Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Að marg gefnu tilefni

hordursjalfur's picture

Bara svo að fólk hafi það á hreinu; ég hef aldrei skráð mig í stjórnmálaflokk og ég tilheyri ekki íslensku þjóðkirkjunni, né trúarhópi. 
Ég hef unnið sem listamaður í tæp 40 ár og hef haft mannréttindi sem þungamiðju vinnu minnar. Sterkustu vopn mín hafa verið sögur mínar og söngvar sem ég hef ferðast með um landið í áratugi. Ég hef ítrekað ljáð fólki og málefnum rödd mína endurgjaldslaust þegar ég hef talið þess þurfa. 

Og ég undirstrika það enn eina ferðina að; frelsi fylgir ábyrgð. Og ég stend fyllilega við allt sem ég hef gert og sagt á opinberum vettfangi. 

Öll mín vinna og í mannréttindamálum hér á landi hefur verið ólaunað starf í gegnum áratugina. Ég hef treyst á hæfileika mína og vilja til að reyna að bæta mannlíf í þessu landi. Tekjur mínar hef ég haft í gegnum tónleika og plötusölu. Þeir sem halda öðru fram eru einfaldlega lygarar.
Þegar verst hefur gengið fjárhagslega hjá mér þá hef ég einfaldlega brugðið fyrir mig verkamannavinnu. Einfalt mál. Ég skammast mín ekki fyrir að vinna fyrir tilveru minni. En ég geri það ekki á kostnað annarra. 

Einu styrkirnir sem ég hef fengið á ferli mínum eru frá stéttarfélögum og íslenska ríkinu. Annað sætti ég mig ekki við því hver sá listamaður sem fær fyrirtæki til að styðja við sig verður að muna að æ sér gjöf til gjalda og um leið hefur viðkomandi listamaður misst sjálfstæði sitt.

Á Austurvelli stóð ég vaktina launalaust í sex mánuði og það var meira en fullt starf myrkranna á milli. Það er saga á bakvið þau átök. Saga sem ekki hefur verið sögð ennþá og sá eini sem getur sagt hana er ég.  

Fyrir þá sem nenna að hugsa og hafna þeirri áráttu og meinsemd að draga allt og alla í pólitísk flokkshólf bendi ég á að sömu mótmælatækni beitti ég sumarið 2008 fyrir framan Menntamálaráðuneytið þegar ég mótmælti svívirðilegri framkomu Útlendingaeftirlitsins við Paul Ramses og fjöldskyldu hans.

Þar sem ævisaga mín kom út á síðasta ári þá bendi ég forvitnum á að lesa hana. Hún heitir Tabú. Þar fær fólk flesta allar skýriningar á vangaveltum sínum um störf mín og markmið.

Meira var það ekki að sinni.