Nokkrar veigamiklar dagsetningar úr lífi mínu sem aðgerðarlistamaður.

Sagan skilur eftir sig spor, staðreyndir sem við verðum að kunna að lesa rétt í. Samhengi hlutanna skýrir söguna, augnablikið, ástandið, gjörninginn, framvinduna, breytingarnar. Þannig getum við lært af því sem hefur heppnast, nú eða misheppnast. Mistök kenna manni mest. Það er engin þvæla að það þarf marga smásigra til að ná þeim stærsta og veigamesta. 

 Á námsárum mínum í leiklist (1966-1970) varð ég fyrir ótal niðurlægjandi athugasemdum og höfnun vegna þess að ég sá ekkert athugunarvert við að vera samkynhneigður. Mitt viðhorf var að réttur eins væri réttur allra og ég gaf það ekkert eftir. Ég velti mikið fyrir mér tilgangi listamannsins í samfélaginu og komst að þeirri niðurstöðu að best færi á að ég ferðaðist um og bergmálaði það sem ég sá og upplifði í sögum og söngvum. Vinna með áhugaleikhúsum. Eðlilega tók það mig tíma að átta mig á aðstæðum og finna niðurstöðum minni farveg. Starf leikstjórans er stjórnun. Þessi stefna hefur verið grunnurinn í öllu sem ég hef unnið að í gegnum áratugina sem aðgerðarlistamaður. 

Þegar ég lagði af stað úti í tilveruna sem nýútskrifaður listamaður var leiðin spennandi og áframdragandi því stöðugt var eitthvað nýtt að birtast mér við næsta horn eða  hæðardrag eða þorpi. Mannlíf, fjölbreytileiki þess og afleiðingar hrífandi. Ég sat ekki og beið heldur var ég stöðugt á hreyfingu og hver dagur tekinn snemma og staðan tekin til áframhalds. 

Hlutverk mitt, sem söngvaskálds, var að taka eftir, hlusta, spyrja draga saman og setja í söngva, sögur eða leikrit. Spegla samfélagið.

Starf mitt sem leikhúslistamanns, leikstjóra,var krefjandi, heillandi, gefandi. Kenndi mér og gaf mér skýra innsýn í mannlegt eðli, fjölbreytileika þess. Að kenna er að læra. 

Ég hef ítrekað orðið var við það í seinni tíð að ýmsir fara ekki rétt með staðreyndir og þá er það einfaldlega skylda mína að fara vel yfir hvað gerðist hvenær, hversvegna og hvar og koma því á framfæri. 

Þessvegna hef ég skrifað tvær bækur um starf mitt; Tabú og Bylting. Það tók mig og rithöfundinn Ævar Örn Jósepsson þrjú ár að skrifa bókina Tabú. Auðvitað með hléum, því ég var önnum kafinn og á stöðugum fertðalögum. En líka vegna þess að við fórum vel í saumana á því sem hafði gerst og það tók stundum mjög á mig tifinningalega að rifja upp. En við studdumst við heimildir og létum staðreyndir stjórna bókarskrifunum.

Bókina Bylting skrifaði ég sjálfur og byggði á dagbókarfærslum sem ég hélt veturinn 2008/09. 

 

    Eftirfarandi listi er hluti af verkefnum sem ég hef unnið í samstarfi við fjölmarga aðila. Listinn er unninn  samkvæmt bestu heimildum, í samvinnu við aðra svo allt sé sem réttast. Takk fyrir hjálpina Ævar Örn Jósepsson, Guðni Baldursson, Halldór Randver  Lárusson, Þórir Björnsson, Kristján Frímann Kristjánsson, Þórarinn Jón Magnússon,    Ljósmyndasafn Reykjavíkur og allir sem veittu aðstoð.

 

Ferilsstiklur.

 

Harðar Torfasonar leikstjóri, söngvaskáld og mannréttindabaráttumaður. 

 

   A

23 mars 1971. Fyrsta íslenska trúbadúraplatan gefin út. „Hörður Torfason syngur eigin lög”. Af mörgum talin brautryðjandaverk. Hún var líka fyrsta íslenska víðóma platan (steríó). Þessi plata ruddi veginn fyrir þá sem vildu feta leið einfarans, söngvaskáld sem túlkaði eigin verk í tónlist. Ástand í málum listamanna, milliliðir hirtu laun listamanna, og viðvarandi smættun og niðrandi framkoma í minn garð sem samkynhneigður maður varð til þess að ég ákvað síðla  árs 1973 að starfa sjálfstætt, sem eins manns farandleikhús. 

   

  

1 ágúst 1975. Tímaritið Samúel birti viðtal við mig. Í þessu samtali steig ég fram fyrir skjöldu og lýsti því yfir að ég væri hommi. Ég sá ekkert athugunarvert við þetta og fannst löngu kominn tími til að ræða málin. Ég hafð ítrekað mætt niðurlægjandi og smættandi framkomu og var orðinn þreyttur á slíku. En íslenskt samfélag fór á hliðina af vandlætingu og hneykslan. Nánast samstundis snéru flest allir við mér baki og ég, þessi eftirsótti listamaður, varð atvinnulaus og hundeltur. Á vordögum 1977 varð ég að flýja land vegna ofsókna og stöðugra hótana vegna kynhneigðar minnar.

 

   C

Þann 1 september 1977 kom ég gagngert til Íslands til að stofna baráttusamtök fyrir réttindum samkynhneigðra. Það var mjög erfitt vegna ótta annarra samkynhneigðra að gangast við málefninu opinberlega. Það var ekki fyrr en ég hitti og ræddi Guðna Baldursson að það tók að rofa til og sjást til lands. Guðni skyldi pólitískt markmið og aðferðir og styrkur hans lá í að hann var fastráðinn hjá ríkinu og átti eigin íbúð. Það tókst loks að stofna baráttusamtökin Samtakanna ´78 þann  9 mai 1978.

 Þar með var hafin formlega barátta fyrir lagalegum réttindum samkynhneigðra á Íslandi. Markmið okkar var að koma málefninu á framfæri meðal stjórnmálamanna. Okkur var fljótlega ljóst að þetta snérist fyrst og fremst um mannréttindi því réttur eins er réttur allra. Þetta tímabil var mér áhrifamesta kennlustund sem ég hef fengið í leikstjórn. Þarna mótaðist hjá mér stefnan um upplýst einræði með því loforði að skila því um leið og markmiði væri náð. Fyrsti formaður S´78 var Guðni Baldursson. Vegna ótryggs ástands og sífelldra hótanna fór ég aftur til Kaupmannahafnar þar sem ég hafði sest að og hafði sem bækistöð næstu áratugina.    

 

   D

Haustið 1978 hóf ég skipulagðar ferðir um Ísland, sem listamaður og baráttumaður, sem eins manns leikhús með sýnileika og hæfileika að vopni. Markmið mitt var að heimsækja hvert einast þorp og hvern einasta bæ á Íslandi og fara þar um og sýna og sanna hæfileika mína sem listamaður og ögra viðhorfum margra til samkynhneigðrar. 

Hver einast íslendingur vissi hver ég var og varð að kljást við eigin viðhorf því ég var vel meðvitaður um að ég passaði ekki inn í hugmyndir þeirra. 

 

E

4 Júlí 2008. Ég hóf skipuleg og markviss mótmæli fyrir framan Menntamálaráðuneytið í Skuggasundi vegna brottvísunar Paul Ramses. Ég vildi hefja málefnaleg og friðsamleg mótmæli til vegs og virðingar. Beita upplýsu einræði með því loforði að skila því um leið og markm iði okkar væri náð. 

 

   F

11 október 2008. Klukkan tólf á hádegi stillti ég mér upp á Austurvelli með nokkar spurningar til allra sem framhjá fóru um það fjármálahrun sem hafði orðið þann 6 október. Viku seinna hafði ég skipulagt mótmælafundi og opnað ræðustól fyrir almenning á Austurvelli. Síðan stofnaði ég „ Raddir fólksins” til að halda utan um viðburðina. Þetta framtak mitt var upphafið á viðamiklum markvissum mótmælum sem ég stjórnaði næstu 5 mánuði og náðu settu marki. Þarna beitti ég upplýsu einræði með því loforði að skila því um leið og markmiði mótmæalanna væri náð. 

 

 G

Mai 2010. Ég skipulagði og stóð fyrir fjórum umræðufundum  um nýja stjórnarskrá. Fundirnir voru haldnir í Gallerí Hornið í Hafnarstræti í Reykjavík.  

  2 mai: Páll Skúlason, heimspekingur.

  9 mai: Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur.

16 mai: Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði.

23 mai: Aðalheiður Ámundadóttir, lögmaður.

 

 

(Ljósmyndin er tekin af Óla Páli Kristjánssyni árið 1971.)