Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Íslensku tónlistarverðlaunin

hordursjalfur's picture
Íslensku tónlistarverðlaunin eru að taka breytingum og þroskast og að byrja að fá á sig þá mynd og yfirbragð að maður er farinn að fá trú á henni. Það er kominn tími til því fátt er betra skapandi fólki en að fá veglega viðurkenningu fyrir starf sitt. 
Til þess að verðlaunin séu marktæk og virt verður fólk að sjá og finna að alvara ríki á bakvið þau. Sú alvara að allt framlag listamanna sé skoðað og metið á forsendum verkanna en ekki einhverra hagsmunahópa sem standa að baki útgáfu og verðlauni eigin framleiðslu í auglýsingaskyni.
Ég man ekki betur en að fyrir stuttu síðan hafi íslensk textagerð verið fjarlægð sem verðlaunaflokkur í þessari hátíð. Ef svo er þá ætla ég að vona að slíkur þáttur verði tekinn inn aftur. Því hvað gerir tónlist að íslenskri tónlist ef ekki íslenskur text? Að öllu jöfnu er tónlist án allra landamæra en það er tungumálið, textinn, sem gefur henni sterkustu sérkenni þjóðar. Og góður texti er einfaldlega góður texti. Hvernig veit maður það? Jú,  maður veit það þegar maður les hann eða heyrir. Og fátt er betra en þegar góðum listamanni tekst vel í túlkun textans. Um form geta menn endalaust rifist og það er af hinu góða. En góð saga sögð eða sunginn er góð andleg fæða og þess virði að verðlauna. 
Ég lenti í samræðum nýlega við tónlistarfólk um þessi verðlaun og sýndist hverjum sitt og var gaman að hlusta á þessar ólíku skoðanir. Ég stakk upp á því við þetta fólk að það skrifaði viðhorf sín á blað og kæmi þeim á framfæri því ég trúi að slíkt verði frekar til að efla og styrkja markmið verðlaunanna. En, nei, viti menn slíkt vildi engin þeirra gera. Hversvegna? Jú, einn þeirra orðaði það svona: Ég ætla ekki að fara láta hafa eitthvað eftir mér sem yrði svo til þess að ég fengi ekki verðlaunin.
Það er dapur ef þetta er viðhorf manna almennt.