Hörður Torfa

Heimasíða Harðar Torfasonar

Hrun

hordursjalfur's picture

Hrun heillar þjóðar er merkileg upplifun af því að maður er hluti þjóðarinnar. Þetta er að gerast í mínu lífi og allra íslendinga hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þetta er ekki neitt sem ég bað um eða vildi en ég kemst ekki framhjá á einn eða annan hátt, frekar en aðrir. Hér þýða engin Pollýönnutök, því illu heilli, þetta bitnar á lífi mínu frá því að ég vakna þar til að ég sofna, alla daga og hefur gert síðan í septemberlok 2008. Og nú er komið undir lok apríl 2010.

Friðhelgi manns hefur verið rofin á eins grófan hátt og hægt er í okkar samfélagi. Þetta hrun er eins og innbrot þar sem ómetanlegum verðmætum hefur verið stolið frá manni þrátt fyrir að maður hafi haft öruggasta og besta þjófavarnakerfi í heimi að sögn yfirvalda. Yfirvöld brugðust öllum, sviku,lugu, blekktu og hjálpuðu þjófunum á allan hátt. Og nú þegar þjófarnir hafa verið staðnir að verki og samspil þeirra og yfirvalda kemur í ljós þykjast allir þar á bæ sárasaklausir. Engi gerði neitt af sér. Þetta gerðist bara óvart. Engum að kenna. En skaðann eigum við, þjóðin, að bera. Þetta er nefnilega mátulegt á okkur fyrir að hafa verið svona grunlaus og hafa ekki fattað leikfléttu græðginnar.    

Þetta ástand hundeltir alla og menn bregðast eðlilega misjafnlega við. Sumir brosa og reyna að harka þetta af sér en maður er fljótur að skynja sársaukann í augunum, aðrir eru svo þjáðir að þeir frussa yfir mann reiðilestrinum sem þeir geta ekki með nokkru móti haldið niðri. Svo er það ósýnilega fólkið sem maður heyrir um að sé orðið svo fátækt að það eigi ekki mat. Verstir eru leigupennar og höfðingjasleikjur þeirra sem rændu okkur og komu okkur í þessa stóðu með heimsku sinni og græðgi. Þessir aðilar tala nú hátt um að fyrirgefa og að hefja endurreisn. Hvað mig varðar þá hófst endurreisnin fyrir löngu og með útgáfu Skýrlunnar var loks kominn botn til að spyrna í. En að fyrirgefa er ekki hægt fyrr en þeir sem báru ábyrgð sýni í verki vilja sinn til að bæta fyrir þær hörmungar sem þeir ollu. Það er ekki einn einasti núlifandi íslendingur sem sleppur við að þjást vegna verka þessa fólks sem olli hruninu. Og við munum þjást lengi.

Það er ekki hefndarþorsti sem knýr mig áfram heldur krafan um bætur og leiðréttingu. Fyrir hrun fékk maður að heyra að maður væri bara öfundsjúkur ef maður talaði um að ástandið væri ekki eðlilegt og það væri eitthvað að. Þá mátti ekki gagnrýna neitt. Höfðingjasleikjurnar og leiguþý þjófanna vann fyrir launum sínum þá eins og þeir gera núna. Það sem áður var kallað öfund er nú kallað hefndarþorsti. Í mínum huga er það gagnrýnin hugsun. Og mér er ljóst núna eins að réttlætið er brött brekka en upp skal ég.

 Reykjavík 27 apríl 2010