Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Þjóðfundur?

hordursjalfur's picture

Það er svosem vitað að þjóðfélagslegar breytingar taka tíma, jafnvel áratugi. En mörg tröll ætla að vera í dyrum okkar íslendinga til viðhorfsbreytinga. Þessi "Þjóðfundur" er dæmi um eitt stærsta tröllið. Hér er sett á fulla ferð að virkja bjartsýni landans. Það er spurt hvað vill þjóðin? Hefur það eitthvað verið að flækjast fyrir fólki síðan Hrunið varð? Ekki mér vitandi, nema örfárra sem ekkki sjá neitt athugavert við Hrunið. Sjálfsagt vegna þess að það græddi á því.

Við viljum nýtt Ísland, sukkið burt; heiðarleika, ábyrgt og menntað fólk í stöður, burt með vina-ættingja-flokkssmjaðrið. Strangara eftirlit með fólki í ábyrgðarstöðum. Við vljum að þeir sem ollu Hruninu verði kallaðir fyrir og settir inn. Við viljum að þjófarnir sem stálu frá okkur skili fénu. Við viljum burtu það fólk sem var í ábyrgðarstöðum þegar Hrunið varð. VIð viljum að skoðað verði heiðarlega öll tengsl stjórnmála og embættis manna og þeir látnir svara til saka. Við viljum að forseti Íslands segi af sér, tafarlaust. Þetta er fátt sem ég tel fram hér, en ætti að vera nægilega skýrt til að vita hvað menn vilja.

Það er vitað mál í mannrækt að sá sem ætlar að taka sig á í lífinu eftir að hafa siglt málum sínum í strand að hann byrjar á því að skoða hvað gerði hann rangt. Í því felst heiðarleikinn og eina leið hans til endurreisnar. Það er ekki nóg að skipta um kennitölu, fara í bað og hrein föt og trekkja sig upp í enn eitt bjartsýniskastið. Nóg var fyrir.

Hverjir stóðu fyrir og fjármögnuðu þennan fund? Var þetta allt unnið í sjálfboðavinnu? Í hvað fóru 7 milljónirnar sem Samfylkingin lofaði? Hver borgaði afganginn? Hvernig var valið á fundinn og hver valdi fólkið? Hversvegna voru 2 fulltrúar "handvalinna" á hverju borði? Hversvegna var verið að "handvelja " stjórn og peningamálafólk þarna inn?

Mér kemur ekki til hugar að vera að kasta rýrð á það fólk sem tók þátt í þessum fundi. En ég fer fram á að gagnrýnin hugsun sé viðhöfð. Annars sekkur allt í sama gamla farið og ekkert breytist. Og því miður eru mörg tákn á lofti um að þangað stefni. 

Í gegnum veraldarsöguna hefur maðurinn lært að virðing kemur innan frá. Sé sjálfsvirðingin til staðar þá er þar líka að finna heiðarleika og ekki síst það sem mestu máli skiptir; umburðarlyndi og kærleika.