1 Apríl 2012

Í gær, 1 Apríl 2012, skrifaði ég færslu á Facebook að ég hyggðist bjóða mig fram til forseta.  Auðvitað var ég að glettast smávegis í tilefni dagsins í gær en vildi ekki stíga skrefið til fulls og plata fólk á einhvern stað. Fannst það fullangt gengið. En margir hafa haft samband við mig undanfarið og hvatt mig til að skella mérí í forsetaframboð. Í núverandi ástandi þar sem allt snýst um peninga væri slíkt óðs manns æði fyrir mig auk þess sem ég aðhyllist ekki þá stefnu í okkar landi að forsetaframbjóðandi þurfi að hafa milljónir til að kynna sig. Ég vinn nefnilega gegn alræði peningastefnunnar og vil aðskilja hana frá stjórnmálum. Stjórnmál eiga að vera í þágu allra en ekki fárra. Með fullri virðingu fyrir fésýslu og viðskiptum. En ég kýs ekki þingmann til að hann fari líka á laun hjá einkafyrirtækjum, slíkt heitir mútur og er gróf misnotkun á starfi þingmanns. En í fullri einlægni tel ég mig lang best kominn þar sem ég er í okkar samfélagi sem aðgerðarsinni og listamaður. Ég hef margoft lýst því yfir á mínum langa ferli að hvert samfélag þarf að hafa einn sjálfstæðan listamann sem beitir sér óhikað fyrir aðgerðum eins og ég hef gert í gegnum áratugina. Það er nefnilega ekki nóg að tala það verður að framkvæma. Og ég er enn að! Það sem fæstir gera sér grein fyrir er að ég er nánast á stöðugum fyrirlestrarferðalögum víða um heim að útskýra friðsamlegar starfsaðferðir mínar og ástandið sem var og er á Íslandi. Búsáhaldabyltingin okkar er víða þekkt sem Þögla byltingin en hún hefur vakið mikla athygli víða um heim og menn vilja læra af henni. Pólitískur skotgrafahernaður er mjög áberandi hér á landi eins og kemur vel fram í skrifum Árna Snævarrs hér að ofan og það er miður. Ég undirstrika enn og aftur, eins og ég hef gert síðan 1970, að ég starfa sem sjálfstæður listamaður og aðgerðarsinni ótengdur stjórnmála og trúarsamtökum og lít á mig sem þjón mannúðarmála. Margt miðaldra og yngra fólk þekkir ekki mína sögu því ég var byrjaður mitt starf áður en þau fæddust:) Ég bendi fólki þessvegna oft á að lesa samtalsbókin Tabú um feril minn og starf. Sú bók var þrjú ár í smíðum og kom út haustið 2008. En síðan skráningu þeirrar bókar lauk hefur bæst við starf mitt framtakið í máli Paul Ramses og aðferðirnar á Austurvelli undir nafni Radda fólksins og svo það mikla starf sem ég hef unnið á síðastliðnu ári á alþjóðlegum vettfangi. Um það þarf ég að fjalla um í nýrri bók þegar tími vinnst til því það er alveg klárt mál að íslenskir fjölmiðlar hafa ekki hreyft við þessu starfi mínu, nema Grapevine sem tók við mig viðtal sumarið 2011. - En ég byggi líf mitt og starf ekki á íslenskum fjölmiðlum og hef aldrei gert þó óneitanlega væri það skemmtilegra og árangursríkara að vera í samvinnu við þá. - En þrát fyrir allt þá skulum við muna að horfa í björtu hliðar tilverunnar og standa einbeitt saman þannig virkar samfélag best. :)