Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Dæmisaga

hordursjalfur's picture
Það er áhugavert að fylgjast með netspjallinu í Færeyjum um samkynhneigð. Mikið hægt að læra þar. Margt fólk virðist hafa Gamla Testamentið sem leiðarljós og vitnar í það í tíma og ótíma og þá sérstaklega það sem þar segir um samkynhneigð. En svo sleppir það öllu hinu sem stendur í Gamla Testamentinu, skrýtið. Kannski er það vegna þess að að þá þarf fólkið að fara að líta í eigin barm og gera ýmislegt sem ekki er skemmtilegt. Í minni heimabyggð var og er slíkt kallað hentistefna og eitthvað þaðan af verra sem ég ætla ekki að týna til hérna.  Í Gamla Testamentinu minnir mig að sé mikið um að grýta fólk og drepa á annan hátt fyrir eitt og annað sem þykir daglegt brauð í samtímanum. Mig minnir t.d. að hafa lesið þar, fyrir löngu síðan, um áskorun til foreldra ungra manna sem lifðu óreglusömu lífi að fara með þá að borgarhliðinu og láta grýta þá til dauða. Kannski er ekki til borgarhlið í Færeyjum.
Nú er ég þannig innréttaður að ég virði viðhorf fólks og þau lögmál og þá lífssýn sem það vill lifa eftir svo framarlega sem það veldur ekki öðrum né sjálfu sér skaða. En ég get ekki stutt lífssýn Gamla Testamentisins og þaðan af síður þær manneskjur sem velja sér setningu og setningu þaðan en sleppa afgangnum af því að það hentar því ekki. Þessir Gamla Testaments fylgendur velja sér lífsviðhorf eins og allar manneskjur en ég vona að þeir muni eftir að þeir eiga möguleika á að skipta um skoðun og að eðli, kyn og litarháttur einstaklings er ekki val heldur meðfætt. Lífsskoðun er hinsvegar val. Það er meira til af yndislegu fólki í Færeyjum en trénuðum drumbum sem vilja bókstafstrú. Það gefur mér/okkur von og ég veit að breytingar standa þar fyrir dyrum til hins betra. En mikið vildi ég hafa verið á Lögtinginu í dag og heyrt rök þeirra sem líkja stuðningsmönnum samkynhneigðra við nasista :) Það finnst mér meinfyndið því nasistar einbeittu sér að því að útrýma okkur hommum. Mig grunar líka að ef nasistunum forðum var illa við einhvern karlmann og höfðu ekki neitt á hann þá var alltaf hægt að stimpla viðkomandi homma og handtaka hann og jafnvel drepa hann. En merkileg er samt sú staðreynd að bókstafstrúarfólk er alltaf að sækja að okkur hommum. Skyldi það vera vegna þess að við búum við karlaveldi? Karlremban setur það ekki fyrir sig að kona segist vera lesbísk, því konur eru hvort eð er fullar af allskonar tilfinningakjaftæði. Nú og ef kona hefur gaman að því að leika sér við aðra konu þá er karlremban svo sem ekkert á móti því að leika sér að tveim konum í einu í rúminu. Og svo er það með þennan mann sem hæst hrópar og vinnur gegn málstað okkar homma og er duglegastur er að benda á okkur að fólk virðist ekki taka eftir því að það er aðeins einn putti sem vísar á okkur en fjórir á hann sjálfan.     
En fyrir þau sem vilja lesa og fylgjast með umræðu á færeyskum vef þá er hægt t.d. að fara inn á þennan tengil: 
http://www.olivant.fo/planet/?page=min&sub=13&evni=828
Það er full ástæða til að segja fólki sögu sem ég hef verið að segja í meira en 25 ár. Hún er talvert eldri og kennd við mann sem hét Niemeyer og er svona: 
Fyrst komu þeir og tóku sósíal demókratana. Ég var ekki sósíal demókrati svo mér kom það ekki við. 
Svo komu þeir og tóku kommúmistana. Ég var ekki kommúnisti svo mér kom það ekki við. 
Svo komu þeir og tóku hommana. Ég var ekki hommi svo mér kom það ekki við. 
Svo komu þeir og tóku gyðingana. Ég var ekki gyðingur svo mér kom það ekki við. 
Svo komu þeir og tóku mig. En þá var enginn eftir til að mótmæla.