Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Garðurinn minn.

hordursjalfur's picture

 

Eitt sinn átti ég lítið bakhús á einni hæð með garði. Það var girðing í kringum lóðina. Fyrsta vorið sem ég bjó þarna fylltist garðurinn af krakkaskara sem lék sér af krafti með tilheyrandi öskrum og óhljóðum og hlaupum um garðinn og uppá þakinu á litla húsinu mínu.  Mér fannst þetta verulega óþægilegt og truflandi. Ég velti því fyrir mér hvað ég gæti gert svo ég fengi frið. Ég vinn nefnilega heima hjá mér og þarf frið við mína vinnu.  

Ég mundi vel eftir því þegar ég var krakki og var einmitt að stríða fólkinu sem bjó í húsinu sem ég átti núna. Við fórum dálítið öðruvísi að þá, krakkarnir. Garðurinn, í þá daga, var matjurtagarður og spennan hjá okkur krökkunum í hverfinu var að stela rófum og tilheyrandi. Leikurinn fór iðulega þannig fram að einn var manaður að fara inní garðinn að stela og á meðan fylgdist hópurinn, einhversstaðar í felum, spenntur með. Fátt var skemmtilegra en þegar eigandinni kom askvaðandi út, öskrandi og veifandi höndum og reyndi að grípa þann krakka sem var í garðinum. Þá birtust allur krakkaskarinn við girðinguna og öskraði á eigandann og reyndi að draga athygli hans frá þeim sem var að stela. Ég man aldrei til að nokkur af okkur krökkunum hafi verið gripin. En ég man ennþá spennuna sem fylgdi þessu ævintýrum. Og ég man vel eftir að garðarnir þóttu misspennandi, hjá okkur krökkunum, allt eftir viðbrögðum eigandanna.  Skemmtilegustu garðarnir voru þar sem eigendurnir æstu sig mest.

Hafandi þessi æskubrek í huga fór ég út til krakkanna í garðinum. Og auðvitað þurfti ég ekki að gera annað en að birtast til að þau tóku öll á rás útfyrir garðinn og horfðu á mig yfir og í gegnum girðinguna tilbúin að hlaupa lengra ef með þyrfti. Spennan og galsinn logaði í hverju auga. Þau biðu spennt, með öndina í hálsinum, eftir hvað ég myndi gera.

Ég sagði við þau: krakkar þið megið alveg leika ykkur í garðinum mínum og uppá þakinu á húsinu mínu, ef þið viljið. En það kostar 1000 kall að vera uppá þaki og 500 krónur að vera í gaðinum. Og ég rukka því ég er alltaf heima eins og þið vitið.

Ég bjó þarna í átta ár og það voru krakkar að leik í garðinum mínum aðeins fyrsta vorið.