Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Vatnssaga

hordursjalfur's picture

Ég er þessa daga að ljúka við tuttugustaog þriðju plötuna mína, upptökur á fjórða hluta ævintýrsins um Vitann, og í þetta sinn er það þátturinn um Vatnið. Áður hafa komið út þættirnir um Eldinn, Loftið og Jörðina. Þá á ég aðeins eftir að hljóðrita lokakaflann, Vitann. Sem fyrr vinn ég alla plötuna hjá og undir góðri og traustri handleiðslu Vilhjálms Guðjónssonar, sem ég leyfi mér að kalla lærimeistara minn. Ég fékk Vilhjálm til liðs við mig árið 2000 þegar ég ákvað að fara nýjar leiðir í vinnslu á tónlist minni. Fágaðri leið. Það var góð hugmynd og afraksturinn mikill. Vilhjálmur hefur kennt mér meira en mikið, líkt og mjög mörgu íslensku tónlistarfólki. Ég menntaður leikari en ekki tónlistarmaður og í áratugi vann ég flest alla tónlist mína sem slíkur. Byggði tónlistina á tilfinningu minni fyrir textaflutningum og takmarkaðri þekkingu minni á sjálfmenntuðum gítarleik. Þar réði leikhúsmenntun mín meira ferðini en tónlistin sjálf, ég var sagnamaður að ferðast um lönd og syngja og segja sögur mínar. Eins manns leikhús. Ég er það auðvitað enn þann dag í dag, en tímar breytast og aðstaða mín og annarra breytist. Allt breytist. Það hafa mikla breytingar átt sé stað síðan vorið 1970, þegar ég gerðist atvinnumaður og tók uppá því að ferðast um þetta land og önnur segjandi og syngjandi sögur. Fyrir mér vakti ekki að gerast vinsæll dægurlagahöfundur og leggja mig í líma við að geðjast fólki og laga mig að kröfum einhvers markaðar. Mín sýn var að skapa umræðu og bæði afla mér og veita öðrum þekkingu á ýmsum málefnum, en þó aðallega mannréttindum okkar sem þetta land byggjum. Aðallega vann ég gegn þeirri þöggun sem ríkti hér á þeim sviðum og meginþema míns starfs var að benda á fjölbreytileika mannlífsins og hversu nauðsynlegur hann er öllu lífi í landinu. Það var ekki auðvelt starf og það tók mikið á mig. En ég lét mig hafa það og sé ekki eftir því. En nú er ég kominn dáldið útfyrir þráð þessa pistils, og þó ekki, sem er að segja frá plötunni Vatnssaga. Vatnssaga er einn hluti í tónlistarlegri ævireynslu minni. Mig langaði að koma aðeins meira inn á samstarf mitt við Vilhjálm Guðjónsson og láta í ljós þakklæti mitt og virðingu fyrir honum. Því á sínum tíma knnaði ég markaðinn og skoðaði vel og vandlegatil hvaða manns ég gæti leitað til að einhver framþróun og þroski gæti átt sér stað í starfi mínu. Niðurstaða mín var að leita til Vilhjálms og það reyndist hárrétt ákvörðun og það er vægt til orða tekið að segja að hann hafi reynst mér vel. Hann hefur kennt mér ótrúlega mikið og með hæversku sinni, ögun og mikilli þekkingu og hæfni, leitt mig um heim tónlistarinnar. Hann hefur verið óþrjótandi uppspretta hugmynda um frágang söngva minna og honum virðast ákaflega lítil takmörk sett þegar kemur að hljóðfæraleik. Þær plötur sem ég hef unnið með honum ber þess glögglega merki og mun framlag hans á plötunni Vatnssaga glögglega bera merki þekkingar og hæfni Vilhjálms. Annar vinur minn og samstarfsmaður á tónlistarsviðinu til margra ára er Hjörtur Howser, ég fékk hann í lið með mér til að vinna einn söng sem heitir, Ég þrái upp til fjalla að fara. Ég heyrði engan annan koma til greina til að vinna þann söng í þann búning sem ég vildi hafa hann í en Hjört og sem fyrr varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Ég a eftir að fjalla meira um þessa plötu hérna og segja ykkur frá starfi mínu við hana og allri tilurð hennar. Hún byggir á lífsreynslu minni og hefur verið 4 ár í smíðum, ef ekki lengur. Ég verð tímans vegna að ljúka þessum pistli núna þar sem ég er að skreppa austur á Borgarfjörð eystri og halda tónleika þar í kvöld og er að gera mig klárann í þá ferð. En það verða semsagt 12 söngvar á þessari plötu og hún mun koma út fljótlega upp úr miðjum ágúst, eftir að ég kem úr ferð minni til Mexicoborgar. En þangað hefur mér verið boðið til að kynna hugmyndafræði mína á bakvið lífsstarf mitt og sem bergmálaði vel í svokallaðri Búsáhaldabyltingu. En meira um það seinna. 31 júlí 2011