Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Stíl framyfir stál.

hordursjalfur's picture

Stíl umfram stál.

 

Undanfarnar vikur hef ég svarað mörgum spurningum um hvernig best sé að haga mótmælafundum. Ég hef svarað þeim af bestu getu og hvatt fólk áfram með baráttufundi. 

 

Eins og ég sé dæmið á eru áhrif Búsáhaldabyltingarinnar að skila sér. Vitundarvakningin eykst með þeim þrenginum sem við verðum stöðugt fyrir. En það er talsvert í land ennþá. Þegar menn sameinast um nýja stjórnarskrá og verða sammála um að fylgja henni þá fara hlutir að batna.  Ef þessi stjórn félli þá myndi fólk kjósa hvað? Okkur vantar nýja flokka sem byggja á að þjóna hagsmunum fjöldans og leiða okkur áfram með gegnsæi og ábyrgð að leiðarljósi.

 

Ég les víða í athugasemdum hjá fólki  það viðhorf að það þurfi meiri hörku í mótmæli á Íslandi. Að ekkert gangi nema að beita hörku og svo gera menn grín að "potta og pönnu" látunum.

 

Sú afstaða margra að boða hörku í mótmæli er ansi undarleg svo ekki sé meira sagt. En þetta er ekkert nýtt. Margt fólk hefur sagt í mín eyru ansi stórkallaleg orð um beitingu vopna og aukna hörku. Ég hef spurt á móti; vilt þú lifa í samfélagi þar sem ofbeldi harka ræður ríkjum? 

 

Ég svara slíku fyrir sjálfan mig og segi, nei. Ég vinn í anda þess samfélags sem ég vil lifa í. Stíll fremur en stál. Hugsun frekar en vöfða. Rök og umræðu í stað æsings og ofbeldis. Þekkingu í stað sleggjudóma. Því þegar allt er skoðað erum við að berjast gegn fautaskap og hrottaskap, einstakri græðgishyggju. Í áratugi hafa fulltrúar erlendra ríkja á Íslandi bent okkur á hversu siðspillt í slenskt stjórnkerfi er. Þetta vitum við en hvernig getum við sannað það? Og þá þurfum við að sanna þá miðað við allt sem á undan er gengið og við höfum upplifað? Um þetta snýst málið að mínu viti.

 

Sem listamaður hef ég haft það á stefnuskrá minn og unnið að því með framtaki að berjast gegn misbeitingu valds. Ég hef ekki verið á launaskrá eða hlotð stuðning peningaafla til verka minna. Búsáhaldabyltingin er tímabil frá 11 okt. ´08 til 14 mars ´09 og var vel skipulögð aðgerð byggð á lífsreynslu minni sem leikstjóri og mannréttindasinni í áratugi á Íslandi. Sú barátta hófst þegar ég var rétt undir tvítugu og horfðist í augu við samkynhneigð mína og sá ekkert athugarvert við að vera sá sem ég er. En ég sá mjög margt athugunarvert við bága stöðu samkynhneigðra og reynda annarra þjóðfélagshópa og ákvað að beita mér sem listamaður fyrir bættum haga almennings. Þessi barátta mín stendur enn. Kjarna hennar er að finna í ræðu minni; „ When I becomes we." ( Þegar eintöla verður að fleirtölu. - Þegar ÉG breytist í VIÐ. ) Sem þýðir að ég legg sjálfan mig að veði til að byrja eitthvað og kem því svo í hendur fjöldans. 

Upplýst einræði er aðferð mín. Nokkuð sem ég hef lært af reynslu.

 

Að halda því fram að áhrif Búsáhaldabyltingarinnar hafi gert litið sem ekkert er álíka og halda því fram að sólin komi ekki upp á mánudögum. Búsáhaldabyltingin er tilraun til vitundarvalningar, og ég er þess vel meðvitaður að slík vakning tekur langan tíma. Bendi ég iðulega til framtaks míns varðandi réttindi samkynhneigðra á Íslandi. 

 

Ég skora á fólk að velta því fyrir þér hvað hefði gerst ef Búsáhaldabyltingin hefði ekki átt sér stað. Framlag borgaranna skapar samfélagið og það tekur tíma að breyta því sem aflaga hefur farið. Og hefur það ekki farið á hliðina einmitt vegna þess að við höfum leyft það?  Ekki skilið það sem var að gerast? Við höfum haft ofurtrú á stjórnmálaflokkum sem hafa eðlilega spillts vegna þess að engin ætti að hafa völd of lengi.

Kannski ætti þetta fólk líka að skoða hvernig harkan hefur farið með samfélög þar sem gripið er til vopna. Pælið málið. 

 

Wellington, 20 febrúar 2014.