Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

venjulegur maður

hordursjalfur's picture

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

venjulegur maður

 

oft blása um lífið vindar sem hafa í sér hroða  

hrottaskap og fláræði sem ég mun aldrei taka í sátt

ég vil takast á um skoðanir - verjast deyfð og doða

en dylgjum hafna og styðjast við öll rök og stefna að sátt

 

ég kæri mig ekki um að bera í mínum huga eitthvert hatur

hljóður sinni ég skyldum mínum og loforð gef ég fá

ég geri þá einföldu kröfu að á allra manna borðum sé matur 

að menn sem komast til valda séu betri en svikin veðurspá

 

ég er venjulegur maður í venjulegum skóm

í venjulegum fötum með venjulegan róm

þessi venjulegi heimur mig venjulegan ól

og að venju brennur ofar öllu þessi venjulega sól

 

mér er ljóst að með illsku og heimsku og hatri oft stjórnað er

við þær hrokabyttur valds og græðgi ég pollrólegur sagði:

versta kvöl er skárri en besti þrældómur hjá þér 

og þeir sem ljúga og svíkja falla einn dag á eigin bragði

 

aldrei tek ég þegjandi þeirri ógn sem græðgin er 

aldrei verð ég kúgurunum þakklátur og vægur

aldrei sit ég og horfi uppá hrotta stela af mér

aldrei held ég kjafti og gerist undirlægja og þægur

 

hörður torfa