Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Jákvæð tímamót

hordursjalfur's picture
að er gaman að standa á merkum jákvæðum tímamótum. Þannig tímamót voru í mínu lífi síðastliðinn þriðjudag 27 júni þegar blásið var til fagnaðar í Hafnarhúsinu í Reykjavík og ástæðan var að ný lög um réttarstöðu okkar samkynhneigðra tóku gildi. Og það var dáldið einkennilegt að vera þarna viðstaddur því að Samtökin´78 sýndu fæst merki um að vera samkynhneigð. Þarna voru pólitíkusar að segja hvað þeir væru góðir og þessvegna líka góðir við okkur og formaðurinn tók undir það. Þetta var semsagt allt voða gagnkynhneigt og pínulítið stíft. Ekki að ég sé sérstaklega á móti gagnkynhneigðri menningarstefnu, mér finnst bara samkynhneigð menningarstefna verða að vera með á svona tímamótum. Það vantað semsagt alla sjálfsvirðingu samkynhneigðra á þessum tímamótum.
Í dag gangast flestir listamenn við samkynhneigð sinni og við eigum marga góða listamenn sem hefði verið gaman að sjá troða þarna upp. Og full ástæða til. Á boðskorti í nafni Samtakann´78, stóð að í boði yrði dagskrá okkar bestu listamanna. Á sviðinu var hljómsveit sem kynnti sig ekki og engin vissi hver var og þar var ekkert samkynhneigt við hana. Viddi Eggerts var að vísu kynnir en flokkast það undir list? Bergþór Pálsson söng í hópssöng óþekktra. Það var allt og sumt. Nema mér sé farið að förlast hrapalega og að ræðustúfar Geir H. Haarde, Guðrúnar Ögmunds og Hrafnhildar formanns sé orðin list?
En þrátt fyrir þessi nýju lög eru réttindum okkar ekki að fullu náð. Kirkjan vill ekki gifta samkynheigða. Entar kirkjunnar eru að hugsa málið eins og undarfarnar aldir. Mér til mikillar undrunar er til samkynhneigt fók sem vill knýja kirkjuna til að veita þeim blessun. Til hvers? Fyrir mér er það svipað og að biðja böðul um að brýna ekki öxina. Kirkjan er að mínu viti sú stofnun sem hefur barist einna hatrammast gegn okkur. Reyndar álít ég hana vera ábyrga fyrir því að ég hef þurft að ganga í gegnum allskonar niðurlægingu og höfnun og útskúfun í marga áratugum af því að ég vildi ekki hlýðast dyntum hennar og löggjafans sem studdi hana. Nú eru kirkjuentarnir í fýlu af því að klofningur er kominn upp og þeim er sagt að trénuð viðhorf þeirra sé ekki marktæk lengur. Kirkjan leggur blessun sína yfir alllskonar sýndarmennsku og hræsni. Giftir í búntum fólk sem er bara í partýleit og múgsefjun og er skilið stuttu eftir að brúðkaupsveisluvíman er runnin af því og búið að taka upp allar gjafirnar. Samt lofuðu þau að vera trú hvert öðru uns dauðinn aðskildi þau og allt það. Prestar pússa oftlega saman fólk sem er í raun óhæft að vera í hjónabandi og presturinn (kirkjan) veit það vel.
Í nafni kærleikans og að allar manneskjur séu jafnar fyrir guði leyfir kirkjan sér að viðhalda fordómum af grófustu gerð í okkar garð. Kærleikur er í mínum huga nokkuð sem verður aldrei rammað innan veggja fordóma og þröngsýni né nokkursstaðar annarsstaðar. Kærleikur smýgur í gegnum allt og hunsar allar tegundir af girðingum.
Biskup Íslands sem er embættismaður okkar og þar með ábyrgðaraðili leyfði sér að svívirða okkur með því að vara fólk við að kasta ekki hjónabandinu á ruslahauga með því að vígja samkynhneigða. Hreint út sagt eiga svona embættismenn umsvifalaust að vera sviptir embætti því þeir hafa ekki leyfi til að segja slíkt. Það er ómældur harmur sem forstöðumenn ýmissa trúarsamtaka hafa valdið samkynhneigðum og fjöldskyldum þeirra í gegnum tíðina hér á landi og má skrifa á þá margvíslegri sundrung, niðurbrot og jafnvel sjálfsvíg.
Merkilegt nokk eru til samkynhneigt fólk sem vill tilheyra kirkjunni þó svo hún afneiti okkur. Ég hvet allt samkynhneigt fólk sem er trúað að stofna sína eigin kirkju sú trú og stefna yrði margfalt betri fyrir þau og áhrifameiri. Og ég sting hérna að þeim þeirri hugmynd að hafa bygginguna endilega bleika þegar þau reisa sér sinn fyrsta samkomustað og nóg af blúndum á altarinu.
Ég veit það eitt af eigin reynslu að finna jafnvægi og hamingju í lífinu er að geta lagalega siðferðislega gengist við þeirri ábyrgð að að búa í hjónabandi með manninnum mínum. Eftir að við tókum þá ákvörðun að nýta okkur réttin til að fara í staðfesta sambúð jókst gagnkvæm virðing okkar fyrir hvor öðrum og umhverfi okkar um leið. Virðing kallar nefnilega á virðingu. Og við blásum á allan orðhengilshátt og látum hvern sem er heyra það að við séum giftir. Hjónaband er sameiginleg ábyrgð á lífi okkar.
Í gamla daga var ein af mörgum baráttuaðferðum mínum fólgin í því að spyrja þegar talað var um að einhver væri að fara að gifta sig hvort viðkomandi væri að giftast karlmanni eða kvenmanni. Það kom yfirleitt hik á boðbera brúðkaupsfréttanna því þær voru alltaf miðaðar við gagnkynhneigð pör, þegar ég fór að blanda samkynhneigð inn í málið. Það gerðist t.d. svona: Sigga frænka tilkynnti í fjöldskylduboðinu að Gunnar frændi væri að fara að gifta sig og ég fékk baneitrað augnráð og eiturbyrlandi hugsanir, og ekki fleiri heimboð næstu mánuðina, eftir að ég spurði hátt yfir allan hópinn; karlmanni eða kvenmanni? Mér var sagt að ég væri að leika mér að eldinum, væri dóni og ekki í húsum hæfur, því allir vissu að Gunnar frændi væri ekki haldinn neinni ónáttúru. Hann væri að fara að giftast konu. 
Þetta er smá dæmi þegar samkynhneigðri menningastefnu er fléttað inní þá gagnkynhneigðu.