Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Punktur

hordursjalfur's picture


Ég er og hef verið síðan 1973 algjörlega sjálfstætt starfandi listamaður og aldrei selt mig, verk mín né starf mitt öðrum hagsmuna aðilum. Ég hef notað menntun mina, þekkingu, áræðni og reynslu til að berjast fyrir mannréttindum og frelsi hér á landi með góðum árangri. Á því hefur engin grætt nema almenningur og þannig finnst mér það eiga að vera. Til þess starfa ég sem listamaður. Baráttutækni mín felst í að ég framkvæmi hugmyndir sem allir eru að tala um en engin ( nema ég, á stundum) virðist þora eða vera fær um að framkvæma.

Ég nefni sem dæmi um verkefni mín sem hafa öll heppnast; baráttu fyrir umræðu um samkynhneigð sem ég hóf 1975. Stofnun Samtakanna ´78. Stöðuga umræðu mína um nausynlegan margbreytileika mannlífsins í gegnum texta og tónlistarflutning á plötum, tónleikum og á leiksviði. Ég hef stöðugt bent fólki á að fjölbreytileikinn er lykill að betra og hamingjusamara samfélagi sem er okkar allra, ekki fárra. Og að það samfélag þrífst best sem heldur sér stöðugt lifandi með málefnalegri umræðu.  

Baráttuna gegn svívirðilegri meðferð á Poul Ramses og fyrir kröfunni um að hann og fjöldskylda hans fengi að búa hér landi. Útifundirnir á Austurvelli veturinn 2008 /2009 svokallaðri Búsáhaldabyltingu.

Allt launalaust starf byggt á lífsviðhorfi mínu.
Ég tilheyri hvorki trúar, né stjórnmálasamtökum og hef aldrei fengið stuðning fjármálafyrirtækja.
Laun mín koma eingöngu frá tónleikahaldi, hljómplötuútgáfu/sölu og útvarpsspilun.

Ég hef gefið út 22 plötur á ferli mínum og selt tæplega 60.000 plötur. 

Ég hef sótt um listamannalaun síðan 1982 og fengið tvisvar á ferlinum starfslauna listamanna, hálft ár í senn. Og svo fékk ég starfslaun frá Reykjavíkurborg, í hálft ár, einu sinni.

Flestir fjölmiðlar á Íslandi eru í eigu og umsjón stjórnmála eða fjármálaafla sem eru blind á allt nema það sem þau telja sig eiga og vilja ráða. Mig eiga þeir ekki.  Fjölmiðlar eiga að segja frá, fræða og upplýsa. Á því er mikill skortur hér á landi. Lymskulegur og einhliða áróður er oftar en ekki einkennandi fyrir þá. Þöggun er aðferð til að vinna gegn mönnum og málefnum.

Rvík 29 ágúst 2010