Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Takk og til hamingju Siglfirðingar :)

hordursjalfur's picture

 

Síðastliðið föstudagskvöld 6 júlí 2012 hélt ég tónleika í Bátasafninu á Siglufirði á vegum Þjóðlagahátíðarinnar. Þetta voru fyrstu tónleikar mínir hér á landi, vegna mikilla anna á alþjóðlegum vettfangi, síðan ég hélt árlega hausttónleika mína í Borgarleikhúsinu í septemberbyrjun 2011. Og ég fann að ég þarf verulega að æfa mig til að komast í góðan gír fyrir hausttónleikana mína í ár.  Ef mér skildist rétt þá vrou rúmlega 300 manns mættir á tónleikana og það þykir mér vel að verki staðið og þakka hjartanlega fyrir mig.

 

En það er langt frá að vera fyrsta sinn sem ég kem til Siglufjarðar og örugglega ekki það síðasta. Reyndar kom ég þar fyrst 1974 eða 1975 og sviðsetti Deleríum Búbónis í gamla bíóhúsinu þar sem veitingastaðurinn Allinn er nú til húsa. Síðan sviðsetti ég leikritið Fjöldskylduna eftir Klaus Andersen ára 1985. Og í gegnum tíðina hef ég marg oft komið og haldið tónleika á Siglufirði og alltaf fengið skínandi góðar móttökur.  Þar hef ég líka kynnst mörgu sómafólki sem oftlega og við óliklegustu tækifæri skjótast upp í hugann og mér finnst gaman að fá að hitta þegar ég kem þangað þó oft sé það ekki nema í mýflugumynd. En hlýlegt handtak, bros og örfá einlæg orð lifa lengi með manni.  

 

Á heimleiðinni frá Siglufirði var ég að hugsa um hversu bærinn hefur tekið miklum stakkarskiptum síðan ég kom þangað fyrst. Það rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég var ða fara þangað að ég fékk þá lýsingu á bænum og íbúum þess; " að bærinn væri drullupollur og íbúarnir jafn þröngir í hausnum og fjörðurinn". Ekki var það mín reynsla eftir fyrstu dvöl mína þar. Hún var ekki þegjandi og hljóðlaus enda átti ég ekki von á því. Það var skipst á skoðunum en ekki á þann hátt að ég kveinkaði mér undan þeim samskiptum. En ég skal fúslega viðurkenna að yfir bænum hvíldi þá einhver drungi sem ég fann fyrir. Skuggi eða eitthvert tóm og eftirsjá um horfna dýrðardaga þegar Siglufjörður var eitthvert efnaðasta og athafnasamasta bæjarfélag landsins. Það ástand var á margan hátt skiljanlegt. 

 

En það segir mikið um jákvæðan hugsunarhátt, stórhug og lífsviðhorf siglfirðinga að finna og sjá þá gríðarlegu endurbyggingu sem hefur átt sér stað þarí bæ á undanförnum árum. Það var langt frá að ég næði að kynna mér alla þá uppbyggingu vegna tímaskorts en ég á það þá bara eftir. Ég náði að heimsækja Þórarinn Hannesson á Ljóðasetrinu og leika nokkra söngva og fagna með honum útkomu á nýjustu ljóðabókinni hans, Nýr dagur. Ég náði að skoða stóran hluta Bátasafnsins og fylltist aðdáun á því framtaki. Ég náði að borða vel eldaðan og ljúffengan fisk hjá Birnu á litlum og aðlaðandi stað sem kallast The harbour Café, ef ég man rétt. Og svo var mér og sambýlismanni mínum vel tekið á gistiheimilinu Hvanneyri og okkur komið fyrir í svítunni og þar fór vel um okkur. 

 

Og snemma á laugardagsmorgninum þutum við í gegnum nýju göngin og litum Héðinsfjörð í fyrsta sinn á leiðinni í Lystigarðinn fallega á Akureyri. En það er önnur saga.

 

Hjartans þakkir Siglfirðingar fyrir hlýlegar móttökur og innilega til hamimgju með velheppnaða uppbyggingu bæjarins.

  

HT