Push the button to buy or listen to Hörður music
Á degi íslenskrar tungu.
Í dag, sextánda nóvemer2011, er dagur íslenskrar tungu og af handahófi vali ég einn texta eftir mig, svona til að minna sjálfan mig og annað fólk á við hvað ég hef starfað mest alla ævi mína. Og geri reyndar enn. Þessi texti sem varð fyrir valinu, Sá besti, er saminn 1995 og gefinn út á plötunni Rætur og vængir árið 1998.
Í þessum texta er ég að fjalla um siðblindu sem mér fannst ég svo oft verða var við hjá fólki sem hefur troðið sér í fremstu raðir í samfélagi manna. Siðblindingjar sem nota öll tækifæri till að upphefja sjálfa sig og sanka að sér auði og orðum. Á þessum árum varð ég mjög var við slíkt hér á landi, bæði meðal stjórnmálamanna og listamanna. Og nú sextán árum seinna, sé ég þetta enn skýrar. En það sem vakti athygli mína voru viðbrögð margra sem heyrðu textann fluttan og áfelldust mig fyrir að vera að vega að heiðri ljósmyndara. :)
sá besti
jú, ég man glöggt þennan ljúfa og látlausa afvikna stað
í lundi við gamalt klaustur stóð hópur fólks og bað
það vakti strax athygli mína hve birtan var tælandi og tær
ég taldi það skyldu að stansa og færði mig þessvegna nær
það var ekki að sökum að spyrja um lukku mína og lán
fyrir ljósmyndara er svona tækifæri nokkuð sem ekki verður lifað án
á meðan ég stillti upp vélinni beið aftökusveitin öll
átekta uns ég gaf þeim merki þessvegna er mynd mín svo snjöll
þetta er skörp og ljóðræn alveg skekkjulaus myndataka
þegar skotin glumdu litu nokkrar konur og börn tilbaka
örvinglan þeirra og skelfing úr augum og stellingum skín
skemmtilegt hve þetta er allt myndrænt og hversu birtan er fín
kviknaktar horaðar manneskjur bugaðar á nýteknum gryfjubarmi
bjarglausar andlitin tekin og greinilega yfir sig komnar af harmi
sjáðu hún er ólétt þessi kona þarna það fer ekki á milli mála
og hérna glittir í foringjana sem lyfta kampavínsglösunum mínum hlæjandi og skála
hún hefur hlotið mörg verðlaun þessi hrífandi margslungna mynd
magnað verk sem er fram til þessa dags hefur verið mín drýgsta tekjulind
þetta andartak dauðans sem ég fyrir tilviljun á filmu festi
er framtak sem hefur sannað að ég er sá allra besti
í þessari töku minni rís ljósmyndalistin hvað hæst
lán er auðvitað hluti þess þegar svona augnablik næst
þetta er eilífur vitnisburður um sérstöðu mína og snilld
- söfn um allan heim munu leyfa almenningi að skoða hana að vild
og þetta fullkomna baksvið: mjallhvítur klausturmúr
molnar á einstaka stað þar sem kalkið hrynur úr
þegar kúlur smella í vegginn - og þarna inn á milli trjánna glittir í gröfu sem bíður
því greyin sem sluppu lifandi voru grafin engu að síður
þessi sterka einstæða mynd af fjölda fólks að deyja
er fágætt verk -ég þakka orðuna hrærður - ja, hvað á ég að segja
jú! - listin krefst fórna ég var sjálfur að krókna úr kulda en án alls hiks
kaus ég í nístandi frosti að bíða hins rétta augnabliks
hörður torfa -1995