Svona fólk

Ég fór að sjá kvikmyndina „Svona fólk" eftir Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Ég hvet alla til að sjá þessa mynd og líta í þjóðarspegilinn og eigið sjálf. Þessi kvikmynd er hreint út sagt afrek hjá Hrafnhildi. Hlýtur að hafa reynt mikið á hana á margan hátt. Þetta verk Hrafnhildar er auðvitað mjög persónuleg upplifun hennar og ber þess merki. Líkt og margir þá fellur hún í þá gryfju að kynna sér ekki vel aðstæður og aðferðir þeirra sem hófu baráttuna. Hún hefði mátt gera betur þar því það er einu sinni hlutverk þeirra sem gera heimildarmyndir að hafa það sem rétt er. Rannsaka vel það sem gerðist og styðja sig við staðreyndir en ekki gremju einstaklings sem var ekki einu sinni á landinu þegar Samtökin ´78 voru stofnuð og var andstæðingur þeirra.

Myndin er fallegt mósaik en jafnfram sorglegt um baráttu hinsegin fólks við staðnað,ofbeldisfullt samfélag sem hafnaði staðreyndum og lét stjórnast af geðþótta og trúarkreddum. Ég sat oft með grátinn í kverkunum eftir þessa upprifjun minnugur þess þess sora sem ég sem upphafsmaður baráttunnar þurfti að uppplifa.

Myndin lýsir einnig vel þerri sundrung sem ríkti meðal samkynhneigðra eftir að opinber barátta hófst með frægu viðtali við þann sem þetta skrifar. Menn skiptust í tvær fylkingar; þá sem vildu djamma og þá sem vildu vinna að lagalegum réttindum.

Það er áhugavert að sjá hversu svipuð viðbrögð manna við stofnun baráttusamtaka samkynhneigðra eru í Danmörku og á Ísland. Í Danmörku voru stofnað Forbundet ´48 og á Íslandi Samtökin ´78. Í báðum löndunum fór hópur homma fljótlega í andstöðu við formlegheitin og fundarsköp sem fylgdu og vildu bara djamma. Þessum hópum var mjög uppsigað við samtökin og veittust kröftugleg að þeim og þeim sem fyrir þeim stóðu, svo einkennilegt sem það nú var því ekki voru samtökin að taka af þeim skemmtanaleyfið, síður en svo. Í Danmörku var stofnaður hópur sem kallaði sig Bösserenes Befrielsesfront en á Íslandi pósthólfið Iceland Hospitality og þeir fáu aðilar sem stóðu að því héldu því fram að pósthólfið væru samtök!. Það voru ákvarðanir þriggja manna sem réði för IH og það var engin að blanda sér í hegðun þeirra fyrr en framkoma þeirra gekk yfir strikið. Þeir kölluðu sig samtök og kynntu sig sem baráttufólk fyrirbetri heimi en sýndu af sér fordóma. Hefðu þeir gert þetta aðeins í eigin nafni hefði mér ekki komið þetta við. En þeir létu í veðri vaka að þeir störfuðu á vegum allra homma á Íslandi, í nafni okkar allra. Þeir höfðu ekkert umboð til slíks og höfðu aldrei sóst eftir því. Þeir áttu sér engin lög og reglur né formlegt starf. Stóðu eingöngu fyrir partýum, kynlíf, djamm og dóp var þeirra stefna og allt gott um það að segja enda fyrst og fremst mál þeirra sem það stunda. Slíkt hefur mannkynið ástundað í aldir og bara haft misgott af, svona eins og gengur. Enn IH var á engan hátt baráttusamtök fyrir mannréttindum og veittu ekki neinn stuðning í þá veru. Núna áratugum seinna eru Forbundet ´48 og Samtökin ´78 ennþá til og hafa skilað miklu og árangursríku starfi á meðan Bösserenes Befrielsesfront og Iceland Hospitality lognuðust útaf.

 

Reykjavík 27 nóvember 2018