Í nægu að snúast.

Þetta ár 2013 byrjaði ekki vel. Pabbi dó 2 janúar, nóttina eftir 95 ára afmælið sitt, og hafði beðið þess undanfarin ár. Þó svo ég hafi átt von á þessu í talsverðan tíma, og rætt stöðuna oft við pabba, þá kom þetta mér  á óvart og reyndist mér meira áfell heldur en ég átti von á.  Hann var jú, þegar allt  kemur til alls minn nánasti vinur og sterkasta stoð gegnum lífið.  Og undanfarin ár urðu samskipti okkar nánari og einlægari en nokkru sinni fyrr. Það hafa verið ófáar samverustundirnar sem við ræddum framtíðina og fortíðina af mikilli hreinskilni. Erfiðast var að byrja að ræða dauðann, en þegar við gátum komið okkur að efninu, þá var það reyndar léttir. Fyrir viku síðan hélt ég minningaathöfn um hann. Það gladdi mig mikið að öll systkyni mín voru viðstödd. Við höfum ekki hist sem hópur síðan á jólum 1969!  Auðvitað voru teknar myndir í erfðasamsætinu á eftir, sem heppnaðist líka mjög vel. En núnaþrem vikum eftir að hann dó finn ég fyrir verulegu tómi og daglega stend ég mig að því að ætla að skreppa til hans og spjalla, einsog ég hef gert nánast daglega í mörg ár. 

Þá er ég aftur byrjaður með útifundi á Austurvelli og að þessu sinni til að þrýsta á stjórnvöld til að fara að vilja þjóðarinnar í Stjórnarskrármálinu. Alþingi ber að virða skýran vilja kjósenda, eins og hann kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október sl. Meiri hluta Alþingis ber að láta þann vilja ná fram að ganga.

Allt bendir til þess að þingmenn okkar séu að leika ljótan leik og vilji telja okkur trú um að ný Stjórnarskrá komi eftir kosningar. Þetta þýðir í reynd að ný Stjórnarskrá mun ekki verða að veruleika. Loforð stjórnmálamanna er gagnslaust hjal.   

Að ætla sér að lítilsvirða vilja 68% þjóðarinnar er ótrúleg ósvífni sem Alþingi á ekki að komast upp með. 

Í fyrsta sinn höfum við íslendingar skrifað okkar eigin Stjórnarskrá, en það eitt og út af fyrir sig er ekki næg ástæða til að hún verði tekin í notkun. Heldur er þetta líka mótleikur gegn þeim klíkum sem ráðið hafa öllu hér á landi áratugum saman.

Viljum við fá betra og breytt þjóðfélag? Viljum við "Nýtt Ísland?" Já, segi ég og 68% þjóðarinnar. 

Annars er ég líka mjög upptekinn í viðtölum og að ræða heimboð víða um heim til að ræða vinnuaðferðir mínar og það sem gerðist á Austurvelli veturinn 2008/09. Ég er að fara til Kanada eftir mánaðarmótin í nokkra daga og halda þar fyirlestur og svara spurningum. Vegna anna við Austurvalla fundina afþakkaði ég boð til Slóvaníu og Kanaríeyja. En hyggst taka boði um að fara til Kýpur og Eistlands sömu erinda og svo fer ég til Nýja Sjálands í marsbyrjun. 

Svo það er í nægu að snúast.