Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Heimsókn í Laugarnesskóla

hordursjalfur's picture

Þá er að hefja nýjan áfanga í lífinu og byrja að blogga. Ekki alveg viss um að það verði dagleg iðja hjá mér. En ég sé til. En það er kjörið að hefja bloggið á ný uppgerðu síðunni minni með því að segja frá að í morgun heimsótti ég Laugarnesskóla. Tilefnið var dagskrá um skáldið Tómas Guðmundsson.

Þegar ég mætti, uppúr hálf níu, var mér strax boðið á stóra sal í gömlu byggingunni. Þarna hafði ég ekki komið síðan ég var sex ára og var hluta vetrar á heimavistinni og sótti skólann. Þarna byrjaði ég semsagt að læra að lesa og reikna og ég man ekki betur en að skólinn hafi staðið fyrir því að allur krakkaskarinn fór í leikhús. Sjálft Þjóðleikhúsið og við sáum Karlinn frá Tunglinu. Salurinn kallaði fram óljósar minningar hjá mér, fallegur og skreyttur mörgum málverkum eftir marga merka íslenska myndlistamenn.

En semsagt í stóra salnum voru nemendur að flytja leikrit um Mjallhvít og dvergana sjö. Það var unaðslega gaman að fylgjast með sýningunni og tilburðum barnanna. Vonda drottningin sló í gegn þegar hún var búin að plata Mjallhvít til að borða eitraða hluta eplisins og Mjallhvít fallin í öngvit á gólfið því þá hreytti drottningin útúr sér; Hu, hver var að borða eitrað epli? Varst það þú! Og svo strunsaði hún burtu á meðan hláturinn glumdi í salnum. Svo kom drottningin okkur aftur til að hlæja þegar hún tók dauðasenuna. 

Að loknu leikriti var mér boðið upp á sal inn í nýju viðbygginguna. Þar beið mín fjöldi nemanda og kennara og Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur sem spjallaði um Tómas og las upp tvö ljóða hans og ég flutti lag mitt við ljóðið hans; Ég leitaði blárra blóma. Svo flutti ég ljóðið; Fyrir átta árum og lét krakkana syngja með. Skemmtileg stund.

Síðan var okkur Silju boðið í morgunmat ásamt kennurum og skólastjóra og það var ekkert slor. Ríkulega hlaðið borð með ilmandi nýbökuðu brauði og skonsum og ýmsu áleggi, kaffi og te, allt undir stjórn Sigurðar Karls, matreiðslumanns. Og ekki spillti fyrir að skólastjórinn, Sigríður Heiða, ólst upp á Njálsgötunni og ég á Bergþórugötu og við gleymdum okkur við að rifja upp gamla tíma. Það var góð stund.  

Þetta var semsagt góð skemmtun og góð byrjun á sólríkum degi þó fryst hefði um nóttina og ég varð að aka mjög varlega á glerhálum götum.