Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Fréttatilkynning

hordursjalfur's picture

Tímabilið 17. – 25. júní sl. dvaldi undirritaður á Spáni í boði þarlendra samtaka og einstaklinga. Tilefnið var að upplýsa og fræða Spánverja um hugmyndavinnuna og aðferðirnar sem grundvölluðu svokallaða ‚Búsáhaldabyltingu‘ á Íslandi.

 

Umræðuefni mitt var sú hugmyndafræði sem ég hef starfað eftir í áratugi hér á landi og árangur hennar. Þessari hugmyndafræði er ágætlega lýst í bókinni ‚Tabú‘ sem Ævar Örn Jósepsson skrifaði um líf mitt og starf og kom út í nóvember 2008. 

 

Það skal tekið skýrt fram að ég hef alla tíð starfað sjálfstætt, án tengsla við stjórnmálaflokka, trúarhópa eða aðra hagsmunahópa, og öll vinna mín grundavallast á friðsamlegum aðgerðum og viðleitni til að setja andlit á alla réttindabaráttu. Þannig hefur það alla tíð verið og þannig mun það halda áfram að vera. 

 

Veturinn 2008 - 2009 átti ég fleiri hundruð viðtöl við fjölmiðla og fréttamenn frá öllum heimshornum þar sem ég ræddi fortíð mína og viðhorf sem manneskja og listamaður. Útgangspunkturinn var það framtak sem ég stóð fyrir á Austurvelli þennan vetur og hugmyndin að svonefndri ‚Búsáhaldabyltingu‘. Meðal þessara fréttamiðla voru stærstu fjölmiðlar í heimi. 

 

Ferð mín til Spánar var algjörlega kostuð af ýmsum samtökum og einstaklingum og framlag mitt var launalaust eins og ætíð hefur verið fyrir slíkt starf. Ferðin stóð í viku og ég ferðaðist til Barcelona, Palma de Mallorka, Cordóba og Madrid. Ég hélt ræður á hverjum degi fyrir hundruðir manna, bæði á götum úti og í ræðusölum, og svaraði fyrirspurnum um málefnið. Þar fyrir utan var ég nánast stanslaust í viðtölum við tímarit, sjónvarp, útvarp og dagblöð, þ.m.t. áhrifamestu fjölmiðla hins spænskumælandi heims. 

 

Ég hef verið beðinn um að taka þátt í gerð myndbanda þar sem ég ávarpa fólk í ýmsum þjóðlöndum og hvet það til áframhaldandi baráttu við það óréttlæti sem alþjóðlega bankakerfið hefur kallað yfir heiminn. Þessi myndbönd hafa farið víða og viðbrögðin við þeim eru mjög jákvæð og þakklát. Óhætt er að fullyrða að milljónir manna hafa kynnt sér þau.

 

Á síðustu misserum hef ég fengið heimboð víða að, frá Spáni, Grikklandi, Frakklandi og löndum í Suður-Ameríku, og beiðnir um að halda fyrirlestra og útskýra tilurð ‚Búsáhaldabyltingarinnar‘ svonefndu. Að svo stöddu hef ég ekki tekið ákvarðanir um næstu skref en þjóðir heims eru að vakna til vitundar um lýðræðisleg réttindi sín og ég er tilbúinn að taka þátt í þeirri vakningu.

 

Reykjavík 6. júlí 2011,

Hörður Torfason.