Push the button to buy or listen to Hörður music
Fyrsta ræðan mín á Austurvelli 11 október 2008.

Fyrsta ræðan mín á Austurvelli 11 október 2008.
„ Kæra fólk.
Mig langar til að heyra hvað ykkur finnst um það sem er að gerast hér á Íslandi. Hvert er álit ykkar? Það er alveg ljóst að yfir okkur er hellast óvenjulegt ástand svo ekki sé meira sagt. Ástand sem á eftir að hafa skelfilegar afleiðingar fyrir okkur sem þjóð. Og vafalaust á það eftir að vara lengi. Hverjum að kenna? Í mínum huga er það alveg augljóst mál. Ég tek það fram að ég er ekki í neinum stjórnmálasamtökum og hef aldrei verið. En eins og allar manneskjur hef ég áhuga á stjórnmálum einfaldlega vegna þess að þau hafa áhrif á líf mitt. Ég sætti mig ekki við að standa þegjandi hjá þegar verið er að svipta mig réttindum og skerða lífsgildi mín. Ég hef litið svo á að stór hluti starfs míns sem listamaður sé að vera á verði gagnvart valdhöfum og vinna að úrbótum í þessu samfélagi sem ég fæddist inn í af því að ég álít það skylda mína. Til þess eru listamenn, að mínu viti. Til að gagnrýna stjórnvöld og valdamenn, ekki aðeins í orðum heldur með athöfnum líka. Ég held að allir sem hér eru viðstaddir og hafi fylgst með vinnu minni undanfarna 30 áratugi eða meir viti það.
Hver sá sem talar um að fólk almennt eigi ekki að blanda sér í stjórnmál fer villur vegar. Það kemst engin, ekki ein einasta manneskja hjá því að taka afstöðu í stjórnmálum. Stjórnmálin snúast um líf okkar, hag og afkomu og okkur ber skylda til að fylgjast með á þeim vettfangi og segja skoðanir okkar og sýna viðbrögð. Það er hinsvegar allt annað þegar menn gerast meðlimir í stjórnmálaflokkum og ganga erinda þeirra. Þeim hópi tilheyri ég ekki og hef aldrei verið skráður í stjórnmálaflokk og fyrir þá sem vilja vita þá er ég heldur ekki skráður í Þjóðkirkjuna.
Þarna inni í Alþingishúsinu sitja 63 þjóðkjörnir fulltrúar okkar og þeir eru í vinnu hjá okkur. Það virðist því miður oft vera ríkjandi viðhorf hjá þeim að þjóðin sé í vinnu hjá þeim og að þjóðin sé að afla tekna svo þeir geti leikið sér með auð hennar. En svo er ekki. Svo sannarlega ekki. Við erum einmitt hér, meðal annars, til að minna þingmenn okkar á þessar staðreyndir. Þeir buðu sig fram til að sjá um málefni okkar og við treystum þeim til þess á meðan við vorum að sinna okkar störfum. En þeir brugðust. Þeir sögðu okkur ósatt, þessvegna erum við í miklum vanda. Og ef við, fólkið í þessu landi, ætlum að fara eftir fyrirmælum þeirra og vera heima hjá okkur og vera ekki að skipta okkur að störfum þeirra þá taka þeir feil. Allavegana á meðan ég er hér.
Það er lögverndaður réttur minn að mótmæla opinberlega og svo sannarlega er ástæða til þess núna og ég hvet ykkur til að vera með. Sennilega höfum við aldrei haft jafn mikla ástæðu til að mótmæla og einmitt nú. Við skulum hafa hugfast hvernig margir stjórnmálamenn hafa hagað sér undanfarna áratugi. Kerfi okkar er orðið gjörspillt af flokks-vina-ættingjatengslum. Slíkt er eitur í öllum kerfum. Vírus sem eyðir og tætir. Í mínum huga hafa sérstaklega tveir íslenskir stjórnmálaflokkar verið duglegir við að virða að vettugi allar leikreglur okkar samfélags.
Afleiðingar slíkra stjórnhátta er að renna upp í samfélagi okkar. Því miður. Fyrir okkur liggur mikið uppgjör vegna spillingarmála og hætta á sundrung muni vaxa með hverjum degi og mánuði sem líður. Höfum það hugfast að sundrung meðal okkar, alþýðu landsins, er einmitt það sem stjórnendur vilja hafa svo þeir geti hrint skuggalegum áformum sínum í framkvæmd. En stöndum saman ákveðin í að reisa úr þessum rústum nýtt Ísland.
Undanfarin ár höfum við íslendingar orðið verulega vör við að meðal okkar er að verða til stétt auðmanna. Manna sem virðast hafa svo mikinn auð á milli handanna að venjuleg manneskja lætur sig ekki einu sinni dreyma um að eignast brot af slíkum auð. Og ég spyr sjálfan mig; hvernig getur þetta gerst? Hvaðan kemur auður þessa hóps? Og hlálegar finnast mér manneskjurnar sem leggja sig í líma við að vera í þjónka þessum svokallaða auðmannahópi í von um að fá bita af borðum þeirra. Ég ætla ekki að gera svo lítið úr raunverulegum Hýenum að líkja hegðun þessra manna við þær. Ég er dýravinur.
Nú skyldi engin taka orð mín sem svo að ég sé alfarið á móti fólki sem á pening. Við menn erum misjafnir og búum við misjöfn skilyrði og ekkert útá það að setja. Ég er að tala um menn sem stela, svindla, svíkja og ljúga. Menn sem segja eitt en meina annað og nota fagurgala og blekkingar til að koma græðgisáformum sínum fram.
Ég kæri mig ekki um það svar að við eigum að halda ró okkar á slíkum tímum og að forðast að vera að leita að sökudólgum. Bull segi ég. Í svona ástandi eru einmitt til sökudólgar. Svona ástand mótast ekki sjálfkrafa. Spurningin verður vafalaust hvort okkur mun takast að sanna sekt þeirra. Og svo sannarlega mun það ekki gerast ef stjórmmálamenn eiga einir í hlut. Innan veggja þessa húss, Alþingishússins, er stór hópur fólks sem mun standa saman og verja gjörðir sínar og flokksfélaga. En við megum ekki gefast upp fyrir þeim. Við verðum að vinna sem málefnalegir múrbrjótar og höfum hugfast að slíkt mun taka tíma. Orð mín eru ekki sprottinn af hefndarhug heldur kröfu um ábyrgð og að hér sé virkt réttarríki. Að við þurfum ekki og eigum ekki að þurfa að lifa við geðþótta.
Ég veit að þetta eru óformlegir fundir hérna við styttuna af honum Jóni. En mér fannst upplagt að standa hér og hvetja fjamhjágangandi og þá sem koma af ásettu ráði til að tjá sig um það ástand sem hefur mótast í þjóðfélagi okkar í dag. Í dag segi ég, en okkur ætti að vera öllum ljóst að það er talsverður aðdragangi að þessu hörmungarástandi. Ástandi sem er ekki, og ég undirstrika ekki, okkur almenningi þessa lands að kenna. Haldið ekki aftur af ykkur stigið fram og verið ekki ófeimin. Þetta ástand kemur okkur öllum við. Okkur almenningi, sem greinilega á að halda úti í myrkrinu, ber skylda að setja fram kröfur. Og þessvegna stend ég hér því ég er að undirbúa stærri útifund hér á Austurvelli á laugardaginn og hvernig viljiði hafa fundinn? Einhverjar hugmyndir? Hverjar eiga kröfur okkar að vera? Tjáið ykkur endilega. Veriði ófeimin við mistök. Við gerum þau öll og það er alveg þess virði að gera örfá mistök því þau eru alltaf dýrmætasti kennarinn. Ég vildi til dæmis miklu frekar vera úti við önd og gefa tjörnunum en tala hér og standa.
Ég heyri starfsfólk banka kvarta yfir ásöknum margra viðskiptavina um að þau hafi tekið þátt í að svíkja og svindla. Ég skora á þig hlustandi góður að hugsa málið. Að áfellast venulegt starfsfólk banka er út í hött. Þessu fólki voru ekki veittar þær upplýsingar sem okkur eru að berast núna. Ekki frekar en okkur. Hinn venjulegi bankastarfsmaður var í sömu sporum og við. Því fólki var ekki sagt satt, það var líka blekkt.
Takk fyrir og ég hvet ykkur til að taka til máls.”
- Login to post comments