Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Tónleikarnir í Iðnó - hugleiðing.

hordursjalfur's picture

Salurinn í Iðnó er ákaflega fallegur og vel til tónleikahalds gerður. Það er góð sál í húsinu, eins og sagt er.Hljómgóður salur þar sem hægt er að skapa mikla nánd og stemningu. Þarna sat ég með hópi fólks á fimmtudagskvöldið og ræddi og söng um þá mannréttindabaráttu sem ég hef staðið fyrir sem listamaður í rúm 40 ár. Sérstaka áherslu lagði ég á framtak mitt á Austurvelli, veturinn 2008-2009 og almennt þá reynslu sem ég gekk í gegnum þar og ýmsar hugsanir sem sóttu að mér og ég setti fram í söngvum.
Salurinn rúmar 150 manns og þó að viðstaddir næðu ekki þriðja tugnum þá var ekkert tómahljóð. Stemning er sambandið sem myndast á milli flytjanda og hlustanda og það var einlægt og gott. Einn viðstaddra,Unnur Bára Karlsdóttir skrifaði um upplifun sína af tónleikunum og hægt er að lesa þá hugleiðingu hér til hliðar undir flipanum "um Hörð Torfa".
Nú heyri ég gagnrýnisraddir á þá leið að ég auglýsi tónleika mína ekki nógu vel í fjölmiðlum. Það er satt og ég skal segja ykkur hversvegna. Til dæmis fjallar
Fréttablaðið ekki um listamenn nema að þeir kaupi ákveðið magn auglýsinga. Þeir listamenn sem það gera (og margir ef ekki flestir íslenskir tónlistamenn eru á samningi við 365 miðla sem á Fréttablaðið, Stöð2 og einhverjar útvarpsstöðvar) þeir fá umfjöllun á síðum blaðsins og jafnvel jákvæða grein um sig sem bónus ef þeir hafa auglýst vel. Svo er blaðið í eigu aðila sem að mínu mati eru meðal stærri orsakavalda Hrunsins og ég lét þá heyra það oft í ræðum mínum á Austurvelli hversu lélegur fjölmiðill, ef fjölmiðil skyldi kalla.
Morgunblaðið hafnar mér alfarið eftir að ég stóð fyrir útifundunum á Austurvelli.

Í 33 ár hef ég staðið fyrir haustónleikum og í mörg ár hefur verið uppselt á tvenna tónleika. Í Borgarleikhúsinu þýðir það 1.100 miðar. En eftir framtak mitt á Austurvelli hafa fjölmiðlar hafnað mér og í fyrra hrapaði miðasalan oní 350 miða. Þó auglýsti ég alveg eins og áður í sjónvarpi og útvarpi. Rás2 má þó eiga það að þar á bæ reyna þeir að halda utanum íslenska tónlistarmenn og starf þeirra og ber að þakka það. Rás2 ber þó sterkt merki þess að vera í of nánu samstarfi við útgáfufyrirtækið Senu, sem er í eigu 365 miðla og ræður yfir 60% tónlistarmarkaðarins.

Þetta er sá starfsvettfangur sem ég starfa á og ég er langt frá því að vera eini listamaðurinn sem þarf að sæta þessari kúgun og þöggun sem miðar að því einu að ég gefist upp. En þá bendi ég stoltur á 40 ára feril minnn og það sem ég hef framkvæmt.Maður á nefnilega aldrei að láta kúga sig.

En það er ekki alveg nóg að fjölmiðlar hafi hafnað mér heldur hefur stór hluti almennings gert það líka. Snúið við mér baki. - Þetta er umhugsunarvert. Sérstaklega í ljósi þess að ég hef beitt mér fyrir þjóðfélagslegum framförum sem eru fyrst og fremst í þágu heildarinnar.
Hefur nokkur pælt í því hvar við værum stödd ef ég hefði ekki staðið fyrir og skipulagt það sem gerðist á Austurvelli og almennt er kallað Búsáhaldabylting?

Nú skutlast örugglega sú hugsun inn hjá mörgum að ég sé að gera mig að fórnarlambi, en svo er ekki. Ég er aðeins að útskýra þá hlið starfs mín sem mörgum er ekki ljós. Þessi framkoma fjölmiðla kallast skoðanakúgun og þöggun og er mér alls ekkert framandi né ný. Ég væri örugglega ekki beittur henni ef ég væri að rífa kjaft í allar áttir til þess eins að halda almennri athygli á starfi mínu og um leið að auka gróða þeirra fyrirtækja sem ættu mig.
Menn geta þessvegna lesið betur um starf mitt í bókinni Tabú.

Sjálfum finnst mér að fjölmiðlar eigi að fjalla um starf listamanna án þess að listamenn þurfi að greiða fyrir það. Og þarna stendur hnífurinn í kúnni. Fjölmiðlar vilja ekki fjalla um mig því ég vil ekki dansa eftir þeirra pípum. Og ég hafna því alfarið að nota fjármuni mína til að styrkja slíkar ormagryfjur sem slíkir fjölmiðlar eru.

Eins og staðan hefur verið undanfarið rúmt ár þá er eina von mín að nota internetið þeas. senda skilaboð til þeirra sem eru á lista hjá mér á heimasíðunni minni og síðan að auglýsa á Facebook og vona að fólk láti skilaboðin berast sín á milli.

Ljósmynd; Erla Þórarinsdóttir.