Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Netið er dásamlegt

hordursjalfur's picture
Það er athyglisvert að fylgjast með blogginu og fjölmiðlum núna í umfjöllun þeirra um kynþáttahatur og ofbeldi. Lýsingarnar eru svæsnar á ofbeldinu og niðurlægingunni. Athygli mína vekur hvernig að skrifunum er staðið. Á netinu fer t.d. mikinn blaðamaður undir nafni sem ég veit ekki hvort er hans rétta nafn eða ekki því hann hylur andlit sitt einhverra hluta vegna. Ég á erfitt með að treysta þeim til fulls sem fela sig á bakvið eitthvað annað. En lýsingar hans á rustalegri árás á marokkóskan vin hans er áhrifarík og fylla mann depurð. Viðbrögðin láta ekki á sér standa andúð og vandlæting úr flest öllum áttum. Enda er útlendingahatrið mikið í umræðunni þar sem óharðnaðir unglingar suður með sjó mynduðu með sér samtök gegn pólverjum. Skyldi fólk hafa velt því mikið fyrir sér að börnin eru bergmál fullorðna fólksins?
En það sem vekur mesta athygli mína er hversu bloggið er orðin öflugur miðill. Og þá er ég að vísa til þeirra bloggara sem virðast ekki vera á mála hjá einhverjum stjórnmálaflokki til að úthúða þeim sem falla ekki að stefnu flokks þeirra. Ég er að tala um rödd hins venjulega manns sem hugsar upphátt í gegnum bloggið. Þær raddir sem tala af tilfinningu og eru tilbúnar að segja skoðanir sínar óhikað. Margar þeirra eru litlir lækir í byrjun sem virðast máttlausir en renna saman í eitt öflugt stórfljót. Lifandi og skapandi umræða. Húrra fyrir öllum bloggverjum!
Ég velti því fyrir mér hvort svona bylgja ofbeldis og haturs sé einhver föst venja í þjóðfélagsmynstrinu. Eitthvað sem gerist á ca. 30 ára fresti?
Ég horfi þrjátíu ár til baka og rifja upp óhugnanleg atvik úr mínu eigin lífi þegar það þótti sjálfsagt að elta uppi homma á götum bæjarins og berja þá sundur og saman, hrækja á þá og svívirða og þóttust menn meiri fyrir vikið. Þá var oft ráðist inn á heimili homma og allt lagt þar í rúst. Dyraverðir á skemmtistöðum bæjarins virtust oftlega gripnir einhverjum leiða annað slagið eftir fundi með eigendum staðanna og fengu grænt ljós á nánast viðurkennda íþrótt dyravarða þessa tíma að henda hommum út úr húsi með tilheyrandi fúkyrðum. Alþekkt var meðal homma sú staðreynd að það var til lítils að biðja lögregluna um hjálp því hún reyndist engu betri en dyraverðirnir. Eymslin eftir hnefahöggin læknuðust fljótlega, hrákana var hægt að þrifa af sér, sárin eftir vopnin gréru með tímanum líka en sum skildu eftir sig ör, en áhrif niðulægjandi orða og svívirðilegrar framkomu lifa lengst. Það komst nánast í tísku að segja niðrandi brandara um mig og útiloka mig frá ýmsum þeim réttindum sem ég átti fulla kröfu á og eimir enn af þeirri stefnu. Það skýrir til dæmis best hversvegna ég hef alla daga síðan 1975 mátt starfa sem sjálfstæður listamaður. Í fyrstu var það vond höfnunartilfinning sem vandist og varð að lífsstíl og stefnu. Ég var bara heppin að hafa þann karakter að taka mótlætið sem gjöf láta það ekki hrekja mig í dauðann. Alltof margir fóru þá leið, gáfust upp og sviptu sig lífi. Kristilegt siðferði var þá svo ríkt á fjölmiðlum landsins að kíkt var í biblíuna og þar stóð að kynvillingar væru alls ills verðir og þar með var þögnin og ofbeldið réttlætt. Þögnin er svipa kúgarans.
Þrjátíu árum þar áður þótti víst fínt að ofsækja og ráðast að bandarískum hermönnum fyrir það að stela kvenfólki landsins. Og þær konur sem voru svo ódýrar tilfinningalega að tengjast þessum útlendingaskröttum fengu aldeilis að kenna því. Kanamella var vægt skammaryrði miðað við allar aðrar þrautir og niðurlægingu sem þessar konur þurftu að ganga í gegnum. Kannski beitti ofbeldisfólk þess tíma einhverju fyrir sig sem stóð í biblíunni? Ég er ekki alveg viss, en ég veit með vissu að það beitti ekki kærleika, umhyggju og alúð.
Þrjátíu árum þar áður voru það...?
Netið er dásamlegt.
15 feb.´08