Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Reykjavík 22 júni 2009

hordursjalfur's picture

Ég sat í góðum félagsskap inná kaffihúsinu Thorvaldssen að loknum útifundi á Austurvelli laugardaginn 20. júní síðastliðinn þegar einn af símum mínum hringdi. Í símanum var einn aðstoðarmanna Steingríms J. Sigfússonar sem bauð mér uppí Fjármálaráðuneyti, þá þegar, til að sjá með eigin augum netskeyti sem staðfestu að bæði Hollendingar og Bretar hefðu verið lítt hrifnir af að birta Icesavesamningana opinberlega.

Yfirvöld hefðu ekki verið að fara með nein ósannindi um samninginn. Vildi ég þyggja boðið?

Fyrir mig voru þetta nýjar og áhugaverðar fréttir. Ég hafði jú fallist á að standa fyrir útifundi um málið vegna þess að allt benti til að sjórnvöld hefðu logið um samninginn og slík vinnubrögð eru óásættanleg. Eftir smá umhugsun ákvað ég að fara upp í ráðuneyti og fyrir því voru þrjár ástæður; mig langaði að sjá þessi skeyti, mig langaði að koma skilaboðum á framfæri við Steingrím og með mér á kaffihúsinu sat Lára Hanna Eiríksdóttir, sem hefur reynst mér óvijafnanlegur ráðgjafi í öllu sem ég hef verið að gera á Austurvelli frá því í október 2008. Hefði hún ekki verið til staðar þá hefði ég ekki farið til Steingríms einfaldlega vegna þess að ég fer ekki einn á fund ráðamanna. Ég vil alltaf hafa með mér vitni. Þegar ég sagði borðfélögum mínum frá innihaldi símtalsins bauðst Lára Hann umsvifalaust að koma með mér, svo ég þurfti ekki að biðja hana, og það þótti mér vænt um. Og við lögðum strax af stað því mæting var klukkan 16.30 fyrir utan ráðuneytið. Þegar við komum þangað kom sjálfur fjármálaráðherran út með lykla í höndum og bauð okkur velkomin og vísaði okkur veginn gegnum dyr og ganga sem voru vel búnir næmum öryggiskerfum og inn í eitt fundarherbergi. Það var greinilegt að þarna fór fram mikil vinna og önnur fundarherbergi vou mönnuð fólki við störf.

Þarna var líka til staðar Indriði Þorláksson. Okkur Láru Hönnu voru sýnd umrædd tölvuskeyti og fór Lára Hanna framá að fá ljósrit af þeim og það var sjálfsagt mál. Ég bað Steingrím um að lesa hluta ræðu minnar og það gerði hann og við ræddum innihaldið lítillega og ég bað hann um að koma ósk minni um vandaðra og betra upplýsingaflæði til almennings á framfæri við ríkisstjórnina.

Það var greinilega mikil vinna í gangi og ég vildi ekki tefja málin og við Lára Hanna kvöddum eftir um það bil 20 mínútna fund. Ekki undir neinum kringumstæðum reyndi Steingrímur nér Indriði að setja ofaní við mig né tala um fyrir mér.

Sá hluti ræðu minnar á laugardeginum sem Steingrímur las er svona;

” Hér hefur ríkt hamrandi óvissa og reiði meðal almennings í langan tíma vegna svokallaðs Icesave samnings en stjórnvöld beitt gamalakunnum og óásættanlegum aðferðum og þagað og sagt okkur að samningsaðilar gefi ekki leyfi til að birta samninginn. Það kemur svo á daginn að það er ósatt, einföld lýgi. Hvernig voga menn sér eftir allt sem á undan er gengið að koma svona fram? Með slíkri framkomu eyða stjórnvöld trúverðugleika sínu og sundra þjóðinni. Við erum að upplifa tíma mikilla hörmunga og vanda sem kallar á samstöðu, samhug og samvinnu sem aldrei fyrr. Og lykillinn að þessu öllu saman er hreinskilni. Að segja satt og rétt frá.

Stjórnmálamenn verða að gera sér grein fyrir að gamlar og úreltar starfsaðferðir þar sem þeir treysta á að svokallaður almenningur er ekki með á nótunum er löngu liðinn. Starfsaðferðir sem byggja á pukri, leynd og lýgi ganga ekki í dag, til þess erum við, svokallaður almenningur, eða skríll að sumra mati, of upplýst og tengsl okkar í hraðvirkum tölvuheimi netsins of virkur.

Góður samningur er aðeins sá þegar allir aðilar ganga sáttir frá borði. Við göngum ekki einu sinni sátt að borði. Við efndum ekki til þessara skulda og við viljum sjá stjórnvöld draga þá menn sem olli þessu skelfilega hruni til ábyrgðar. Fyrr næst ekki sáttt í þessu þjóðfélagi. ”

Undanfarna mánuði hef ég verið beittur miklum þrýstingi að halda áfram með útifundi á Austurvelli. Sem fyrr hef ég benti hverjum sem er á að ef viðkomandi finni hjá sér sterka þörf til mótmæla, að gera það sjálfur. Ég tel mig hafa gert skyldu mína í þeim málefnum með hálfsárs ólaunuð framtaki síðastliðinn vetur. En þær frétti sem ég fékk síðastliðinn fimmtudagsmorgun á heimasíðu Þórs Saari um að Hollendingar hefðu alls ekki verið á móti því að samningarnir yrðu birtir opinberlega hleyptu í mig illu blóði og eftir ráðfæringar við nokkra ráðgjafa minna ákvað ég að skella á útifundi um málið á Austurvelli og hóf umsvifalaust að undirbúa hann. Og ég vek athygli manna á að ég nota ekki orðið mótmælafundur heldur útifundur. Á þessu er stór munur. Ég hélt mótmælafundi síðastliðinn vetur með mjög klárum og skýrum markmiðum og kröfum sem gengu eftir.

Mér finnst athyglisvert að engin sem ég ræddi við (þar með talið fjölmiðlafólk) á fimmtudag, föstudag og fyrrihluta laugardags nefndi að þetta væri misskilningur og að Steingrímur J. Sigfússon hefði komið þeim skilaboðum á framfæri í fjölmiðlum að

Hollendingar og Bretar vildu helst ekki að samningarnir yrðu birtir opinberlega.

Þarna komum við aftur að kjarna málsins; stjórnvöld standa illa að kynningu og upplýsingastreymi til almennings.Mér er enginn akkur í að vaða fram með einhverja vitleysu og síst vil ég standa að einhverju ómálefnalegu þrasi.

Þeir sem vilja kynna sér málið nánar geta lesið um það á mb.is larahanna.blog.is/blog/larahanna/ og á heimasíðunni minni; hordurtorfa.com