Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Þetta flýgur um á netinu

hordursjalfur's picture
Á morgun, 10.04.´10 mun skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis verða birt og í því tilefni flýgur þetta um á netinu.   
 
Athugið,vegna skýrslu rannsóknarnefndar
        
        Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er upphaf. Ekki endir.
        Margir vilja eyðileggja trúverðugleika skýrslunnar. Meintir      andstæðingar munu verða samstiga í því og beita  öllum brögðum.
•       Stjórnvöldum er í lófa lagið að ná til allra helstu gerenda í efnahagshruninu, annarra en stjórnmálamanna, með því að höfða gegn þeim skaðabótamál. Stjórnvöldum ber að gera það. Almenningi ber að krefjast þess einum rómi. Skýrslan gerir kleift að ná til stjórnmálamanna eftir öðrum leiðum.
Halda þarf opinberar vitnaleiðslur um einstaka þætti sem í skýrslunni eru taldir eiga stærstan þátt efnahagshruninu, það er yfir þeim sem ekki verða ákærðir og eiga fyrir höndum opinber réttarhöld.
Einkavæðingu bankanna mætti ef til vill rannsaka sem auðgunarbrot.
Brot á lögum um ráðherraábyrgð fyrnast á þremur árum. Mikið veltur á hve skýrt skýrslan kveður á um ábyrgð einstakra ráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Alþingi (níumannanefndin) er ekki einfært um að ákveða hvort og þá hvaða ráðherrar skuli dregnir fyrir Landsdóm. Vanhæfi kemur ekki til álita en fullkomlega ótrúverðugt er, við ríkjandi ástand, að þingmenn haldi einir á málinu. Við ákvörðun um ákæru  þarf Alþingi að styðjast við opinberar álitsgerðir sérfræðinga sem njóta trausts almennings.
Búast má við lista í skýrslunni yfir mál sem rannsóknarnefndin vísar til sérstaks saksóknara. Nefndinni ber að vísa málum til sérstaks saksóknara, ef grunur er um lögbrot. Nefndin kaus að vísa öllum málum á einu bretti til sérstaks saksóknara við útgáfu skýrslunnar, í stað þess að gera það jafnóðum. Gera má ráð fyrir að bálkurinn verði langur og þar verði að finna fjárglæframenn í bland við embættismenn. Jafnvel fyrrverandi  þingmenn og ráðherra.
Þingmenn þarf að svipta þinghelgi til að þeir verði ákærðir.
Þótt íslenskum stjórnmálaflokkum hafi farist flest illa úr hendi, þá er þeim lagið að tvístra fólki sjálfum sér til hagsbóta. Það heitir að deila og drottna. Að því munu þeir vinna sameiginlega, nú sem endranær.
Landsmenn þurfa að koma vitinu fyrir íslenska stjórnmála- og valdastétt, þannig að hún horfist í augu við siðferðilegt og pólitískt gjaldþrot sitt og axli ábyrgð á gjörðum sínum.
Almenningur þarf taka málin í eigin hendur og leggja nýjan grunn að samfélagi sínu. Líta í eigin barm og semja sér eigin stjórnarskrá, án beinna afskipta stjórnmálastéttar sem réttilega er rúin öllu trausti.