Laun mín og afkoma byggist eingöngu á vekum mínum, inkomu minni af tónleikum og plötusölu.

Nú stefni ég að litlum tónleikum í Iðnó 1. apríl. Það verður fróðlegt að finna undirtektir. Og ég sendi út skilaboð á óbreyttum netfangalista mínum í fyrrakvöld og fékk aðeins eina höfnun.