Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Bergþóra Árnadóttir kvödd

hordursjalfur's picture
Himnaför Bergþóru Árnadóttur söngvaskálds verður haldin í Hveragerðiskirkju klukkan 13.00 í dag og síðan verður aska henna jarðsett í Kotstrandakirkju.
Bergþóra var einfaldlega sú mannvera sem maður er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast og hafa notiðt samverstunda með. Öll samtölin og vangavelturnar í eldhúsinu á Skólavörðurstíg hjá henni og heiðursmanninum Valda eru eftirminnileg svo og þeir handmáluðu bílar sem hún ók á og ég kallaði líkkistur á hjólum. Heimsóknir hennar til mín í Kaupmannahöfn og bréfaskriftir okkar og þegar hún tróð upp í Jónshúsi ásamt syni sínu Jóni Tryggva. Þegar hún birtist með lítið hljóðfæri, sem flestum fannst minna á upptrekkta dós, en hún samdi lagið við Lífsbókina á það og þar með réttlætti hún tilveru þess. Það er margs að minnast með trega í hjarta. Tilvist hennar kallar á sérstakan kafla í íslenskri tónlistarsögu.
Ég var svo heppinn að vera dreginn inn í samstarf Vísnavina um nokkurt skeið og hafði gagn og gaman að. Þar komst ég í nánari kynni Bergþóru, Aðalstein og Önnu Pálínu, Gísla Helga og Herdísi, Eyfa og marg annað prýðisfólk sem leyfði sér að skapa tónlist og halda skemmtilega og eftirminnilega tónlistaratburði víða um land og framleiða plötur.
Markmiðið var ekki að græða pninga heldur að skapa eitthvað skemmtilegt.Lifa! Og þar fór Bergþóra framarlega í flokki, orkumikil, glaðvær og gefandi.
Ég minnist þess ekki að hafa farið í tónleikaferð undanfarna áratugi án þess að hafa lent í spjalli um Bergþóru Árnadóttur, framlag hennar og söngva. Hennar hefur verið saknað í marga áratugi og í dag kveðjum við þessa einlægu listakonu.
Þó hún sé farin er rödd hennar ekki þögnuð. Söngvar hennar hafa lifað og eiga eftir að lifa lengi meðal þessarar þjóðar. Bergþóra snerti góða strengi í brjóstum allra sem kynntust henni. Í söngvum hennar bergmálar sá hreinleiki, fegurð og einlægni sem einkennir þá sem hugsa og starfa af heillindum. Hún var engu öðrum lík.
31 mars 2007
Hörður T