Nokkrar veigamiklar dagsetningar úr lífi mínu sem aðgerðarlistamaður.

Sagan skilur eftir sig spor, staðreyndir sem við verðum að kunna að lesa rétt í. Samhengi hlutanna skýrir söguna, augnablikið, ástandið, gjörninginn, framvinduna, breytingarnar. Á námsárum mínum í leiklist (1966-1970) velti ég mikið fyrir mér tilgangi listamannsins í samfélaginu og komst að því að best færi á því að ég ferðaðist og bergmálaði það sem ég sá og upplifði í sögum og söngvum. Eðlilega tók það mig tíma að átta mig á aðstæðum og finna þessari niðurstöðu minni farveg. Þessi stefna hefur verið grunnurinn í öllu sem ég hef unnið að í gegnum áratugina. 

Þegar ég lagði af stað úti í tilveruna sem nýútskrifaður listamaður var leiðin spennandi og áframdagandi því stöðugt var eitthvað nýtt þegar komið var fyrir næsta horn eða yfir næsta hæðadrag eða í næsta þorp. Þó ekkert væri eins var það samt allt svipað, með tilbrigðum þó. Ég sat ekki og beið heldur var ég stöðugt á hreyfingu og hver dagur tekinn snemma og staðan tekin til áframhalds. 

Núna, öllum þessum árum seinna, þegar  reynsla, aðbúnaður, aldur og aðstæður hafa breyst, og ferðalögum fækkað verulega, fer vel á að líta yfir farinn veg og fara yfir verk sín og framkvæmdir. Ég hef ítrekað orðið var við það í seinni tíð að ýmsir fara ekki rétt með staðreyndir og þá er það einfaldlega skylda mína að fara vel yfir hvað gerðist hvenær, hversvegna og hvar og koma því á framfæri. 

 

    Eftirfarandi listi er hluti af verkefni hefur ég hef unnið, samkvæmt bestu heimildum, í samvinnu við aðra svo allt sé sem réttast. Takk fyrir hjálpina Kristján Frímann Kristjánsson, Þórarinn Jón Magnússon og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Menn eru beðnir að hafa samband og leiðrétta ef þeir telja listann ekki réttann. 

 

   A

23 mars 1971. Fyrsta íslenska trúbadúraplatan gefin út. „Hörður Torfason syngur eigin lög”. Hún var líka fyrsta íslenska víðóma platan (steríó). Þessi plata ruddi veginn fyrir þá sem vildu feta leið einfarans í tónlist. 

    

  

1 ágúst 1975. Tímaritið Samúel birtis viðtal við Hörð Torfason, leikara og söngvaskáld sem setti íslenskt samfélag á hliðina. Í þessu samtali steig Hörður fram, fyrstur íslendinga, og lýsti því yfir að hann væri hommi. (Orðið samkynhneigður var þá ekki komið fram.) 

 

   C

9 mai 1978. Eftir margra ára tilraunir tókst Herði Torfasyni, leikara, leikstjóra og söngvaskáldi, að stofna baráttusamtök fyrir réttindum samynhneigðra á Íslandi á heimili sínu í Reykjavík. Þar með var hafin formlega barátta fyrir lagalegum réttindum samkynhneigðra á Íslandi. Fyrsti formaður S´78 var Guðni Baldursson.   

 

   D

4 Júlí 2008. Hörður Torfason hóf mótmæli fyrir framan Menntamáluráðuneytið í Skuggasundi vegna brottvísunar Paul Ramses. Hörður vildi líka hefja málefnaleg og friðsamleg mótmæli til vegs og virðingar, að almenningur skildi rétt sinn til þeirra, tilgang þeirra og mátt, væri rétt að þeim staðið.

 

   E

11 október 2008. Klukkan tólf á hádegi stillti Hörður Torfason leikari, leikstjóri og söngvaskáld sér upp á Austurvelli með nokkar spurningar. Þetta framtak hans var upphafið á viðamiklum markvissum mótmælum sem hann skipulagði og stjórnaði. Mótmælin stóðu yfir í 5 mánuði og náðu settu marki: Að hrekja ríkisstjórn Geirs H. Haarde frá völdum. 

 

  F

Mai 2010. Hörður Torfason leikari, leikstjóri og söngvaskáld skipulagði og stóð fyrir fjórum umræðufundum  um nýja stjórnarskrá. Fundirnir voru haldnir í Gallerí Hornið í Hafnarstræti í Reykjavík.  
  2 mai: Páll Skúlason, heimspekingur.
  9 mai: Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.

16 mai: Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði.
23 mai: Aðalheiður Ámundadóttir, lögmaður.

 

 

 

(Ljósmyndin er tekin af Óla Páli Kristjánssyni árið 1971.)