Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Heiðarleiki

hordursjalfur's picture

Eitt sinn að loknum tónleikum úti á landi var ég að selja plötur að vanda og tók eftir einni konu sem skoðaði vel hverja einustu plötu á meðan ég var að afgreiða annað fólk. Loks varð hún ein eftir við borðið og var upptekin við að skoða. Ég spurði hana hvort hún væri að leita að einhverjum ákveðnum söng?

"Nei, elskan mín, sagði hún ég sé að ég á þetta allt saman og hef unaðslega gaman að tónlistinni þinni og textum. Mig langaði bara til að skoða diskana því frænka mín kaupir þá alla en svo brennir hún alltaf eintak handa mér. Þessvegna veit ég aldrei hverning þeir líta út. En nú veit ég það, bætti hún við, hlæjandi."

Ég spurði hana hvort hún hefði hugleitt að í raun væri hún að stela. Ég safnaði peningum og legði á mig mikla vinnu við að semja texta og tónlist og koma þessu öllu á plötur og það kostaði mikla peninga. Þetta væri sem sagt lifibrauð mitt sem listamanns. Ég hefði engar aðrar tekjur.

Það kom á konuna og hún horfði undrandi á mig. Svo birti yfir henni og hún sagði:" Þú færð pening frá mér þegar ég borga inn á tónleikana svo þú getir framleitt plötur. Svo ég get ekki séð að ég sé að stela. Auk þess eru diskarnir alltaf gjöf frá frænku minni. Og við erum báðar heiðarlegar manneskjur."

Svo gekk hún ánægð út. Ég velti fyrir mér heiðarleika á meðan ég pakkaði saman. Skyldi vera eitthvað til sem kallaðist íslenskur heiðarleiki? 

30.nóv.´09