Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Smá hugleiðing að morgni dags.

hordursjalfur's picture

Það er kominn 2 júni 2011, klukka er rétt skriðin yfir sex og enn einn morguninn vakna ég með þá hugsun að ég ætti að blogga. Flesta morgna gleymi ég því einfaldlega vegna þess að verkefnin sem eru í kollinum taka völdin. Blogg, í mínum huga, er einskonar útskýring á því sem ég er að fást við. Og það tekur tíma að blogga og þann tíma vil ég heldur nýta í það sem ég er að fást við hverju sinni. Svo fljótlega eftir að ég hef drukkið fyrsta te bollann ég ér kominn á kafi í verkefni dagsins og þau eru venjulegast mörg og margvísleg. 

Ég verð að viðurkenna að ég hef gefið mér alltof lítinn tíma til að sinna þessari heimasíðu minni. Satt best að segja er ástæðan að ég hef ákaflega takmarkaðan áhuga á að fjalla um það sem ég hef gert því verk mín eiga að geta lifað sjálfstæðu lífi. Hver sá sem hefur áhuga á verkum mínum ætti að minnsta kosti að fá sína eigin skýringu á þeim. Allt sem ég geri er skýrskotun í eigið líf, lífssýn og upplifun. Bergmál af samtíma mínum og stöðu minni sem manneskja í honum. Áhrifa hans á mig og dags dagleg upplifun mín af honum. Ég er enn sem manneskja fastur í því viðhorfi mínu, sem mótaðist í mér á námsárum í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins, að listamaður á að takast á við umhverfi sitt með því að breyta því til hins betra. Takast t.d. á við misbeitingu valds og afhjúpa fláræði og spegla umhverfi sitt. Til þess er ekki nóg að nota orð því þau eru máttlaus ef verknaður fylgir ekki.    

Tíma minn nýti ég í að framkvæma hugmyndir mínar sem listamaður með það í huga að þegar ég er orðinn mjög gamall muni ég grúfa mig yfir að útskýra verk mín. En hver segir að ég verði nógu gamall til þess og er það öruggt að geð og líkamlegt ástand mitt valdi slíku? Staðreyndin er að ég hef marg oft ætlað að taka mig taki og hefja bloggskrif hérna og þetta er veikluleg tilraun til þess. Verð ég ekki búinn að gleyma þessum ásetningi mínu í fyrramálið?

Síðastliðið haust ákvað ég að ögra sjálfum mér enn eina ferðina og fá mér öfluga tölvu og af annari gerð en ég er vanur að nota og hefja nám. Ég keypti mér sem sagt stóra Makka borðtölvu. Nokkuð sem ég hef aldrei snert á æfinni áður.  Og ég byrjaði að læra á hana og myndvinnsluforrit bæði fyrir stilli og hreyfanlegar myndir. Þetta námmitt sóttist frekar hægt fram yfir áramót þar sem aldraður faðir minn veiktist og mikill tími minn fór í að sinna honum. En loks fékkst pláss fyrir hann á hjúkrunarheimili og margra ára umönnunarálagi létti verulega hjá mér. Að annast aldraða manneskju er eins og að þurfa að annast smábarn, nema í því tilfelli býr smábarnið í öðru húsi sem er talsverðan spöl frá manns eigi. Lífið fer nefnilega í hring og það er mikil kennsla falin í því að sjá um aldraða manneskju. Og ég er óendanlega þakklátur fyrir að fá að annast föður minn sem hefur verið mér náinn og góður vinur allt mitt líf. Nú fæ ég tækifæri til að launa honum lífgjöfina, umhyggjuna, samveruna, sögurnar og stundirnar sem hann studdi mig þegar mest á reyndi. Bæði hann og móðir mín reyndust mér traustar brýr og öflug skjól þegar verst lét. Hún lést í Kaupmannahöfn 5. des. 2001. 

En að tölvunámi. Það tók kipp í febrúarbyrjun og mér gafst tími til að setja saman dagbókarbrot mín frá vetraverkefi mínu frá 11 okt. 2008 til 14 mars 2009 á Austurvelli. Það er fram til þessa dags umfangsmesta og verkefni mitt. Álagið var oft mjög mikið og ég hripaði hjá mér í dagbók en gleymdi oft að dagsetja skrifin svo það var veruleg vinna að setja þetta allt í rétta tímaröð ásamt tilheyrandi bréfum og ýmsu tilvísunarefni. Svona til að sanna að ég fari með rétt mál. Það eru nefnilega ansi margir sem halda að margir atburðir þann vetur hafi gerst af sjálfu sér. Það sem gerðist í lífi mínu þann vetur er flókin og áhugaverð saga. Það var full vinna allan veturinn, frá því að ég vaknaði og þar til að ég sofnaði, að útfæra, stýra, undirbúa og framkvæma atburði. En það var þess virði, hvert einasta andartak. Sagan er semsagt komin á hreint og ég fékk virtan og mætan rithöfund til að lesa yfir og ég hef fengið að ráðgast við hann um framhaldið. Jafnvel að sagan komi út í bók. Verður gaman að sjá hvað gerist í þeim efnum. Kannski kemur sagan ekki út á meðan ég er á lífi og allar heimildirnar lenda upp á þjóðskjalasafni. Ég sé til þess. En það finnst mér dáldið ergilegt að hugsa til sérstaklega haft í huga að mjög margir menn vilja trúa því að allt það framtak hafi veið sviðsett og kostað af pólitískum öflum. Það er nefnilega til heill hópur manna sem trúir endalaust eigin lífslygi og bulli og ætlast til að aðrir treysti þeim og trúi. Lífsviðhorf slíks fólks kom þessari þjóð á hausinn. Ég veit betur því ég hef aldrei skráð mig í stjórnmálaflokk og mun aldrei gera.

En í beinu framhaldi af þeim atburðum, Búsáhaldabyltingunni, þá eru Spánverjar að vakna til meðvitundar um hrunið hjá sér. Og mér finnst löngu kominn tími til. Ég undraðist oft sofandahátt annarra evrópu þjóða yfir hruninu. Erlendir fréttamenn voru hér á landi tugum saman veturinn 2008/09 og ég var í viðtölum bæði í netmiðlum, dagblöðum, vikublöðum, sjónvarpi, útvarpi og kvikmyndum. Viðtölum sem skipta orðið hundruðum um allan heim. Og ég er enn að. Í gær, 1 júni, var ég í viðtali við virtan spænskan blaðamann, Martin Mucha hjá El Mundo. Blað sem hefur yfir 30 milljón lesendur. Áhugi fjölmargra í hinum spænskumælandi heimshluta á mér sem einstaklingi hefur farið ört vaxandi og undanfarnar vikur er ég daglega í sambandi við marga þaðan og sé fram á veruleg samskipti næstu vikurnar.  Reyndar eru þessi samskipti svo alvarleg að ég hef íhugað að fá mér umboðsmann.

Ég er nefnilega á kafi í að læra upptökutækni, Pro tools, og hef ákaflega gaman að og vil helst bara fá að sinna því. Ég er svo lánsamur að njóta handleiðslu Vilhjálms Guðjónssonar í þessu eins og öllu sem ég hef verið að fást við í tónlist undanfarin rúm 10 ár. Villi er mér það sem margir myndu kalla gúrú þeas. fyrirmynd og leiðbeinandi og ég hrósa happi yfir að fá að njóta tilsagnar hans og vináttu.  

En það er auðvitað óskhyggja að vilja einbeita mér algjörlega að upptökunámi því ég  líka að undirbúa Hausttónleikana mína sem verða í Borgarleikhúsinu 2. september. En þetta er 35 árið sem ég held þessa tónleika og undibúningsvinnan er veruleg þar. Fólk leiðir almennt ekki huga að starfsaðstöðu sjálfstæðra listamanna en hún getur verið ansi harðsnúin og erfið. Til dæmis á tónlistarsviðinu. Við lifum við að eitt fyrirtæki ræður yfir , að ég giska á, meira en 80% markaðarins. Þetta er hrein svívirða og ætti að banna með lögum svo fyrirtæki nái ekki meira en 30% markaðshluta. Það myndi stórbæta alla aðstöðu og tónlistarlíf yrði fjölbreyttara, öflugra og langtum meira skapandi. En svona er ástandið ennþá á Íslandi. Hér ræður fákeppni og einokun á flestum sviðum og við sem þjóð líðum fyrir það. 

En nú hef ég leyft huganum að reika og fingrum að dansa á lyklaborðinu í rúman klukkutíma með þessum árangri. Verkefni dagsins bíða; upptökuæfinar, viðtöl og í kvöld koma í mat til mín þrír Fullbrigtstyrkþegar sem hafa verið hér á landi í tæpt ár og ég vrið svo heppinn að kynnast. Tónskáld, fornleifafræðingur og jarðfræðingur. Áhugavert og skemmtilegt fólk sem ég hef verið svo lánssamur að kynnast og ég vil endilega sjá til þess að þeir njóti matar og gestrisni á íslensku heimili áður en þeir kveðja. Það vill nefnilega æði oft gleymast hjá innfæddum að bjóða erlendum gestum sínum inn á heimil.

Já, og svo má ekki gleyma komu Vandana Shiva í ágúst. Ég er að reyna að leggja mitt að mörkum svo heimsókn hennar nýtist sem flestum.