Push the button to buy or listen to Hörður music
Föðuróður - Torfi Benediktsson - Minning
Torfi Benediktsson
Minningarathöfn 17 janúar 2013 í Fossvogskapellu.
Torfi Benediktsson fæddist á Broddanesi í Strandasýslu 1 janúar 1918 og lést 2 janúar 2012 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Benedikt Friðriksson, frá Felli í Fellshreppi í Strandasýslu ( f.26. sept. 1889 - d. 25 okt 1979) og Magdalena Jónsdóttir frá Katadal í Þverárhreppi í Húnavatnssýslu (f. 6.feb. 1879 – d. 1. feb. 1968). Systkyni Torfa voru: Ingibjörg Sigríður (f. 14.janúar 1917 – d. 21.nóv. 2008 ) og Tryggvi (f.12 okt. 1922 – d. 27.07. 2007).
Torfi fluttist til Hafnarfjarðar 1932 og seinna til Reykjavíkur. Árið 1943 kvæntist hann Önnu Fanney Kristinsdóttur (f. 17 júlí 1924 – d. 5.des. 2001). Þau skildu árið 1971. Þau eignuðust 6 börn sem öll eru á lífi. En þau eru; Kristján Karl, bifreiðastjóri, búsettur í Reykjavík, f. 26. jan 1944. Hörður, söngvaskáld og leikari, búsettur í Reykjavík, f. 4. september 1945. Hjördís, fatahönnuður og saumakona, búsett í Helsingborg f. 7. okt 1946. Benedikt Már, matreiðslumaður og sjúkraliði, búsettur í Osló, f. 22. desember 1948. Magdalena, danskennari og tryggingarfulltrúi, búsett í Kaupmannahöfn, f. 13. september 1950. Kristinn Örn, kerfisfræðingur, búsettur í Reykjavík, f. 11. april 1960.
Kæra fjöldskylda og vinir. Komiði sæl og velkomin hingað í þessa minningarathöfn um Torfa Benediktsson.
Við dauðsfall eru menn oft gripnir harmi, og skiljanlega, En þegar fólk er orðið jafngamalt og pabbi varð þá er sú sorg og söknuður eða depurð sem sækir að þeim sem nánastir eru blönduð þakklæti og raunsæi þeirra sem hafa þurft að horfa uppá náinn ættingja líða í langan tíma. Hér rennur því sorgin og eftirsjáin saman við friðsælan létti og þakklæti. Á slíkri kveðjustund er rétt að segja frá ævi og einkennum þess einstaklings sem kvaddur er. Hylla lífsstarf hans og þakka honum samfylgdina og gjöfina sem hann skyldi eftir. Því er þessi athöfn einfaldur þakklætisóður til þess manns sem var börnunum sínum faðir, vinur og fyrirmynd. Hann hafði þann sið að tjá sig í vísum og hér kemur ein sjálfsmynd hans sem líta má á sem hluta af lífsviðhorfi hans um leið;
Einn ég vaki og einn ég sef
Einn ég lífið þreyi
Einn á göngu ég oftast hef
Arkað lífsins vegi
Pabbi hafði mikinn unað af söng og tónlist almennt og lék sjálfur á mandólín. Þetta er Matthías Stéfánsson sem ætlar að aðstoða mig og leika á mandólín. Og við ætlum að flytja hér fyrst söng sem pabbi hélt uppá.
Frostrósir
(Lag og texti: Freymóður Jóhannesson)
En hver var hann Torfi og hvaðan kom hann?
Hann fæddist sem sagt þann 1 janúar 1918 á Broddanesi við Kollafjörð í Strandasýslu.
Bærinn Broddanes fékk nafn sitt frá klettaborgunum sem þar eru áberandi og kallast broddar, og sem gefa nesinu sékennilegt yfirbragð. Veturinn 1917 til 1918 hefur kallast frostaveturinn mikli því víða um landið fór frostið niður fyrir 30 stig og hafís var landfastur. Frostið var svo mikið að víða gátu menn stytt ferðir sínar með því að ganga yfir flóa og firði.
Broddanes var þekkt hlunnindajörð, og þá eins og áður og seinna, var það þríbýli. Þar voru öll dýrin, broddarnir, og fjaran ógleymanlega sem þeirra leiksvæði. Þarna naut pabbi æsku sinnar og nánustu leikfélagar hans voru systkyni hans; Ingibjörg sem var ári eldri en hann og Tryggvi sem var tæplega fimm árum yngri.
Frá Broddanesi var skammt uppá Ennisháls þaðan sem í góðu skyggni var unaður að horfa yfir sveitina sína og Kollafjörðin og Húnaflóann og jafnvel langt inn til landsins til Eiríksjökuls og Langajökuls. Þaðan sást og sést líka vel til Kollafjarðarkirkju þar sem hann vill nú brenndur hvíla því æskustöðvarnar voru honum hugleiknar alla tíð alveg fram til þess síðasta.
Tilveran er síumbyltandi lífsáformum manna, bæði til góðs og ills. Dag einn brann ofan af einni ifjöldskyldunni á Broddanesi, það var fjöldskylda pabba, og þau misstu aleiguna. Það varð til þess að þau fluttu, skammt frá, að Tungugröf í Kollafjarðarhreppi og bjuggu þar við mun verri kost. Það var þá sem afi Benedikt þurfti að taka eina lánið sem hann tók um ævina og var mjög ósáttur við. Það var ein króna og afi Benedikt hlífði sér ekki fyrr en sú skuld var að fullu greidd. Hann brýndi oft fyrir öðrum þá reglu að taka ekki peningalán nema í ítrustu neyð og þá ekki að taka hærri upphæð en svo að maður mátti við að tapa henni, ef illa færi.
Lífið á þessum árum var fábrotið og um flest erfitt. Fátæktin sviptir menn lífsgæðum en ekki voninni um betra og batnandi líf. Pabbi mundi vel þann atburð þegar afi Benedikt kom eitt sinn úr kaupstaðnum færandi börnunum stígvél, einhverja mestu byltingu sem hann upplifði í lífi sínu. Uppfrá því var lífið auðveldara á þurrum fótum nema þegar tapaðist í vaðkeppni í fjörumálinu.
Lífið þróaðist hægt á þessum slóðum og aðstæðurnar voru erfiðar og umhverfið gerði oft á tíðum nærri ómennskar kröfur til mannanna. En þeir þrjóskuðust við að vanda og tókust á við náttúruna. Fréttir bárust hægt og oftast með bréfum eða þeim sem ferðuðust, en þeir voru ekki margir, því farandfók var almennt ekki vel séð, nema það væru kennarar.
Dags daglega var sveitakyrrðin ekki rofin nema af af gelti, jarmi, gali, bauli og hneggi. Þannig hafði það verið í marga mannsaldra, kyrrð og hægfara breytingar frekar en hávaði og snöggar framfarir. En sumardag einn þegar systkynin þrjú voru í berjamó ruddist tákn framfaranna frekjulega og óvænt inn í líf allra í sveitinni og gjörbreytti tilveru þeirra. Óljós og ótrúlegur orðrómur varð að staðreynd. Í fyrstu sem undarlegt suð í fjarska, suð sem efldist í takt við undrun og hjartslátt barnanna. Og þarna á meiri hraða en mannshjartað slær kom framtíðin og nútíminn öskrandi sem ógnvekjandi ferlíki yfir fjallshrygginn. Nokkuð sem þau höfðu aldrei augum litið áður; flugvél!
Allir menn stirnuðu af undrun og önnur dýr sveitarinnar fældust svo að það tók marga daga að finna þau, jafnvel vikur. Þegar þetta gerðist voru ennþá nokkur ár í að útvarpssendingar hæfust og þegar þær hófust þá þóttu þær svo miklar breytingar að fólk klæddi sig uppá áður en það settist fullt aðdáunar á þessu kraftaverki og hlustaði. Strandamenn þess tíma höfðu heldur ekki minnstu vitund um t.d. að vestur í Ameríku þetta ár 1928 var fyrsta teiknimyndin um Mikka Mús fumsýnd og það í húsi sem var eingöngu reist til að menn nytu slíkrar skemmtunar í.
Menntun var ekki auðsótt á þessum árum en pabbi lauk þó fullnaðarprófi barna vorið 1932 frá Hrófbergshreppsskóla og fermdist stuttu seinna í Kollafjarðarkirkju. Að þeirri athöfn lokinni biðu föður hans, afa Benedikt, tveir söðlaðir hestar fyrir utan kirkjuna og hann reið af stað suður að Skógarkoti í Þingvallasveit til tengdaforeldra sinna sem þar bjuggu. Móðir, amma Magdalena og þrjú börn, Ingibjörg, Torfi og Tryggvi, lögðu af stað stuttu seinna með strandferðaskipi suður og fjöldskyldan settist að í Hafnarfirði í húsi sem í dag er betur þekkt sem Fjörukráin.
En það ríkti mikil kreppa á þessum árum og litla fjöldskyldan frá Broddanesi átti áfram í erfiðleikum og bjó, sem flestir á þeim árum, við kröpp kjör og flutti oft og víða. Atvinnuleysi var landlægt og framtíðin frekar döpur. En það mátti ekki gefast upp. Unglingurinn Torfi gerði sitt til að afla tekna fyrir heimilið og vann við allt sem bauðst aðallega vinnu sem tengdist fiski. Ungt fólk á þessum árum varð að efla með sér og treysta vel á minni sitt og líkamlega burði. Sem unglingur fór pabbi aðallega gangandi eða hlaupandi á milli staða og hann þótti svo frár á fæti að athygli vakti og var honum boðið að koma um tíma austur í Íþróttaskólann í Haukadal hjá Gretti Greipssyni, manni sem pabbi leit mikið upp til, alla tíð. Þar naut hann sín þó hann þyrfti líka meðfram náminu að vinna fyrir matnum. Íþróttir áttu hug hans allan á þessum árum. En þetta var aðeins skammur tími og frami á íþróttabrautinni stóð ekki til því aðalatriðið var að vinna fyrir sér og sínum, allt annað var tildur En hugur hans var líka allur við æskuslóðirnar fyrir norðan og hvert tækifæri sem honum bauðst notaði hann til að koma sér í kaupavinnu þar í sveit. Hefði hann mátt ráða þá hefði hann búið þar því að hans mati var aðeins fjöldskyldan sem hélt honum sunnanlands. Á þessum árum var annars ekkert að hafa, ekkert, eins og hann orðaði það sjálfur.
Enn eina ferðina kom framtíðin á óvart og skyndileg breyting varð á lífi pabba eins og allra landsmanna 10 mai 1940. Broddanes fjöldskyldan bjó á Bergsstaðastræti og snemma þennan morgun hljóp pabbi af stað yfir Skólavörðuholtið til að fara að bæ hér inni við Rauðlæk og reyna að vinna sér til matar, eins og hann var vanur. Honum til mikillar undrunar hljóp hann að hermannahópi.
Nú tóku við gjörbreyttir tímar. Allt í einu var næga vinnu að fá og jafnvel pening á milli handa. Og það var ekki aðeins til peningur fyrir mat heldur líka til a skemmta sér! Líf æskumannsins tók kipp. Menn skiptust í hópa með og á móti hugmyndum, Hvað var rétt og hvað var rangt? Það var í sjálfu sér ekkert nýtt, þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera með okkur menn. Í slíkum átökum mótumst við og í slíkum átökum birtast okkar innri menn. Í grunni þessara átaka liggur siðvitund einstaklingsins og hann breytir og lifir samkvæmt henni nánast í einu og öllu. Og siðvitundin er samansafn allrar lífsreynslu einstaklingsins. Pabbi trúði á mátt og samstöðu heildarinnar, hann studdi í fyrstu kommúnistana en fór fljótlega í flokk sósíalistana. Hann las og fylgdist með þeim straumum sem bárust utanúr heimi. Næstu árin voru eins og ævintýri því framfarirnar og breytingarnar létu ekki á sér standa í þjóðfélaginu sem og í einkalífinu.
Nokkuð sem alltaf hafði heillað hann og hann hafði hæfileika til var söngurinn. Hann hafði mjög blæbrigðaríka og fallega tenór rödd og eins og flestir ungir menn á þessum árum þá söng hann í kvartettum og dúettum. Og ljóð nýju skáldanna heilluðu hann, Davíð, Kiljan, Steinn, Tómas og fleiri og fleiri. Pabbi drakk ljóð þeirra í sig og hafði lítið fyrir að læra þau utanað. Minnið var gott. Það var á þessum árum sem pabbi eignaðist mandólín sem hann undi sér alla ævi við að spila á í frístundum. Hér kemur einn af fjölmörgum söngvum sem var í sérstöku uppáhaldi hjá honum og hann söng gjarna fyrir fólk. Síðast á afmælinu sínu núna 1 janúar fyrir fólkið á Droplaugarstöðum, þar sem hann dvaldi.
Ég leitaði blárra blóma
(Tómas Guðmundsson / Hörður Torfason)
Og stríðið breytti lífsháttum alls fólks. Pabbi vann í fyrstu við flugvallagerð og uppskipun en svo bauðst honum starf við að hafa umsjón með flutningsbáti sem fór á milli lands og skipa út á Kollafjarðarsundum og Hvalfirði og flutti menn og vistir. Í þessari vinnu sá hann og upplifði margt sem skerpti siðferðisvitund hans.
Hann tilgreindi aldrei nöfn einstaklinga heldur lýsti fyrirlitningu sinni á athæfi og þeirri hegðun að nota hvert tækifæri til að stela og afla sér fjár með óheiðarlegum hætti. En slíkt var mjög útbreytt á stríðsárunum. Hann sagði oft að freistingarnar hefðu verið margar og miklar en hann stóðst þær því hann sagðist ekki hafa viljað lifa með óheiðarleikanum. Þetta kostaði að oft lenti hann í orðaskaki og deilum við ýmsa félaga sína, þegar hann vildi ekki taka þátt í leiknum, en afstaða hans hélst óbreytt.
Sannleikur meiðir mann í smástund en lýgin ævilangt, sagði hann.
Hann sá og upplifði margt á þessum árum. Atburði sem aðeins gerast í raunverulegu stríði og er ansi fjarlægt okkur íslendingum í dag. Hann horfði t.d. á þýska flugvél skotna niður yfir Reykjavík og hrapa í Skerjafjörð. Hann var sendu suður að Garðskagavita til að vinna í strönduðu skipi með öðrum strák og það munaði litlu að þeir væru tættir í sundur í vélbyssuskothríð þegar hópur flugvéla birtist fyrirvaralaust og notaði skipið sem æfingar skotmark. Við illan leik komust þeir niður í kjöl skipsins og máttu dúsa þar langt fram eftir degi uns skotæfingunni lauk og þeir komust burtu.
Svo var það sumarið1942 að hann var á rölti á Skólavörðustígnum dag einn og sá sæta stelpu. Það var gagnkvæm hrifining og ekki spillti málinu að hún átti gítar sem hún spilaði lítillega á og söng með. Málin þróuðust á þann veg að á gamlárskvöld 1943 gengu þau í hjónaband Anna Fanney og Torfi og í janúar 1944 fæddist þeim fyrsta barnið af sex. Sambúð þeirra átti eftir að vara til ársins 1971 en þá skildu þau. Það var þeim hvorugu auðveld ákvörðun og pabbi sætti sig aldrei við þá niðurstöðu. Eftir það bjó hann einn og hafði oft tíma til að skrifa niður hugsanir sínar í stökum og hér koma nokkrar þeirra;
Ég gái út um gluggann minn
Ef gott er veður
Horfi upp í himininn
Og hugsa um það sem skeður
Tímarnir breytast og mennirnir með
Það má víst réttlega segja
Það er svo margt sem menn fá ei séð
Og mikið er oft gott að þegja
Tökum það dæmi að trúin sé veik
Og tilgangur verði ekki séður
Þá er að gera sér lífið að leik
Og láta svo ráðast hvað skeður
Og það var þetta með framtíðina, hún fólst sem fyrr í næsta hjartslætti. Þriðja barnið var um það bil að fæðast þegar hann komst á samning í vélvirkjanámi hjá vélsmiðjunni Hamri 1.september 1946. Sem lærlingur var hann ákafur og áhugasamur hann vann á daginn og sótti nám á kvöldin og stóð sig vel í bóklega náminu líka. En á þessum árum þá réðu menn ekki alveg hvernig námi þeirra var háttað og lærlingar fengu því oft verkefni sem þeir réðu einfaldlega ekki við. Það vantaði t.d. mann til að kafa og pabbi var settur í það starf. Án mikillar þekkingar á starfinu og án mikilla æfinga eða undirbúnings, semsagt nánast reynslulaus var hann sendur norður til Búðardals sem kafari til að ná upp líkum úr flugvél sem hafði farist þar skammt undan landi þann 13 mars 1947. Á þeim tíma, hörmulegasta flugslys íslendinga. Fjórar manneskjur fóru niður með vélinni og þeim þurfti að ná upp. Allar aðstæður voru mjög erfiðar, sterkir straumar, verulegur kuldi og mjög lítil birta. Að lokum heppnaðist verkefnið en afleiðingarnar voru áraraða barátta við slæmar martraðir, andlega vanlíðan og erfiðan húðsjúkdóm á höndum og skaddað bak. Starf vélvirkjans var erfitt, hættulegt og stórskaðlegt. Vinnuvernd manna og tryggingar í starfi hjá hans kynslóð var ekki um að ræða. Á því svið ríkti lengi harka og algjört tillitsleysi og skilningsleysi. Menn sem kvörtuðu voru álitnir aumingjar og kveifir og urðu að þjást þegjandi. Afleiðingarnar? Jú, þær létu ekki á sér standa þegar líða tók á ævina; verulega skert heyrn, ónýt hné og stórskaddað bak.
Og hann tók þátt í kjarabaráttunni, hér áður fyrr, og var heitur baráttumaður jöfnuðar og réttlætis alveg fram á síðustu stundu og það brann rauður logi í augum hans.
Í vestri er myrkur og veður grátt
Þar vondir menn á þér troða
Haltu vinur í austur átt
Í áttina að morgunroða
Hann lauk vélvirkjanámi haustið 1950 um svipað leyti og fimmta barnið hans kom í heiminn. Og um leið skipti hann um vinnustað og hætti í Hamri og réði sig til Landssmiðjunnar og fyrstu árin bar starf hans hjá því fyrirtæki hann víða. Bæði innan lands sem utan vann hann á vegum fyrirtækisins við að reisa verksmiðjur tengdar sjávarútvegi en líka önnur mannvirki eins og aflstöðina á Sogni og vatnstankana hér í Öskjuhlíð. Meistarabréf fékk hann 1958 og varð prófnefndarmaður í vélvirkjun við Iðnskólann frá 1957 til 1990, þó með einhverju stuttum hléum inn á milli. Síðustu árin hjá Landsmiðjunni vann hann á lagernum þar til að hann lét af störfum haustið 1992, þá tæplega 75 ára gamall.
Þakklátastur af öllu var pabbi fyrir börnin sín.Hann var ekki hávær maður né þrasgjarn en fastur fyrir og hreinskiptinn. Hann ólst upp í verulegri fátækt sem ungur maður, svo mikilli að lítið var til af mat. En hann dó aldrei ráðalaus. Fjölskyldan leigði kjallara á Bergstaðastræti og það fyrsta sem pabbi gerði þegar hann vaknaði á morgnana var að koma sér út og hlaupa yfir Skólavörðuholtið á næsta bóndabæ og reyna vinna sér inn matarbita. Fyrstu bæirnir voru við Rauðará og síðan fór hann hlaupandi á milli þeirra alveg inn í Blesugróf og jafnvel lengra. Tækifærin voru fá og það var ekkert annað við að vera á kreppuárunum en að sigrast á hungrinu. Hungrið er harður húsbóndi. Það var enga vinnu að fá fyrr en herinn kom. Þessi hlaup gerðu hann að svo góðum og þolnum hlaupara að hann vakti athygli þeirra sem ráku íþróttaskólann í Haukadal. Honum var boðin dvöl í skólanum og hann naut verunnar þar en ekki þeirra markmiða sem keppt var að. Eftir hálfan vetur fór hann aftur til Reykjavíkur. Honum var meinilla við mikla athygli og fannst það tilgangslaust að sigra aðra menn. “Ég keppi aðeins við sjálfan mig en ekki aðra” sagði hann og þar við sat. Kannski voru þetta Strandagenin í honum en svo mikið er víst að eftir því sem ég varð eldri tengi ég sterklega og fyrirhafnarlaust við þetta sama viðhorf.
Næstu tíu árin sem ellilífeyrisþegi gekk honum sæmilega að takast á við tilveruna. Splunkunýtt sjónvarp bauð uppá góða dægrastyttingu ásamt lestri og vangaveltum í ættfræði sem hann hafði mikinn áhuga á. Talsverð útivera og farið víða. En svo fylltist hann eirðarleysi en áttaði sig fljótt og fann sér verkefni og það lýsir honum vel að hann bauð sig fram í hússtjórn, þar sem hann bjó og varð formaður húsfélagsins. Hann dreif húsfélagið uppúr lægð og áhugaleysi. Það var gert við og lagað og komið góðu skipulagi á allt sem miður hafði farið undanfarin ár í húsinu og lóð þess. Og sem oft fyrr varð til vísa:
Ekki er að furða að ég sé
Upp með mér að sinni
Ég er eins og jólatré
Því ég er í húsnefndinni
Hann hafði alltaf notað helgarfrí sín á sumrin til að fara útfyrir borgina í gönguferðir á fjörur, fjöll og fell. Á vorin var hann iðinn við eggjatínslu og oft slæddust með dúnhnoðrar sem urðu að sængum. Úlfarsfell, uppundir Esju að Tröllafossi, Þingvellir, fjörurnar við Stokkseyri, Landmannalaugar svo eitthvað sé nefnt. Fyrir nokkrum árum náði hann því að fara til Hólmavíkur í nokkra daga og njóta samvista við æskufélaga. Það var ferð sem hann var þakklátur fyrir og vel vitandi að það yrði hans síðasta ferð um sveitina sem hann unni svo heitt. Og hann fylgdist stoltur með lífi barna sinna og vaxandi hópi barnabarna og barnabarnabarna. En heilsan fór að gefa sig. Heyrnin hafði verið slæm í langan tíma, og svo fór að hnéin sviku smám saman. Árið 2005 fékk hann nýtt hné í hægri fót og það dugði sæmilega en svo fór vinstra hnéið að gefa sig og hann varð að hætta allri göngu og þá var mikið tekið frá honum. Nokkrum árum seinna var aðeins um hjólastól að ræða. En það sem auðveldaði honum tilveruna var að hann var kominn í góða ummönnun á dvalarheimili í Lönghlíð 3 þar sem hann undi sér vel næstu árin. Þar eignaðist hann vini og tók þátt í félagslífi sem gladdi hann mjög. En elli kelling sótti fast að honum, sagði hann iðulega og tjáði sig að vanda í vísum.
Ellin hefur á mér tak
Illt er mér í hnjánum
Geng ég um með bogið bak
Og bölvaðan verk í tánum
Ég er orðið gamalt grey
Glatað er flest mitt yndi
Því er ég eins og hrakið hey
Að hausti í snjó og vindi
Þetta verður nú þrautin þyngri
Því er nú fjandans verr
Ef að ég væri aðeins yngri
Þá ætti ég að bjarga mér
Heilsu hans tók verulega að hraka um mitt árið 2007 þegar bróðir hans, Tryggi, dó. Hann tók fréttinni um dauða hans vel í fyrstu en svo veiktist hann illa stuttu eftir jarðarförina. Það sama gerðist líka rúmu ári seinna þegar systir hans Ingibjörg lést síðla árs 2008. Uppfrá því varð lega á spítölum algengnari. Í janúar 2011 fékk hann inni á sjúkraheimilinu Droplaugarstöðum og var þar uns yfir lauk.
Liljan.
(Texti: Þorsteinn Gíslason/ Norskt lag)
Hann var maður sem leitaði lausna frekar en að sökkva sér í hugarvíl og vol. Hann gerði sér vel grein fyrir hvert stefndi og það fyrir nokkrum árum og og lagði línur að leiðarlokum.
Strandastrákurinn er farinn. Ferðin sem hann hafði beðið talsvert eftir er hafin og fegnastur var hann. Hvert sú ferð myndi bera hann vissi hann ekki og hafði engar áhyggjur af því þar sem allt var betra en það sem orðið var undir lokin. Hann beið æðrulaus reisupassans sem kom nokkuð óvænt í svefni nóttina eftir að hann náði 95 ára aldri. Hann kaus að líta á dauðann sem ferðalag.
Að deyja er að fara og að fara er að ferðast, sagði hann, og bætti kankvís við; ég skil skrokkin eftir.
Þegar ég gamall fell að fold
Fáir munu syrgja
Þeir ausa bara yfir mig mold
Og undir karlinn byrgja
Pabbi vildi ekki hefðbundna jarðarför. Engan prest, sagði hann, ekkert trúarlegt umstang. En margir kunna þá að spyrja sig; hversvegna þá í kirkjuhúsi? Jú, þetta er eitt af því fáa sem eftir er af arfi forfeðranna. Miklu hefur verið stolið af þjóðinni, þeirri kynslóð sem pabbi tilheyrði, en ekki alveg öllu. Kirkjur eru hús og ekki einkaeign trúarsafnaða heldur eign þjóðarinnar. Skattpeningar fólksins voru notaðir til að reisa það og viðhalda því og það skal því opið öllum, jafnt. Það var hans viðhorf.
En hvernig verður Torfa best lýst? Þessum manni sem við erum að kveðja hérna í dag? Þrautseigja, harka, ósérhlífni og sterk réttlætiskennd einkenndi hann. Hann var hlédrægur, næstum feiminn og kærði sig alls ekki um athygli né vildi hann vera fyrir öðrum. En hann vék sér ekki undan væri á hann yrt og síst ef var gert á hlut hans. Hann var athugull og hlustaði vel. Lagviss söngvari sem hafði unun að því að spila á mandólín. Elskur að náttúru og dýrum og naut þess mjög að vera í útivist.Glaðlyndur, kíminn, dulur, stálminnugur, fróður og skemmtilegur frásagnamaður.
Starfsfólk sem annaðist hann síðustu árin gaf honum þau ummæli að hann væri ”Sterkur, skemmtilegur og mjög eftirminnanlegur karakter”, Oft á tíðum var hann orðheppinn og gat verið hvass og óvæginn svo undan sveið þegar honum fannst gengið á sinn rétt eða annarra. Hann var maður sem elskaði börnin sín umfram allt annað í tilverunni.
Þannig þekkti ég föður minn og þannig býr hann í minni vitund.
Fyrir hönd allra aðstandenda vil ég nota tækifærið hér til að þakka öllu því ósérhlífna, glaðværa og þolinmóða starfsfólki, sem pabba þótti svo vænt um, á öllum þessum stöðum, fyrir nærgætna umönnun.
Ég var beðinn um að flytja hér samúðarkveðjur til ættingja og vina. . Sú fyrsta er frá systursyni pappa, Gunnari Arnkelssyni sem býr á Akureyri og gat ekki mætt hér. Og sú seinni er frá einum nánasta vini pabba í gegnum áratugi, Sturlaugi Þórðarsyni, en hann treysti sér ekki til að vera viðstaddur vegna veikinda.
Mitt kæra fólk, nú er þessi athöfn á enda og ykkur er öllum boðið að mæta niður á Hótel Lofteiði niðrá Reykjavíkurflugvelli, eða Hotel Natura, eins og það heitir í dag og þiggja veitingar.
Við þetta er því að bæta að þann 11 júlí 2013 ók ég norður með ösku föður míns og jarðsetti, að hans ósk, í Kollafjarðarkirkjugarði. Ég lét gera minningarskjöld úr áli þar sem á stendur: Torfi Benediktsson - Vélvirki - Frá Broddanesi - F.1.1.1918 - D. 2.1.2013. Legsteininn sótti ég í gamla rétt á Broddanesi og festi skjöldin á.