Push the button to buy or listen to Hörður music
Lhasa
Komiði sæl.
Í gærkvöldi, 23 mai 2009, var ég staddur á tónleikum með söngvaskáldinu
Lhasa. Það var hrífandi og ógleymanleg kvöldstund. Á tónleikunum ræddi
ég við margt fólk og það barst í tal að ég hafði gert útvarpsþætti um
Lhasa árið 2004, í þáttaröðinni Sáðmenn söngvanna., Ég féllst á að
birta hérna á heimasíðunni minni handritið að þeim þáttum. Njótið vel.
Lhasa De Sela – 21 og 28 des. 2004
Sáðmenn söngvanna – 6.58
Komiði sæl.
Það styttist til jóla og þá gefa menn gjarna vinum og ættingjum gjafir
og sagt er að margir hlaupi til og setji sig í skuldir til að geta
gefið. Vonandi gerir slíkt engin. Gjöf á að fylgja góður hugur fyrst og
fremst. Hún á ekki að vera til að sýnast eða þykjast því þá hefur hún
ekkert gildi. Í sjálfu sér er vinátta ein mikilvægsta gjöf sem við
getum gefið öðrum og sjálfum okkur og eitthvað það fallegasta við
vináttu er ósýnilega gjöfin; það sem ekki sést en er alltaf til staðar.
Og oft til að staðfesta þá vináttu og minna á hana þá gefur maður
litlar gjarfir. Lítil bók með góðum texta, kerti til að lýsa upp
skammdegið eða skemmtileg plata eru góðar gjafir. Nú segi ég þetta
aðeins í anda þess sem er með tónlistarþátt. Tónlist er í eðli sínu
gjöf þess sem skapar og hlustun má líta á sem gjöf til þess sem skapar.
Hvað um það þetta var bara smá hugleiðing af því að það eru að koma
jól. En snúum okkur að efni þáttarins.
Gjöfinni minni til ykkar þessi jól. Ég að kynna ykkur fyrir söngkonu að
nafni Lhasa. Hún hefur sent frá sér tvær plötur þá fyrri kallaði hún La
Llorona
en þá seinni The living road en þá plötu gaf hún út árið 2003 og það er
sú plata sem verður til umfjöllunar í þættinum. Á, The living road, er
lífinu líkt við veg. Þar syngur Lhasa á spænsku, frönsku og ensku og
undirstrikar á þann hátt fjölbreytileika mannlífsins og svífur yfir
brýr fortíðar og nútíðar og þau landamæri sem við menn viljum oft setja
í kringum okkur.
Ég ætla mér að flytja alla söngvana á þessari plötu og geri ráð fyrir
að það taki tvo þætti. Og við skulum hlusta á fyrsta sönginn sem Lhasa
syngur á spænsku Con toda palabra sem þýðir Með öllum orðum. Textar
Lhasa eru oft einskonar yfirlýsingar. Ef ég snara textanum lauslega þá
hljómar einhvernveginn á þessa leið:
No1. Con toda palabra – 4.30 - Með öllum orðum
með öllum orðum
með öllum brosum
með öllum augnráðum
með öllum blíðuhótum
ég nálgast vatnið
drekkandi kossa þína
ljós andlits þíns
ljós líkama þíns
að elska þig er bæn
söngur hins mállausa
augu hins blinda
hið nakta leyndarmál
ég fleygi mér í faðm þinn
ég er hrædd en ég er róleg
bæn í munni mínum
og bæn í sálu minni
ég nálgast eldinn
sem brennir allt þetta
ljós andlits þíns
ljós líkama þíns
Á þessari plötu birtist lífssýn Lhasa greinilega því hún segir að lífið
sé vegur og að ekkert endurtaki sig né sé sjálfsagt og hversdagslegt.
Kveikjan að hverjum þessara söngva er það hulda afl sem viðheldur
síbreytileika okkar og hindrar okkur í að einangra okkur. Vegurinn er
lifandi og við getum hvorki stöðvað hann né fryst enda vitum við það
innst inni. Næst syngur Lhasa á frönsku La Marée haute sem útleggst á
íslensku Háflæði og ég les ykkur fátklega skyndiþýðingu mína.
No2 – La Marée haute – 3.24- Háflæði
Vegurinn syngur þegar ég fer af stað
Ég tek þrjú skref og vegurinn þagnar
Vegurinn er myrkur eins langt og ég sé
Ég tek þrjú skref og vegurinn hverfur
Ég klifraði ofar háflæðinu
Höfuð mitt fullt
En hjartað vill meira
Blúnduhendur
Viðarandlit
Múrsteinslíkami
Stingandi augu
Blúnduhendur
Viðarandlit
Ég tek þrjú skref
Og þú ert þar
En hver er þessi Lhasa? Hún fæddist í smábænum Big Indian sem er að
finna inn á milli fjalla sem kallast Catskill í New York fylki í
bandaríkjunum. Hún bjó þar ekki lengi frekar en annarsstaðar því
foreldrar hennar voru ekki mjög jarðbundnar manneskjur og höfnuðu öllu
sem kallaðist hefðbundið fjöldskyldulíf og eltu drauma sína þangað sem
vindar lífsins feyktu þeim. Og Lhasa syngur næst fyrir okkur á ensku
sönginn Anywhere on this road eða Hvar sem er á þessum vegi.
No3 Anywhere on this road – 4.37
Pabbi Lhasa var rithöfundur og kennari sem hafði unun af öllum tegundum
bandarískrar og mexikanskrar tónlistar og skrapp annað slagið í
byggingarvinnu eða epplatínslu til að drýgja tekjurnar. Mamma hennar
var ljósmyndari sem hafði gaman að tónlist frá austur evrópu, asíu,
afríku og suður ameríku. Og foreldrar hennar hlustuðu mikið á tónlist.
Næst er söngurinn Abro la ventana eða Ég opna gluggann en þar segir;
No4 - Abro la ventana 4.03 - Ég opna gluggann
nú rís ég úr rúminu
nú opna ég gluggann
og ljósið ryðst inn
með vindinum
nú finn ég fyrir þér
þú ert svo langt í burtu héðan
ef þú ferð einn dag og kemur ekki aftur
ef ég fer einn dag og kem ekki aftur
hversu fánýt er þessi veröld ekki
í óendanleika sínum
í gær varstu í örmum mér
en í dag líkt og sandkorn
í ókunnu landi
ertu falinn fyrir mér
hvílík þögn
allt í óvissu
hvílíkur svimi
að sjá þig ekki
ég hljóma eins og bjalla
ég opna gluggann
og þú kemur inn
þú kemur inn...
Lhasa á þrjár systur og fjöldkyldan var semsagt á sífelldum þeytingi um
þver og endilöng bandaríkin. Hún og systur hennar urðu eðlilega fyrir
talsverðum áhrifum af
ferðalögunum, ljósmyndunum og tónlistinni að ekki sé talað um allar þær
bækur sem þær lásu. Lhasa er þakklát fyrir það frelsi sem slíkt uppeldi
leiddi af sér þó svo það hafi skapað í henni djúpstæða óöryggiskennd.
Næst er söngurinn J´arrive á la ville sem myndi útleggjast á íslensku; Ég kem til borgarinnar.
No5 – J´arrive á la ville – 5.58 - Ég kem til borgarinnar.
Ég líka – ég líka
Kem til borgarinnar til að hella lífi mínu í hana
Ég stika strætin eins og risi
Þetta er borgin og þetta er líf mitt
Ég líka – ég líka
Ég kem hingað til að flýja ég er langt á undan
Ef borgin vill fela mig mun engin finna mig
Ég veit ekki hver það er
Ég man ekki hver það var
Ég líka – ég líka
Kom hingað tómhent suður af norðrinu
Til norður suðursins
Ég á fortíð en ég nota hana ekki
Framtíðin verður betri
Svo miklu betri en hitt
Þegar Lhasa var þrettán ára hafði dregið nokkuð úr ferðalagafíkn
foreldra hennar og þau bjuggu talsverðan tíma í San Fransisco en Lhasa
byrjaði að troða upp á einu grísku kaffihúsi þar í borg til að syngja
söngva Billie Holliday og söngva sem hún kunni frá Mexico. Hún söng án
undirleiks. Það var á þessum árum sem hún fór að gera sér grein fyrir
mætti og áhrifum raddarinnar sem hljóðfæris og möguleikunum á að koma
þeim tilfinningum sem bærðust í brjósti hennar áleiðis til hlustandans.
Næst er söngurinn La frontera eða; Landamærin.
No6. La frontera – 3.02
Í dag kem ég aftur að landamærunum
ég verð að fara yfir þau aftur
vindurinn skipar mér að gera það
og hann ýtir mér yfir landamærin
og eyðir sporunum á bakvið mig
ég dreg sjálfa mig áfram undir þessum himni
og vetrarskýjunum
það er vetrarvindurinn sem skipar mér fyrir
og enginn getur stöðvað þau
á stundum berjast þau miskunarlaust
á stundum dansa þau
og ástundum - ekkert
í dag fer ég yfir landamærin
undir skýjunum
undir skýjunum
það er vindurinn sem skipar mér fyrir
undir járnskýum
ég er svarti bletturinn sem flakkar
á útjaðri hamingjunnar
Þegar Lhasa var 19 ára lá leið hennar norður til Kanada nánar tiltekið
til borgarinnar Montreal. Það kynntist hún manni að nafni Yves
Desrosiers sem var gítarleikari og upptökustjóri. Þau unnu saman næstu
fimm árin og tróðu upp á krám og börum og á þessum árum sömdu þau þau
tónlist og texta og útkoman var fyrsta platan þeirra sem þau kölluðu La
Llorona og Lhasa söng þar á spönsku. Meginstef plötunnar var grátgyðjan
Llorona úr goðafræði Aztekanna en hún heillaði menn með hjartnæmum söng
sínum. Platan vakti fljótlega mikla athygli meðal spænskumælandi manna
fyrir frumlegt innihald, hrifnæman söng Lhasa og óvanalegar seiðandi og
heillandi útsetningar. Næst skulum við hlusta á sönginn; La confession
eða Játningin.
No7. La confession – 3.45
Ég óttast ekki að segja að ég sveik þig
vegna einskærrar leti
vegna einskærrar depurðar
Á milli þín og djöfulsins
valdi ég það þægilegasta
En allt þetta er ekki ástæðan
fyrir sektarkennd minni – það er verst af öllu
Ég óttast ekki að segja að ég skelfist þig
með vonum þínum og virðingu þinni fyrir heiðri
Þú færð mig til að eyðileggja allt
Að rífa brosið af andliti þínu
En allt þetta er ekki ástæðan
fyrir sektarkennd minni – það er verst af öllu
Sektarkend mín er vani
Hún er það eina sem ég kann af öryggi
Það er huggun í að vita
að það eru engin mistök
þegar spurning vaknar um sekt mína
Ég óttast ekki að segja að ég svindlaði
Mínar tærustu hugsanir eru falar
Ég vil gleyma öllu um sannleika
Mitt leiðarljós er aðeins ánægja og sekt
Við þessar óvæntu vinsældir plötunnar La Llorona var Lhasa skyndilega
komin út úr þröngum og litlum krám og kaffihúsum uppá svið stórra
tónleikahalla og vann til virtra tónlistarviðurkenningar sem kallast
Félix árið 1987. Og frægð hennar barst fljótlega um gjörvallt Kanada og
platan náði því að seljast í 110 þúsundum eintaka og hljóta einnig
önnur virt verðlaun þar í landi sem kallast Juno árið 1988. í kjölfar
þessara miklu vinsælda fylgdi tónleikaferðalag um bandaríkin og evrópu.
Frakka hrifust sérlega af henni og þar í landi seldist diskurinn í
meira en 300 þúsund eintökum. Tónleikaferðalag þetta stóð í nokkur ár
og reyndi mikið á Lhasa og hljómsveitina. En næst skulum við hlusta á;
Small song.
No8 – Small song – 2.26
Þar koma að Lhasa ákvað að taka sér frí frá tónleikastandinu og hvíla
sig og íhuga hvað hún vildi gera með líf sitt. Hún og systur hennar
þrjár sem allra voru sirkuslistamenn höfðu átt sér æskudraum sem þær
ákváðu að láta rætast og þær fluttu allar til Frakklands. Þær settust
að í borginn Bourgogne og hófu æfingar og lögðu af stað í ferðalag með
sirkussýningu árið 1999.
Næst heyrum við sönginn My name.
No 9 – My name – 4.17
Tónleikaferðalög einkennast af hraða og stressi. Venjulega eru
tónleikar á hverju kvöldi og á stundum nokkrir á dag og alls ekki allir
á sama stað svo þetta er stöðugur þeytingur á milli staða, borga og
landa. Og oft skapar þetta álag sundrung meðal hljóðfæraleikara og
óreglu og sjaldan eða aldrei tími til að skoða og sjá þær borgir sem
leikið er í eða að kynnast fólki og lifnaðarháttum þeirra.
Annað var upp á teningnum í sirkusferðalaginu. Þar vann
listamannahópurinn saman að uppsetningu og samantekt tjaldanna og
umhirðu alls sem snerti sirkusinn.
Næsti söngur hennar heitir Pa´llegara a tu lado eða; Að ná til þín.
No10 – Pa´llegara a tu lado – 4.32 – Að ná þér
Ég þakka líkama þínum
fyrir að bíða eftir mér
Ég varð að týnast
til að ná til þín
Ég þakka örmum þínum
fyrir að ná mér
Ég varð að fara svo langt
til að ná til þín
Ég þakka höndum þínum
fyrir að halda á mér
Ég varð að brenna til agna
til að ná til þín
Samheldnin í sikuslífinu var eins og í góðri fjöldskylda og farið var
hægar yfir lönd og borgir og nægur tími vannst til að kynnast fólki,
borgum og þorpum. Lhasa vann í þessum sikusi í nokkur ár og undi hag
sínum vel á meðan á honum stóð. En að lokum settist hún að í borginni
Marseille og hóf að semja tónlist og texta á ný og sennilega eru það
þeir söngvar sem við erum að hlusta á af plötunni The living road. Og
næsti söngur heitir Para el fin del mundo o el ano nuevo sem ég útlegg
; Þú verður hér á morgun vegna heimsendis eða nýja ársins.
No11 – Para el fin del mundo o el ano nuevo – 4.23
þú verður hér á morgun
vegna heimsendis
eða nýja ársins
á morgun drep ég þig
á morgun frelsa ég þig
ég er á undan
ég er ekki hrædd
ég er ekki hrædd lengur
á morgun segi ég þér að ásti
að ástin sé farin
og þá – og þá sjö ára útlegð
fyrir að hafa logið svona mikið að þér
þú verður hér á morgun
vegna heimsendis
eða nýja ársins
beinagrind mín dansar
klædd að nýju í hold mitt
með hárkollu eldsins
ég fer út til að hitta þig
á miðri leið
og þá – og þá sjö ára útlegð
fyrir að hafa logið svona mikið að þér
þú verður hér á morgun
vegna heimsendis
eða nýja ársins
höfnin fyllist af herskipum
og fíngerð aska fellur sem regn
ég fer út að hitta þig
klædd í
klædd í jarðarbúningin minn
Árið 2002 snéri Lhasa aftur til Montreal og hóf að hljóðrita plötu og
útkoman er sú plata sem við erum að hlusta á í dag, The living road. Og
við skulum hlusta á lokasöng þeirrar plötu Soon this space will be too
small.
No12 - Soon this space will be too small – 4.45
Þakka ykkur hjartanlega samfylgdina.
(Lauslegar þýðingar söngtexa; Hörður Torfa.)