Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Söngvasköpun

hordursjalfur's picture

Síðan í janúarbyrjun hef ég notað mestan tíma minn til að vinna úr söngvaskissum sem ég hef hripað hjá mér undanfarin ár. Margir söngvanna bera greinilega merki núverandi þjóðfélagsástands. Uppbyggilegar vangaveltur myndi ég kalla þá. Vegna veikinda í fyrra tafðist öll sú vinna. En ég er sem sagt kominn á fullri ferð og er með í höndunum tæplega 30 söngva og hef unnið vel út 18 þeirra núna þegar þetta er skrifað.

Svona til gamans læt ég fljóta hér með texta eins söngsins. Hann er reyndar sprottinn frá hugmyndum Kristjáns Ingimarssonar leikara úr verki hans "Uppreisn fíflanna". Akureyringar hafa staðið fyrir framleiðslu á fána úr verki Kristjáns. Fáninn er rauðgulur í grunni og með mynd af 3 skærgulum fíflum.

söngur fíflanna

með vindinum fýk ég sem fræ
mitt frelsi er að berast með honum
við heiminum sólgulur hlæ
með hjarta fullt af vonum

ég dafna allstaðar ögrandi
sem útskúfuð jurt á engi
fíflið sem segir alltaf satt
er sjaldan velkomið lengi

menn reyna oft að malbika
mig oní jörð en ég hvika
hvergi og kem alltaf aftur
í mér býr lífsgleði vilji og kraftur
ég segja vil margt og sanna
ég er sigurtákn meðal manna
því sáttur ég uni og sæll
ég er sigurvegari en ekki þræll

ég er fíflið sem ást sína ól
á öllu sem skiptir máli
ég nýt þess að nærast á sól
neita öllu falsi og prjáli

ég tákna andstöðu alls
sem eyðir kúgar og svíkur
ég er fífill og líka fífl
falslaus og engu líkur

hörður torfa feb.´10

Hvort ég nái að halda tónleika í þessum mánuði er ekki alveg víst en ég geri mér þó vonir um það. Ekki veitir af. Síðan stefni ég á hringferð um landið í vor. Kominn tími til þar sem ég hef ekki komist hringinn í rúm 2 ár. Það er skrýtin tilfinning þar sem ég hef farið næsta sleitulaust í tæp 40 ár. En það er tilhlökkunarefni að hitta fólk um allt land og ræða við það.

Ég læt auðvitað frétt hér inn á síðuna um leið og tónleikar hafa verið ákveðnir.

# Myndin sem fylgir er af rós sem ég rakst á í Kína fyrir 4 árum.

03.03. ´10.