Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Dæmi frá fyrsta degi mínum eftir nýafstaðnar kosningar.

hordursjalfur's picture

 

Fréttirnar sögðu að héðan í frá þyrftu sjúklingar að greiða lyf sín mun hærra verði en áður og ef þeir ættu í erfiðleikum með það væri þeim boðin raðgreiðsla með Visa.

 

Kona, sem stóð títt mótmælafundina á Austurvelli, skuldum vafin og nær endum ekki saman, sagði mér að á komandi sumri myndi hún fá verulega upphæð inn á bankareikninginn sinn frá nýju stjórninni. Þeir hefðu lofað því. 

 

Ég hitti gamlan mann sem sagði mér að ég ætti ekki að rugga bátnum oftar: “Kjóstu Sjálfstæðisflokkinn og allt verður í himnalagi bæði hjá þér og mér. Ég hef alltaf kosið þann flokka og hann er mín kirkja. Þetta eru skilaboð mín til þín, Hörður. ”

 

Og svo fékk ég þessi skilaboð á Facebook:

 

29 04 -2013 – 17:16

Sæll Hörður.

 

Ég hef tekið langan tíma í að senda þér þessi skilaboð. Í kjölfar bankahruns gerðist þú sjálfskipaður talsmaður landsmanna um betra Ísland. Þú stóðst fyrir mótmælaaðgerðum og fékkst í lið með þér illa sett fólk sem ég ber virðingu fyrir en einnig sorann í okkar þjóðfélagi sem var tilbúið að grýta lögreglumenn sem ekkert höfðu til saka unnið. Ekki sá ég þig í liði þeirra er stilltu sér upp í varnarvegg fyrir framan lögreglumennina.

 

Þegar þú fórst af stað voru tveir stærstu flokkar landsins með mjög rúman þingmeirihluta, m.ö.o. þeir höfðu umboð góðs meirihluta þjóðarinnar til endurreisnarstarfs. Þú og þínir komu þeim frá völdum og nú getur þú metið hvort það hafi verið til góðs fyrir íslenska þjóð. Ég held því fram að framtak þitt hafi kostað þjóðina, þ.á.m. mig, hundruði milljarða og ég skal svo sannarlega hitta þig og rökstyðja frekar ef þú telur að það þjóni tilgangi.

 

Nú hefur þjóðin kosið og úrslitin hljóta að vera þér og þínum þungbær. Niðurstöður fela í sér kröfu um að þú og þínir haldi sig til hlés og leyfi réttkjörnum þingmönnum að vinna sín störf og leiða okkur inn í framtíðina. Má ég biðja um að þú stígir ekki aftur upp á pall og þykist enn á ný tala fyrir hönd þjóðarinnar í tilraun til að koma frá réttkjörinni ríkisstjórn. Þú hefur aldrei talað í mínu umboði og munt aldrei. Ég leyfi mér að halda því fram að þú hafir ranglega ofmetnast af þeirri umfjöllum sem þú fékkst á þessum erfiðu tímum í sögu okkar okkur hinum til bölvunar.

 

Má ég að lokum hrósa þér fyrir aðra þætti. Þitt framlag í þágu réttindabaráttu samkynhneygða verður aldrei nægilega þakkað og ágæt tónlist þín hefur glatt margan.

 

Með vinsemd og virðingu.

 

Skúli