Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Ræða mín í Gleðigöngunni 2014

hordursjalfur's picture

Ræða mín í Gleðigöngunni.

Laugardaginn 9 Ágúst 2014.

Gleðigangan.

Hver langferð hefst með einu skrefi, sagði kínverski spekingurinn Lao-tzu sem var uppi fyrir 1500 árum.

Á þessum tíma árs fyrir 39 árum árum lagði ég af stað í göngu, þrautagöngu,  eins og sumir kölluðu hana, og þjóðin fylgdist með. Ég var einn þegar ég lagði af stað og veganestið var sannfæring og vilji til að breyta óréttlátu ástandi til hins betra. Vera ég sjálfur en ekki eitthvað sem aðrir kröfðust að ég væri. Ég var þá og er enn samkynhneigður og er mjög sáttur við það.

Flestir samlandar mínir stóðu álengdar og horfðu á mig gagnrýnum augum og hrópuðu til mín að þetta og hitt mætti ekki og væri ekki hægt; að svona gerði fólk ekki og að maður ætti að sætta sig við ríkjandi ástand og hætta þessari endemis athyglissýki. Og mér var líka sagt að ég færi til helvítis fyrir uppátækið.

En ég hélt áfram göngunni gegnum þoku mótstöðunnar. Sýnileiki minn var ein áhrifamesta leiðin. á þessum árum. Það vissu allir hver ég var og hvernig ég leit út. Hver og einn hafði sínar hugmyndir um hvernig hommi átti að líta út. Ég ögraði hugmyndum þeirra. Tók þeim höggum sem mér voru veitt úr myrkrinu en teygði mig um leið til þeirra sem tóku mér betur, studdu mig og leituðu jafnvel til mín. Þeirra sem voru ekki í myrkrinu.

Gönguhópurinn stækkaði og við stofnuðum samtök og það fór að bera meira á hópnum og hann fór að hafa hátt og hrópa slagorð um tilverurétt sinn og krafðist þess að á hann yrði hlustað og hann hafnaði hefðbundinni útilokun samfélagsins. 

Markmiðið varð skýrara og hópurinn öflugri. Við fórum að lýsa tilfinningum okkar og viðhorfum með réttum orðum og hugtökum og útskýra tilgang göngunnar. Loks var hlustað, málin rædd til hlítar, lögum og reglugerðum breytt og ný stefna mótuð.  En gangan hélt áfram og við erum enn á þessari göngu.

Í gegnum árin breyttist hún úr þrautagöngu eins í mótmælagöngu margra og síðan í samstöðu- og baráttugöngu flestra og undanfarin ár hefur hún orðið að sannkallaðri gleðigöngu stórs hluta Íslendinga. Við stefnum ótrauð að sameinaðri göngu allra um allan heim. Með friði, kærleika, festu og gleði ber okkur skylda til að rétta þeim hjálparhönd sem þurfa.

Að þora að taka skrefið út í bláinn, fylgja sannfæringu sinni og breyta til, án allrar tryggingar um hefðbundið og ímyndað öryggi, það er fyrsta skrefið í átt til þess að upplifa og njóta þess fjölbreytileika sem lífið er. 

Þessi breiða samstaða landsmanna sem við upplifum nú, um heill okkar allra og hamingju, er það sem skiptir mestu máli. Og við verðum alltaf að hafa það að markmiði að starfa saman í anda þess samfélags sem við viljum lifa í.

Að viðhalda og rækta með sér reisn og fallega jákvæða hugsun er ævistarf í ölduróti lífsins. Að koma saman einu sinni á ári til þeirrar iðju er prýðis byrjun. Höldum því áfram.

Við erum öll svo misjöfn að upplagi, hæfileikum og getu, öll svo hinsegin að við verðum einfaldlega að standa saman og vinna saman og þannig náum við bestum árangri.

Við sigrum ekki, töpum ekki, heldur tökum við þátt, erum með, erum saman og erum samtaka.

Mér var sagt við fyrstu skref göngu minnar að ég færi til helvítis. Hér stend ég nú og horfi yfir hópinn og hugsa; sé þetta helvíti, þá er það bara harla gott.

Til hamingju með daginn gleðigöngufólk og allir aðrir. Fylgi ykkur hamingja og heppni í þeim verkefnum sem þið eruð að fást við og sem bíða ykkar.

Takk fyrir að hlusta.

Hörður Torfason