Push the button to buy or listen to Hörður music
Svo öllu sé haldið til haga
Ég hef menntun sem leikari og hef starfað sem slíkur í áratugi, eða síðan ég útskrifaðist frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins vorið 1970. Sama ár gerði ég mína fyrstu breiðskífu sem gerði mig þjóðþekktan mann á Íslandi. Árið 1973 ákvað ég að yfirgefa stofnanaleikhúsið og starfa sjálfstætt og hef lifað af slíku starfi síðan þrátt fyrir miklar hrakspár og fjölda úrtöluradda sem töldu slíkt vera vonlaust. En það var vegna þess að menn skildu ekki og vildu ekki skilja að stefna mína var óhefðbundin. Ég komst að þeirri niðurstöðu á námsárunum að listamenn hefðu meira vægi í samfélagi okkar en að einbeita sér aðeins að peningasöfnun og frægð. Ég komst að þeirri niðurstöðu að við sem menntum okkur sem listamenn ættum að gagnrýna samfélagið og þá sérstaklega alla misnotkun á valdi. Ég kaus að nota mitt eigið nafn og vera sjálfum mér samkvæmur í öllu sem ég tæki mér fyrir hendur. Stefna mín hefur alltaf verið að tala sem venjuleg manneskja en ekki að bregða fyrir mig einhverju yfirlætislegu hlutverki. Ég hef farið óhefðbundnar leiðir í barátttu minni fyrir réttindum manna og notað til þess hæfileika mína í sögu og söngvasköpun. Fyrir þetta framlag mitt í gegnum áratugina hef ég aldrei þegið laun heldur lifað eingöngu á tekjum af útgáfu platna minna og tónleika.
Ég hef haft það að stefnu að ljá einstaklingum, eða hópum, rödd í baráttu fyrir réttindum þeirra og stigið feti framar en margir með aðgerðum. Auðvitað er slíkt þyrnir í augum þeirra sem telja sig eiga völdin í landinu. Þeirra svar er þöggun og á tíðum hreinræktað níð sem lýsir þeim best og hefur ekkert með mig að gera.
Ég hef margoft verið spurður hversvegna ég svari slíku ekki og ég hef spurt á móti; sé þér réttur bikar fullur af eitri, drekkurðu úr honum?
Undanfarna mánuði og ár, frá því að ég mætti á Austurvöll 11. oktober 2008 og hóf andspyrnu gegn ríkjandi spillingu og valdmisnotkun, hef ég verið í viðtölum við hundruðir fjölmiðla um allan heim og útskýrt lífssýn mína og friðsamlega baráttuaðferðir sem hafa skilað árangri. Íslenskir fjölmiðlar (að undanteknum Grapvine) hafa vel vitandi og að yfirlögðu ráði þagað yfir þessu. Staðreyndin er að ég hef verið boðinn til nokkurra landa og ávarpað milljónir manna víða um heim vegna þessa. Og er enn að núna í október 2011 og sé ekki fyrir endannn á því. Hingað fljúga flokkar manna eingöngu til að taka við mig viðtal.
Nokkrir íslenskir stjórnmálamenn og fylgismenn þeirra reyna að sverta nafn mitt og framlag með því að reyna að toga mig oní það dýki sem þeir sjálfir svamla í. En ég hef aldrei skráð mig sjálfviljugur í stjórnmála eða trúarhóp. Ég er fyrst og fremst manneskja og listamaður sem hafnar því að vera sviptur sjálfstæðri hugsun. Og ef það er nokkuð sem ég fyrirlít þá er það fláræði valda og peningasjúkra einstaklinga og hópa. Ég tek það skýrt fram að ég hef ekkert á móti því að fólk afli sér tekna og hafi skoðanir svo framarlega sem það er gert á heiðarlegan hátt.
Mínar tekjur eru eingöngu af söngvasköpun minni, plötusölu og tónleikahaldi.
Ég hef ekki safnað þeim hundruðum viðtala sem ég hef farið í undanfarin 3 ár og hef engan áhuga á slíku. Ég hef fúslega veitt þessi viðtöl því ég hef óteljandi sannanir fyrir að þau hafa kveikt vonarneista um betra og réttlátara líf víða um um heim meðal manna og þá er markmiði mínu náð.
En nýlega var mér sent þetta viðtal og ég ákvað þessvegna að smella því hér inn til að íslendingar fengju smá nasasjón af því hvað ég hef verið að gera auk þess að sinna mínu venjulega starfi sem söngvaskáld.