Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Að fá BPPV.

hordursjalfur's picture

 

Fékk BPPV síðastliðið mánudag, 28 feb. Fyrst um morguninn þegar ég var að fara á fætur. Skall í þrígang niður í rúmið. Lá lengi rólegur að jafna mig og reis hægt á fætur. Hvarflaði að mér að þetta væri  eitthvað með blóðþrýstinginn að gera og lét mæla hann síðdegis. Ekkert að finna þar. Var samt á varðbergi og ók ekki bíl. Mér leið ágætlega allan daginn og gekk mikið um borgina allskonar erinda. En um kvöldið þegar ég var að leggjast til svefns skall þetta yfir mig af alefli og ansi svæsið. Ég misst gjörsamlega allt jafnvæisskyn, jafnvel þegar ég reyndi að liggja kyrr hringsnérist allt fyrir augum mér og þau voru á stöðugu iði. Mikil vanlíðan. Það dró þó úr áhrifunum með því að ég lá grafkyrr. En við minnstu hreyfingu skullu áhrifin yfir mig.

Það var hringt á sjúkrabíl og ég var drifinn uppá bráðavakt og lá þar yfir nótt í rannsóknum og undir eftirliti alla nóttina.

Um miðjan þriðjudagsmorgun var ég læknaður og mér kennd æfing (Epley) við þessu og sendur heim. Fór inn á netið og grúskaði. Síðdegis á þriðjudag fann ég einkennin færast yfir mig og náði að koma mér í stellingar og gera Epley æfinguna og jafna mig. Epley aðferðin virkar vel en ég var ekki sáttur við að fá ekki að ræða við aðra sem höfðu fengið þetta, því ég vildi vita hversu lengi menn geta verið að kljást við þetta og vildi heyra reynslusögur og af árángri. Mér var sagt að sennilega yrði ég að kljást við BPPV amk. í hálft ár, jafnvel lengur. Þetta er einstaklingsbundið. Ákvað þó að taka þetta ekki sem sjúkdóm heldur nýjan þátt í tilverunni og takast á við ástandið. 

 

Fann talsvert efni á netinu, en mest kennslu. Það var uppbyggilegt og fræðandi. Þar á meðal fann ég viðtal við tvo sérfræðinga sem sögðu frá  meðferð sem byggir á að setja á sig hálskraga og halda hausnum í sömu stellingu í 48 tíma, strax að lokinni Epley æfingu. Nokkuð öfgakennt en ég ákvað að slá til. Hvað eru 48 klst. miðað við hálft ár? 

Það var keyptur hálskragi fyrir mig og ég fór í sturtu og skipti um föt og gerði Epley æfinguna og setti síðan á mig hálskrgann og settist í hægindastól með háu baki og skorðaði mig vel af svo ég væri vel stöðugur. Þarna sat ég í 50 tíma samtals, svaf mest fyrri sólarhringinn og var lystarlaus, máttlaus, mjög þyrstur og ringlaður í hausnum. Minn yndislegi eiginmaður hjúkraði mér af mikilli umhyggju og  mataði mig á yndislegri kjúklingasúpu (frá krúttinu henni Lenu :) og sá til þess að ég  fengi vatn. 

Eftir rúman sólarhring var ég farinn að hressast og stóð upp annað slagið og hreyfði allan skrokkinn hægt og yfirvegað, til að stirðna sem minnst og fá ekki í bakið. Allt þetta tókst vel og ég reis á fætur kragalaus á föstudagseftirmiðdag. Fann í fyrstu, kragalaus, fyrir óöryggi og smá svima annað slagið. 

Aðalhættupunktarnir eru þegar maður rís upp eða leggst niður. 

 

Föstudagskvöld ákvað ég að sofa í rúminu mínu og setti kodda svo ég svæfi á 45 gráðu halla. Svaf vel en þegar ég vaknaði á laugardagsmorgni og fór varlega og hægt á fætur var mikill hamagangur í hægra eyranu, aðallega dynkir. En það sem skipti mestu máli var að ég fékk ekki aðsvif, hvorki við að leggjast niður eða rísa á fætur. En ég var þreyttur og dasaður, með vægan seiðing á milli gagnaugna og ríg aftan til í hálsi. Ég lagði mig aftur og lagðist þá á hægri hlið. Steinsofnaði við dynkina og svaf þannig í nokkra klukkutíma. 

 

Eftir hádegi á laugardag ákvað ég að fara niður á Austurvöll og fylgjast með útifundinum um stjórnarskrána. Ég þurfti að stoppa nokkrum sinnum á leiðinni niður í bæ og jafna mig. Aðallega vegna eigin óöryggis og slappleika. Fann ekki til aðsvifs eða jafnvægisskorts. 

Nú er langt liðið á sunnudag og ég fór í ánægjulegan göngutúr, ásamt hinum helmingnum, og hef ekki enn fundið til neinna jafnvægistruflanna en verð þó að gæta mín á að líta ekki mjög snöggt upp því þá svimar mig. 

 

Semsagt 48 tíma meðferðin virðist hafa virkað. En ég get ekki fullyrt neitt um það þar sem ég hef ekki samanburð frá öðru fólki sem hefur fengið BPPV.

 

Það væri gaman að heyra frá öðrum um BPPV.