Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

að lokum kemur nótt

hordursjalfur's picture
 
veröldin er margslungin og mörgum flókið stef
hver morgun reynist flestum vera upphaf og nýtt skref
en sumum erfið athöfn því vaninn er þeim vá
að vakna inn í veröld lífs er síst það sem þeir þrá
lengi var ég týndur því ég treysti á þeirra ráð
sem töldu sig vita betur - en þegar að var gáð
reyndust þeirra viðhorf alltaf skorta skilninginn þann
sem skipti allra mestu til að gera úr mér mann
tíminn ræður öllu og hann líður furðu fljótt
allt fölnar og það eyðist og að lokum kemur nótt
 
í mörg ár virtist einsemd vera eini vinur minn
að athuguðu máli þá söng í mér lífsviljinn
ég bergmálaði röddina sem hrópaði í mér hátt:
haltu þínu striki og þá ferðu í rétta átt
ég skrifaði mínar hugsanir og síðan henti ég þeim
hlæjandi upp til stjarnanna svo þær fykju út í geim
hvert andartak ég dansaði við mennska spegilmynd
sem manaði mig til að sigra óttans allra hæsta tind  
tíminn ræður öllu og hann líður furðu fljótt
allt fölnar og það eyðist og að lokum kemur nótt
 
ég hef farið víða um mörg heimsins lönd og höf
hlustað vel og reynt að þakka fyrir hverja gjöf
en þó verð ég að segja núna alveg eins og er
að allra besta gjöfin var að fá að kynnast þér
dansið allir vindar sem tunglsins bestu blóm
bragðið á því salti sem að örvar dauðans góm  
ég teygði mig til himinsins vængjaður því sem var
veröldin kom og kyssti mig og gaf mér þetta svar: 
tíminn ræður öllu og hann líður furðu fljótt
allt fölnar og það eyðist og að lokum kemur nótt 
 
 
hörður torfa
2018